Helgi Þorgils

Umhverfis myndlistEr litur einn sér myndlistarverk? Eða lína ein sér? Stundum þegar gagnrýni er lesin mætti ætla það, listamaðurinn er sagður hafa kraftmikla teikningu en vanta tilfinningu fyrir formi og lit, og talað er um að sérstaklega njóti teikningin sín í einni eða tveimur ákveðnum myndum. Annar listamaður er sagður hafa mikla tilfinningu, en litla teiknihæfileika o.s.frv. Hér hlýtur umfjöllunin að snúast um hagleik listamannsins, en ekki um list, og að sá geri bestu og fegurstu verkin sem er ratvísastur að koma formunum og línunum á rétta staði á myndfletinum.

En er þetta svona einfalt? Hvers vegna virðist eitt verk vera betra en annað, þó svo virðist vera sem svipaðri tækni sé beitt í báðum verkunum og formið sé því sem næst hið sama? Algegnt er að sporgöngumaður meistarans virðist innihaldslaus og rýr þó í fljótu bragði mætti virðast sem um sömu myndir væri að ræða. Væri ekki hægt að álíta að sá listamaður sem á eftir kæmi gæti gengið beinna að verki og verið búinn að ráða bug á ýmsum tæknilegum atriðum sem kunna að hafa staðið þeim fyrri fyrir þrifum? Hvar er stigið sem breytir mynd í listaverk? Það hefur sýnt sig að menn sem ekki eru akademískt færir teiknarar geta gert teikningu sem er listaverk, og þetta er hægt að yfirfæra í hvaða efni sem er. Eins og einstaklingur getur verið gáfaður og dregið merkar ályktanir, þó hann hafi aðgang að mjög takmörkuðum upplýsingum, á sama tíma og annar einstaklingur getur dregið rangar ályktanir, þó hann hafi aðgang að miklum og góðum upplýsingum. Munur er á því þegar menn eru eins og samofnir því sem þeir gera, eða þegar verkin eru aðeins endurkast annarra hugmynda. Akademismi er það í listum þegar engu er bætt við niðurstöður fyrri listtímabila, og spurningin snýst um það hvort myndin sé vel gerð eða illa, og að sjálfsögðu er dáðst að því sem vel er gert. Það getur verið ágætt að hafa góða akademíska þjálfun, en maður verður að hemja hana algjörlega. Með langvarandi skólun getur listamaðurinn farið að álíta að mynd eða hlutur eigi að hafa eitthvað sérstakt útlit, eða sveiflu (einlæglega) til þess að vera Iist og hann hamast við að fullkomna allt sitt handapat, en það fyrsta sem áhorfandanum dettur í hug er að spyrja hvers vegna setti hann ekki þennan rauða punkt lítið eitt ofar og til hliðar og betur færi ef þessi lína lægi yfir bláa flötinn o.s.frv. List er engin einstök handahreyfing. Aldrei hef ég heyrt mann spyrja slíkra spurninga þegar meistaraverk eru skoðuð.

Stundum hvarlar að mér að skóli sé dæmdur til þess að ala af sér meðalmenn, nemendum eru gefnar forsendur og niðurstöður. Beri þeir sig svona að, þá fá þeir hina réttu útkomu. Útkoma listaverks virðist ekki vera rétt þegar hún er endurtekning. Góður listamaður getur þó virst vera að endurtaka einhverja þekkta stærð í listum, í fljótu bragði, en það hlýtur frekar að vera endurminning sem breytist í nýtt líf í gegnum nýjan listamann með aðra lífsreynslu. Þess vegna held ég að upplýsingar einar sér geti ekki alið af sér listaverk (skólunin), heldur sé listin háð fæðingu og kringumstæðum listamannsins ásamt einhverjum yfirskilvitlegum öflum. Allir geta komið sér upp upplýsingabanka en ekki geta allir látið hann flæða í gegnum sig þannig að hann berist persónulegur og tilgerðarlaust yfir í sköpunarverkið. Sögumaðurinn er gott dæmi, einn hefur söguna nákvæmlega eftir og þurra, annar færir hana tilgerðarlega í stílinn og sá þriðji segir hana ljóslifandi eins og hún sé að gerast innra með manninum o.s.frv.

En er þá eitthvað hægt að segja um hvað er listaverk, eða hvaða eiginleikar þurfi að koma fram í myndverki til að það sé listaverk? Ef svarið væri hreint og klárt, væri mun einfaldara að vera kennari, listfræðingur, gallerírekandi, listbraskari og margt fleira, svo maður tali nú ekki um að vera listamaður. Þegar styttur og málverk frumstæðra þjóða eru skoðaðar rekst maður sjaldan eða aldrei á skraut sem virðist vera skellt hér og þar á verkið eingöngu til að gefa því einhvern kraft, langtum frekar sýnist allt skraut og munstur eiga sér ástæðu, eiga sér raunverulegt líf, sem lýsir best umhverfinu sem það var skapað í og listamanninum sem skóp það (stundum er eins og góð listaverk séu svo nátengd lífinu að eðlilegar umhverfisskemmdir verða eins og þáttur í sköpuninni). Það þýðir að verkið sé fullkomlega einlæglega unnið, hvort sem um er að ræða einfalt eða skrautlegt listaverk. Munurinn er þessi á góðu verki og slæmu. Listaverkið er látlaus hrópandi, stendur fyrir framan þig og krefst þess að þú lifir með því, og sé það fjarlægt skilur það eftir tóm. Það hrópar ekki: Hér er ég, sjáið hvað listamaðurinn er snjall og lipur og hæfileikaríkur. Lítum á Cézanne og Cézanneskólann, með þessu hugarfari, Munch og Munchskólann, Matisse og Matisseskólann, Picasso og Picassoskólann (en hann hefur verið ákaflega áberandi hér á landi), og svo öll önnur stílbrigði þessarar aldar. Þannig getum við fært okkur yfir í nútímann, þar sem öllu ægir saman og tíminn hefur ekki enn þá greint hismið frá kjarnanum.

