Helgi Þorgils

STAFRÓF MYNDA MINNAÉg hef sagt að þeir sem vilja skriflegar útskýringar á myndum mínum ættu að lesa skrifaðar sögur og texta sem ég hef sent frá mér með nokkuð reglulegu millibili í mörg ár, en flestir taka þeirri uppástungu frekar þurrlega enda oftast litið á sögurnar sem ódýra brandara eða rugl. Ég vil þó enn þá benda á þessi skrif mín og ef þau eru lesin af alvöru finna menn fljótt fyrir leiðandi undiröldu. Þess vegna gæti ég lesið upp flokk smásagna minna og kallað það fyrirlestur, en vegna þess að það er hægt að nálgast þær annars staðar og vegna þess að þær eru verk sem aftur þarf að útskýra, þá legg ég upp frá öðrum stað. Ég tel rétt að minnast á það hér, að þegar ég kom í Myndlista- og handíðaskóla Íslands átján ára gamall, þá var ég ekki bara að koma í myndlistaskóla, heldur var ég líka að koma ofan úr sveit, ákaflega lítið upplýstur um myndlist. Ég þekkti aðeins nokkrar myndir eftir Kjarval, Scheving og Jón Stefánsson og auk þess hafði ég lesið Nóa Nóa eftir Gaugin og Lífsþorsta um Van Gogh og skoðað þær myndir sem prentaðar voru í þeim bókum. Af bókmenntaverkum hafði ég lesið eitthvað eftir Kiljan, Stefán frá Hvítadal og Gunnar Gunnarsson og slitur af þjóðsögum og biblíusögum og var reyndar strangtrúaður. Í þeim stíl sem kemur út úr þessu samkrulli, auk áhrifa frá teiknimyndasögum, teiknaði ég og skrifaði á þessum árum, og ef til vill hafði menntaskólasúrrealisminn smeygt sér inn í myndheiminn. Þegar þarna var komið hafði ég fyrir alllöngu ákveðið að ég ætlaði að verða listamaður og var reiðubúinn til að lifa samskonar lífi og Gaugin, Van Gogh og Ólafur Kárason Ljósvíkingur.

Þegar ég svo kem í Myndlistaskólann fer hins vegar allt af stað og ég fer hratt gegnum alla stíla og stefnur þessarar aldar og að sjálfsögðu söguna líka. Ég málaði meðal annars fyrstu og einu abstraktmyndirnar mínar heima á kvöldin þegar ég var í formfræðinni hjá Herði Ágústssyni, og held ég að þar hafi orðið nokkur kaflaskil, meðal annars vegna þess að Hörður var ákaflega uppörvandi, talaði mikið um myndlist og sýndi okkur bækur úr bókasafni sínu. Af þeim eru tvær þykkar bækur um Paul Klee mér mjög eftirminnilegar. Þarna var ég í fyrsta skipti að sjá abstrakt myndir og kynnast abstrakt hugsun og vita að fletir gætu staðið einir sér sem litur og form, jafnvel hversdagslegir hlutir. Ég horfði á allt sem form og leik, gangstéttarhellur, gluggarúður á vinnustöðum, skugga af stráum sem féllu á skissublöðin, náttúruslípaða steina. Þessu fékk ég samt nokkuð fljótt leið á, sennilega var ég alinn upp í of miklum frásagnaranda og hugsaði of mikið í líkingum og dæmisögum. En þetta var þó allt nýtt upphaf. Mér fannst alltaf að náttúran skapaði fegurstu formin, steinvalan sem var undir gangstéttarhellunni og sprengdi hana fullkomlega rétt, steinninn sem vatn og vindur rúnaði, verkamenn sem krota og gantast á rúðurnar í nýbyggingunum, o.s.frv. Það var alltaf einhver orsök fyrir fegurstu hlutunum og formunum, orsök sem tengdist einhverju sönnu, upprunalegu eða saklausu. Ég sá að jafnvel þeir sem kunnu ekki að teikna samkvæmt akademiskum skilningi, gátu teiknað góð listaverk.

