Haraldur Jónsson

RúsínurÉg á í rauninni frekar erfitt með að ræða þetta.
En þegar dagsbirtan brýst svona blóðrauð í gegnum augnalokin verð ég að opna þau.
Það er ekki seinna vænna.
Það virðist líka vera þannig að hugurinn leitar öðruvísi eftir því hvernig umhverfið er í laginu. Ég er oft að hugsa um þetta. Til dæmis fá menn aðrar hugmyndir í kúluhúsum heldur en ferköntuðum. Þetta hefur verið sannað með einföldum útreikningum. Eða ef maður stendur á opnu torgi frekar en í þröngri beinni götu. Sem liggur út í dauðan enda. Botnlanga.
Stundum stend ég svo lengi á sama stað og velti þessu fyrir mér að ég fæ á tilfinninguna að ég sé orðinn hluti af borgarskipulaginu. Það er oft eins og hugurinn sé smíðaður úr áþreifanlegum efnum. Sé skilyrtur af þeim. Hann er einhvers konar háhýsi. Eða loftvarnabyrgi. Innan í honum flögra síðan loftkenndar hugsanir og minningar á milli herbergja og hæða. Þær lúta ákveðnum lögmálum.
Oft þyngdarlögmálunum.

Þegar ég horfi yfir hæðótt landslagið í hring rís samt ein hæð hæst. Og varpar yfir umhverfið dimmasta skugganum. Skólavörðuholtið*.

Á þessum slóðum mótuðust og meitluðust æskuárin. í einum og sama hnappnum.

Mynda hringiðu. Hyl. Svarta holu.

Samt var veðrið yfirleitt eins og ég vildi hafa það.

Þetta voru stór hús. Risu eins og hamraborgir í yfirstærðum yfir hausamótunum á mér. Og örugglega hinum börnunum líka. Þegar ég hugsa um það núna er eins og þau séu að steypast yfir mig. Líkt og talað er um heimsenda í mörgum trúarritum. Og maður hefur séð í hamfaramyndum í beinni útsendingu. Ég var líka dökkhærður og með brún augu. Mig dreymdi þá líka stundum að ég hefði verið gyðingabarn í fyrra lífi. Og endaði þannig lífið undir þurri sturtu. Það var þess vegna sem mér líður svo vel í rigningu. Er feginn þegar vatnið loksins kemur.

Byggingarnar voru margar þaktar skeljasandi. Líkt og þær hefðu upphaflega verið reistar á hafsbotni. Samt var engin fiskilykt á göngunum. Miklu frekar hreingerningarlögur. Sem einkennir yfirleitt opinberar stofnanir.
En bónið lét gólfin glampa. Á vissum augnablikum dagsins voru þau endalaus og gegnsæ. Þá gengum við ósjálfrátt hægar um þau. Jafnhægt og Jesú gerði í sunnudagaskólanum. Á leiðinni yfir vatnið. En ef að ég leyfði mér að halla mér upp að utanverðum veggjunum vissi ég um leið að það væri ekki þægilegt. Áferð þeirra var hrjóstrug.
Eins og hugmyndin að baki þeim.
Samt er handarbakið hrjúfara en lófinn og tungan mýkri en varirnar.
Ef út í það er farið.

í kringum Austurbæjarskólann var hvergi staður eða skjól til að fela sig eða þá hluta sálarinnar sem þoldu ekki íslenskt veðurfar. Allt var flóðlýst. Þó að byggingin sjálf væri frekar dimm.
En inni í henni tókum við mikið út af þroskanum. Hér hljóp ég yfir bekk. Þarna lærði ég að fara heljarstökk.
Þegar við vorum send í ljós voru sett svargræn gleraugu með leðurumgjörð yfir augun. Sem lögðust þétt upp að augntóftunum. Á sama tíma fékk ég margan sólstinginn. Án þess að vita af því. Úr næsta herbergi barst gjarnan sver hreimur miðaldra konu. Út um allt lék útfjólublá lykt ljósabekkjanna um nasavængina.
Og gerir enn.

Í kjallara skólans var hár og hallandi kvikmyndasalur. Þar horfðum við gjarnan á uppbyggjandi bíómyndir um lífið til lands og sveita. En metramunurinn í hæðinni gerði að verkum að ég var með svima allan tímann.
Mér fannst sem ég væri að detta inn í tjaldið. Þetta varð til þess að ég naut myndarinnar öðruvísi. Og var einhvern veginn nær atburðarásinni. Líkt og þegar menn þurfa að setja á sig hjálm og rafmagnshanska þegar þeir vilja og ætla sér að stíga inn í þennan svokallaða sýndarveruleika sem allir eru að tala um núna.