Ég minnist sérstaklega á list frumstæðra þjóða, vegna þess að þangað leituðu Nýmálararnir mikið og gera enn, en það var þó sérstaklega í fæðingarhríðum Nýja málverksins, einnig hefur frumstæð list verið aflvaki margra annarra listastefna á þessari öld. Listamenn hafa leitað í barnamyndir og myndir frumstæðra þjóða til að finna einhvern grunn eða frum mannsins. Þegar þetta er tekið beint og milliliðalaust upp verður þetta eins og hver önnur klisja, gapandi óp út í loftið. Hver einstaklingur er ekki frumstæðari en hann er. Þegar flett er í gegnum listatímarit og bækur síðustu ára, sést að nokkur atriði koma fram aftur og aftur hjá Nýmálurunum.

Fyrst er að nefna manneskjuna, ýmist nakta eða í fötum eða þannig að vart er merkjanlegt hvort hún er klædd eða nakin. Algengast er að þessi manneskja sé karlmaður í prófíl og expressjónískt (eins og það er kallað þegar slettgangurinn er mikill) unnin. Manneskjan sem stundum virðist kynlaus er ýmsist ein innan um alls konar slettur eða með einhverjum ókennilegum hlutum. Algengast er að það séu dýr sem sækja fyrirmyndir í Cobra dýrin, sem þar áður voru sótt í barnateikningar og frumstæða list. Algengastur er ormurinn og svo eitthvað annað dýr sem er óreglulegt í forminu með V eða U kjaft sem stundum er fylltur af tönnum. Dýrin eru einnig mjög oft íprófíl. Í þriðju útgáfunni flækist þessi persóna um innan myndrammans (með dýrinu eða án þess) ásamt ýmsum formum, svo sem krossinum og frumformunum og ýmsum pensilstrokum. Hauskúpan er einnig mikið notuð og ef til vill eitthvað eitt og eitt annað atriði.

Að mörgu leyti virðist skyldleiki í þessum myndum við t.d. Cobra og þýsku expressjónistana og egypsku málverkin fornu á yfirborðinu. En þegar leið á síðustu tvö eða þrjú árin hefur þessi leit í fyrri tímabil dreifst og virðist nú sótt í öll listatímabil sögunnar, allt fram á þennan dag, þ.e.a.s. jafnt er leitað í gærdaginn sem í liðnar aldir. Við sjáum nú verk sem minna á renaissancemálarana gömlu, konstrúktívistan, amerísku abstraktlistamennina, popparana og konseftúalistana svo dæmi séu tekin. Í þessum hrærigraut eru bæði slæmir og góðir listamenn og svo algjörir fúskarar, í samtímanum er oft enginn greinarmunur gerður þar á. Skiptir þá stílbrigðið engu máli? Hvernig getur maður greint hvað er gott eða slæmt verk, ef það er svona mikið til af listamönnum sem allir virðast vera að mála sama hlutinn? Fyrir mér er list ekki auðskýrð. Hún verður aðeins til þegar listaverkið og listamaðurinn eru algjörlega eitt og hið sama, fullkomin einlægni, þegar titringur sá sem blóðstreymið veldur nær út fyrir líkama listamannsins og inn í listaverkið og út í umhverfið og myndar þannig stöðuga hringrás. Þetta þýðir það í raun og veru, að listamaðurinn verður að hafa innilegan áhuga á því sem hann er að vinna að, hvort sem hann er að vinna með hversdaglega atburði, yfirskilvitlega (list er yfirskilvitleg) eða abstrakt, svo innilega að hann hreinlega lifi í þeim og þurfi að rannsaka þá til þess að komast af, eins og þegar manneskjan þarf að kanna nýtt svæði sem hún sest að á til þess að geta framfleytt sér og varist veðri og vindum og öðrum utan að komandi atriðum, þ.e. sameinast umhverfinu, nánast að fá á sig litbrigði umhverfisins.

Í myndlistarskólum má sjá að tískusveiflur geta verið af hinu góða, spennan í kringum tískusveiflurnar geta oft verið upphaf rannsókna, sem síðar skila persónulegum niðurstöðum, þó oftast skili straumurinn einum allsherjarhrærigraut. Hin ýmsu listatímabil þessarar aldar sýna góð dæmi, með meisturunum fljóta góðir listamenn, sem detta niður þegar þeir verða viðskila við hópinn og aðrir sem halda því sem þeir hafa náð.

Teningur, 01.01.1987
Hlekkur á gagn