Á þessum árum var konseftlistin svo til allsráðandi og meðal skólafélaga og annarra var varla talað og hugsað um annað en konseftlistina. Og má meðal annars segja að Marcel Duchamp hafi verið algert goð og umræðan stóð mikið í kringum hann. Kannski var aðal ókosturinn við það sem þar fór fram að menn voru svolítið einstrengingslegir og meðal annars kom sú hugsun upp að ekki væri hægt að gera myndir öðruvísi en með ljósmyndaaðferð. Og hjá mér var nokkur barátta um hvernig þessir hlutir ættu að ná saman. Seinna komst ég að því að þetta var bara einn vængur af þessari hugsun sem hafði náð til íslands, en til voru konseft teiknarar og málarar sem voru erlendis. Fyrir áhrif konseftlistarinnar hugsaði ég mér ljósmyndaverk, sem aldrei urðu þó að veruleika í því formi, heldur koma fram í málverkunum og teikningunum. Það var það form sem ég og aðrir hlutir mynda í náttúrunni, þ.e. allur heimurinn umhverfis mig og þær útlínur sem ég mynda, eða hluturinn, þar hefst annað líf. Þannig myndar hver persóna og hver hlutur einhverskonar einkaheim sem byggir upp einn allsherjarheim. Til að segja þetta nokkuð skýrt, þá er þetta eins og álfabyggð, við þekkjum hól úti í náttúrunni og inni ( þessum hól er annað líf, um hann hafa myndast sagnir svo lengi sem menn hafa búið í námunda við hann. Þannig eru manneskjurnar eins og álfabústaðir, einangraðir í stórum heimi, en verða stöku sinnum sýnilegir öðrum mönnum.

Þessi hugmynd er enn ríkjandi í því sem ég geri, en verður sífellt flóknari. Eins og sprungurnar í gangstéttarhellunni vil ég að hlutirnir eignist fegurð vegna þess að þeir eru svo sannir að þeir verða bara til. Þarna hafa blaðamenn mistúlkað það sem ég hef sagt og haft það eftir að ég sé andfagurfræðilega sinnaður, þegar ég vil meina að ég sé sannfagurfræðilega sinnaður. Ég tel mig vera að leita að hinni sönnu fegurð. Þessi sanna fegurð getur stundum brotið í bága við akademíska hugsun, enda er það þessi fegurð eða uppgötvun hennar sem gerir akademíska hugsun breytilega í tímans rás.

Nokkrar umbreytingar og áhrif gerðust á seinni árunum í Hollandi þegar ég kynntist m.a list Sigmar Polke og nokkrum öðrum þýskum listamönnum sem þá máluðu í nýmálverka anda en voru ekki uppgötvaðir ennþá. Ásamt þessum mönnum kynntist ég nokkrum fjölda teiknara frá Sviss sem segja má að hafi verið einskonar konseftteiknarar. Þeir hafa reyndar margir orðið frægir seinna með hinum nýja stíl sem varð þekktur upp úr 1980. Þessir menn opnuðu m.a fyrir mér að það var ekki í raun efnið sem átti að skera úr um það að maður gæti komið hugmyndinni á framfæri, heldur er að mörgu leyti beinasta leiðin til að tjá hugsun sína óhindrað var að teikna hana á sama tíma og hún kemur upp í hugann. Upp frá þessu fór ég að teikna í nánast beinu sambandi við hugann og gerði ef til vill margoft sömu hugmyndina fram og aftur og er það reyndar vinnuaðferð mín ennþá fyrir málverkin. Og reyni ég að halda á þann hátt frumtilfinningu rissins með því að færa að lokum eina rissmyndina yfir á strigann og geng allan tímann út frá rissinu og færi ekki til hluti nema knýjandi nauðsyn sé til, þannig að hún haldist frjáls og skipulögð á sama tíma.

Ég hef stundum verið gagnrýndur fyrir að sækja myndefni til annarrar menningar, hér á landi, en mjög oft er talað um það erlendis að þetta séu sérlega íslensk eða norræn myndverk. Ef við lítum á þjóðsögur landanna, biblíusögur, íslendingasögurnar o.s.frv. þá eru þetta mikið til sögur sem verða til á löngum tíma, og fjöldi sagnamanna hefur slípað þær til í langri fæðingu og útkoman verður þessi verk. Þannig erum við stödd í nútímanum, við höfum smám saman orðið til, menning okkar hefur slípast og hér á íslandi er evrópskur menningararfur, og Evrópusagan liggur því nokkuð samhliða Íslandssögunni.

