Hannes Lárusson

SýningartextiListin er skiljanleg. Það er einmitt þessi skiljanleiki hennar sem gerir hana töfrandi. Töfrandi? Því skyldum við hræðast það orð? Orðið sem skírskotar til mælikvarða þess hvað er list og hvað ekki. Því gefi hlutur frá sér töfra, þá er hann list, en geri hann það ekki, þá er hann það ekki. Skiljanlegt? Ekki í þeim skilningi að töfrarnir (finnst okkur „töfrar" annars ekki vera einskonar glitrandi sag?) verði skildir upp, burt eða séðir út, heldur loða þeir við; kannski í þeim skilningi að listin stefni að því að vera skilin, eða öllu heldur stefni að því að laða skilninginn út úr upplifara sínum. Töfrar sem eru töfrar, en ekki töfrar sem eru slegnir niður með skilningnum, heldur slegnir upp með honum (að íslenskri vísu) eða nýslegnir eins og túskildingar. Hvað fær okkur til að horfa í stað þess að horfa út í loftið, hvað fær okkur til að hlusta mitt í blaðrinu, hvað fær okkur til að lesa orðlistina í stað þess að láta orðaflauminn lesa okkur í sundur? Það eru skilningstöfrarnir. Þó þeir yrðu brotnir mélinu smærra, væru enn töfrar í hverju broti. í óskiljanleikanum eru engir töfrar og því engin listglóð. Óskiljanleikinn er lokaður og læstur inni í ótótleik hins ófrjóa hráefnis.

En þrátt fyrir að þetta hafi verið sagt erum við engu bættari, höldum við, og gætum sagt sem svo: Getur ekki líka verið jafn sennilegt - og líklega miklu sennilegra - að listin sé engir töfrar og að kannski sé hún heldur ekki til nema í nösum einstaka manna með þennan langsúra ljóðarjóma á vörum? Öll ræðuhöldin um listina séu fremur ósk um að þessir töfrar væru til? Listin sé því: ,,Eg óska mér þess að... " og listalífið sé þá ekkert annað en bandalag um ósk um töfra? Því spyr upplifarinn í grandaleysi og vonbrigðum eftir að hann hefur talið sig hafa uppgötvað listsvindlið og vill afhjúpa það: „Hvar eru þessir töfrar?" Og á honum dynja svör bandalagsmanna: ,,Þeir eru fólgnir í óskinni." Því næst er honum sögð undarleg saga af listaverki á sýningu, sem var eins og hvöss öxi, og sem naut aðdáunar áhorfenda. Á síðasta degi sýningarinnar fannst hún hvergi nema í höfðinu á óþekktum gesti. Þótti verkið þá fyrst standa fyrir sínu. í túlkun upplifarans varð þetta svona: „Listin er það sem fær okkur til að horfa ekki út í loftið. Hún tekur umskiftum líkt og kamelljónin, fer liðug úr og í marglita búninga töfra skiljanleiks, og endar aftur í höfði okkar í formi hvassrar óskar, eða dettur öðrum kosti út úr skiljanleikanum inn í hið lata og lokaða hráefni." Og við það má láta standa.

En hvað um heilsu hennar? Fyrsta ástæða til að ég efast er að hún er óhrein eins og stór salur, þar sem margir rónar hafa migið í hornum. Önnur ástæða þess að ég efast er að listamamman er hulin spenum. Menn benda stundum á hana og segja: „Þetta er list." En vita ekki innrimennirnir að úr fáum spenum kemur hún ósvikin og stundum engum, en allir hinir eru þurrir eða dauðir? Þriðja ástæðan fyrir efa mínum er að henni er auðsigað hvert sem er. Og þó hraðinn aukist á fjórum fótum, þá sækir að henni óstjórnleg mæði sem hún getur ekki slökkt með öðru en því að springa. Fjórða ástæða fyrir því að ég efast er að gólf hennar er steinsteypt og járnbent orðið, og henni er kippt upp í valtara. Hvar er þá glergólfið góða sem vörnin var og enginn sótti hana án þess að fljúga? Fimmta ástæðan er að hún hefur falið sig fyrir efanum sjálfum og brugðið sér í allra kvikinda líki. Kannski er hún á leiðinni heim til sín, hefur læðst út um bakdyrnar og er komin á leynistíginn?

1.5.1985. Örlítil glerflís er á planinu. Það er sól úti. Ég tók eftir þessari flís af því það glampaði á hana. Þegar ég loka vinstra auganu glampar hún. Þegar ég loka hægra auganu glampar hún ekki. Ef ég hefði ekki áður séð glampa á hana með bæði augun opin eða hægra augað opið hefði ég ekki vitað hvar ég ætti að leita né látið mér detta það í hug með vinstra auganu að svo lítil glerflís væri á tiltölulega stóru planinu.

Nýlistasafnið 25.05 - 2.06 1985
Teningur, 01.04.1986
Hlekkur á gagn