Er það almenn regla að menn svimi þegar þeir hugsa um það sem virðist löngu liðið?

Í þessu umhverfi voru heldur ekki nein aukaatriði. Þetta var þýskættaður berangur. Með öguðum hornum. Órafjarlægð frá rúnnuðum og lífrænum leikföngum Waldorf-skólans.
Samt tilheyrðum við fyrstu kynslóðinni sem lærði mengi. Mengjakynslóðinni. Þegar stærðfræðin varð hlutgerð og teiknuð upp í áþreifanlegum formum á græna töfluna í enda stofunnar. Bókstafir urðu jafngildir tölustöfum. Setningar voru framkallaðar í jöfnum.

Innan í þungri Sundhöllinni lærði ég síðan að taka fyrstu sundtökin. Og síðar að kafa alveg til botns. Og koma upp aftur. Sundkennarinn sagði stundarhátt í einum tímanum að þarna inni væru Vottar Jehóva skírðir til trúarinnar vissa sunnudaga. Þetta varð til þess að ég bjóst oftast við að sjá hvítar dúfur flögra um þegar ég kom aftur upp eftir dýfingarnar. Í staðinn flögruðu þær aðeins innan í höfðinu.

Hinum megin við götuna var Heilsuverndarstöðin. Hún var eins á litinn og þegar maður roðnar. Þar voru teknar myndir af lungunum í mér. Þau voru alltaf að leita að berklum hjá minni kynslóð. Þá sá ég að það bjó meira undir húðinni en blóð og bein. Líka dimmblár litur. Og hvítar skærar línur. Þarna inni var hyldjúpur heimur. Sem var greinilega skipulagður fram í fingurgóma. En samt svona örþunnur á hálfgegnsærri filmunni. Líkt og ég sá þegar ég horfði upp í gufuhvolfið af óupplýstu Holtinu. Hreyfingar himintunglanna. Hjúkrunarkonan vildi samt aldrei gefa mér eintak af svona röntgenmynd. Hvað þá selja mér hana. Þess vegna varð ég að láta mér nægja vetrarhimininn.

Hallgrímskirkjuturn var falinn á bakvið uppsláttarmót og vinnupalla allan tímann. Spelkur. Innan undir þeim var mér kennt að trúa á guð. Og búa til engla úr innfluttum glanspappír. Sumir voru dottnir á gólfið í lok tímans.
Ég sá aldrei turninn sjálfan.
Aðeins líkanið af fullbúinni kirkjunni í öðrum hliðarvæng hennar.
Það var ekki fyrr en áratug síðar sem ég sá turninn fínpússaðan og fullbúinn. Hann var skakkur.
Og er enn.

Líkaminn er má segja nokkurn veginn spegilmynd sjálfs sín. Það er hægt að skera hann eftir endilöngu og horfa allt í einu á tvo svipaða líkamshluta. Eins og þegar maður brýtur mannspil í tvennt eftir miðjunni.
Vörðuskóli er þannig í laginu.
Samfallandi spegilmynd. Eins á báðar hliðar. Þess vegna man ég fátt og ekkert frá árinu sem ég eyddi þar. Síðasta landsprófsárinu. Þegar ég reyni að opna dyrnar með huganum er ekkert á bakvið þær.
Hjartað er samt alltaf vinstra megin. En maður heilsar með þeirri hægri.

í fyrrasumar gekk ég með þýskum vinum mínum um þetta hverfi. Þeir urðu undarlegir á svipinn um leið og þeir sáu hæðina. Tíminn breyttist strax á úrunum þeirra. Þeir byrjuðu að tala aftur á bak. Síðan spurðu þeir auðvitað hvaða fyrirbæri þetta væru. Fundu undir eins fyrir einkennilegu andrúmslofti. Þeim fannst sem Adolf væri að klípa í taugaendana.
Það var rúsínan á pítsuendanum.

Ég get alveg ímyndað mér að af að alast upp í slíku umhverfi sé eins og að vaxa eingöngu innan um IKEA hluti. Þangað til að beinin eru orðin hörð og barnafitan brunnin.

Þannig.

________________

*
Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég komst að því að allar byggingarnar á Skólavörðuholtinu voru hugarsmíð og steinsteypa eins og sama arkitektsins. Og upphafin draumabyggð annars manns sem þá var ráðherra. Og fól honum að hanna öll þessi hús. I þýskum ný- klassískum anda. Rómantík og hönnuð náttúra. Þjóðernisstefna. Steypt stuðlaberg. Veðruð gildi frá botni Miðjarðarhafsins. Þetta átti víst að verða Akrópólis Norðursins.

Bjartur og frú Emilía, 01.07.1995
Hlekkur á gagn