Evrópa er kristin og tilvitnanir í Biblíuna eru alls staðar jafn eðlilegar kristnum mönnum og þurfa menn ekki einu sinni að vera kristnir til, því lög og reglur miða meðal annars við Biblíuna. Sama má segja um heimspekina, goðafræðina og söguna yfirleitt. Engum þykir neitt tiltökumál þótt talað sé um Krist, Óðinn, Þór og Frey, Þóseidon, Plató, Sókrates, Cesar o.s.frv. Þetta er því hluti af okkar eðlilega tungumáli og myndmáli. Það má segja að maður fæðist með söguna inni í sér. Huldudrangurinn þarf svo að greiða úr þessari sögu í samræmi við sjálfan sig og þann tíma sem hann verður til á. Þannig verða til spurningarnar um líf og dauða og tilgang.

Goðsögulegar verur hafa einn frásagnarkost umfram seinni tíma dýrlinga, sem eru oft hversdagsmenn og lifa meðal manna og birtast reyndar oft í myndum mínum. Menn með dýrshöfuð eða dýrsbúk aðgreinast frá veröld hverdagsins, en tengjast henni á sama tíma. Þetta er draumaveröld, trúarveröld og lífið, sem verður allt til á sama stað, verður allt jafn áþreifanlegt. Siðirnir breytast við utanaðkomandi aðstæður, þannig verða þessar goðverur lýsing hins veika og hins sterka. Trúarsiðir verða eins og steinninn og gangstéttarhellan. Listin verður eins og steinninn og gangstéttarhellan.

Sjái maður mynd af keri kemur upp í hugann upphaf menningar. Í öllum uppgröftum koma brotin ker, og kannski stundum heil. Með þessu erum við dregin á ákveðinn stað. En kerið getur þýtt margt, flestum dettur eflaust í hug ker fyrir vatn og vatn er einskonar uþphaf og þá er uþþhafið í upphafi menningar, uppspretta. Þá kemur vín upp í hugann og þá kemur taumleysi, árásarhvöt, ástir. Þá kemur eiturbikar Sókratesar upp i hugann, niðurlæging menningar, dráp sannleikans. Endalaust er líka hægt að tala eðlisfræðilega um vatnið sjálft. Í fornum trúarbrögðum er það til að ker tákni konu. Á sama hátt get ég talað um ávexti, blóm og fugla. Nálægt trúarsiðunum finnst mér vera einkaheimar fólks, svo sem þegar fólk skreytir heimili sín með ólíku dóti, útsaumi, uppstoppuðum dýrum, fjölskylduljósmyndum, málverkum og sparistellinu sínu, sumt gert af því sjálfu, annað hlutir sem því finnst fallegir eða gefa góðar minningar, tekur jafnvel ástfóstri við einhverja hluti. Veggskreyting tekur kannski langan tíma og tengist lífi fólksins svo sem fæðingu og dauða. Fegurð veggskreytingarinnar felst í einlægni og sannleika. Sama er að segja um aðrar sjálfsprottnar hefðir sem myndast á heimilinu og í nágrenninu. Alls staðar myndast reglur og við reglurnar myndast trú. Ég hef oft notað minni úr þessum hlutum í myndir mínar en unnið úr því, þó þannig að það haldi vissri hlýju sem kemur úr þessum heimi.

Myndir mínar fjalla sem sagt mikið um sakleysið og alls konar áreiti í kringum það, leitina að fegurð og fullkomleika, en um leið fallvelti þeirra hluta sem maður álítur sig hafa fundið. Styrk og veikleika, trú og lífsþorsta, varnarleysi og þannig mætti lengi telja. Þær taka mið af hefðinni allt fram á þennan dag, og eru því nútímamyndir, og inni í þeim eru flestar spurningar sem komið hafa upp í hinum og þessum stílbrigðum og einnig í mannlífinu. Þær innihalda nokkuð áberandi bæði hefðir klassíkurinnar og rómantíkurinnar eins og margir hlutir hafa gert hér á íslandi, og mætti jafnvel tala um íslensk einkenni, en um leið brjóta þær upp ýmsar hefðir. Þetta er þó aðeins grunneðli í myndunum, sem kemur af sjálfu sér, vegna þess að maður hefur í sér þessa rómantísku og klassísku hugsun. Þetta má eflaust rekja til aðstæðna hér á landi, og blandast svo utanaðkomandi áhrifum.

Módemisminn verður til þar sem stórir menningarheimar mætast og sameinast, einhvernveginn splundrast allt, allt verður spennandi á sama tíma, athafnir fólks eru skoðaðar með formalískum huga og undrunarhuga. Sígilt dæmi er grímur frumstæöra þjóða sem eru teknar upp og færðar yfir í heim módernismans án þess jarðsambands sem þær eru sprottnar úr. Þetta er álitið vera hin sanna einlægni, þar sem nútímamenn álíta að þeir komist næst upprunaleikanum, en grímurnar verða til með fólkinu á löngum tíma. Þarna er komið að afstöðu sem manni finnst að þurfi breytingar við. Maður vill finna fyrir litlu fegurðinni, ósýnilegu fegurðinni. Mér finnst allir hlutir hefjast í náttúrunni, eða náttúrlegum athöfnum. Fyrstu abstrakt hugleiðingarnar komu út úr rannsóknum á náttúrunni. Mér finnst sú tilfinning vond að einföld form verði til fyrir áhrif sams konar forma. Þar finnst mér eins og módernisminn sé á sínu seinna skeiði, eða þurfi að endurskoðast rækilega. Þess vegna gæti ég, vegna innihalds orðsins, kallað þetta sem ég tala um hugmyndir fyrir nýmódernisma.

Út frá þessum hugleiðingum mínum má skilja hvernig landslagið fór smám saman að þrengja sér meira og meira inn í myndir mínar. Algengast er heiðalandslagið, og má það líka vera auðskiljanlegt þar sem það tekur opið á móti manni þegar maður er á göngu, og sendir frá sér einhvern undarlegan kraft. Það er eins og paradís þar sem allt er sjálfvirkt, maður fyllist orku og yfir mann færist löngun til að láta sig hverfa. Ljóðabálkar og myndir verða til án fyrirhafnar. Orka er í öllu. Maður öðlast einhverskonar guðdóm eða að minnsta kosti kemst maður í tært samband við sjálfan sig. Þarna sameinast hugsunin og umhverfið og líkamsformið. Manni finnst að hver hreyfing geti verið afdrifarík.

Í einni svona ferð varð myndin Uppstilling til, eða réttara sagt, hugmyndin að henni. Ég gekk frá Kolviðarhóli upp á Hengil og að Þingvöllum. Það brá fyrir þokuúða en annars var sólskin og bjart. Á fjallinu fyrir ofan Kolviðarhól voru tvær stórar hraunöldur, þar sem annars var slétt, sem maður hafði á tilfinningunni að hefðu storknað skyndilega, og sólargeislar eins og í gömlum málverkum stóðu undan dökkum skýjum, köld golan lét mig finna óþyrmilega fyrir svitanum eftir fjallgönguna. Mér fannst þetta allt undirstrika einhverja þögn, eða bil á milli atburða. Fossandi hraunaldan frosin, mjúkir geislar harðir og kaldur sviti og hiti. Þá setti ég inn í þetta uppstillingu, sem byggðist upp á eggi, fugli og rótarlausu blómi og litlu staupi, allt einhvernveginn hverfult. Á myndinni er portret, og má sjá að hárið lyftist ögn upp en er samt eins og stíft. Portrettið hallar eins og hraun- öldurnar og það er eins og eina sambandið við landslagið og hárið. Þetta er eins og veröld sem er augnablik eða heilt líf, Það er eins og einhver orka sé að leysast úr læðingi.

Sama gæti virst vera uppi á teningnum í Ríki Póseidons. Það er tilviljun að myndin er séð frá Dagverð- arnesi á Fellströnd þar sem fundust elstu aldursgreindu fornminjar hér á landi nýlega. Þessi mynd lýsir mörgum mynda minna, þetta er náttúrlega nútímamaðurinn eins og í öllum myndunum. Það er ekkert sem segir það að hann sé hinn þekkti Póseidon, annað en hornin og sjórinn. Þarna er annaðhvort heimatilbúið konungsríki eða alvöru konungsríki, um leið og eitthvað hefst upp er eitthvað sem togar það niður, um leið og eitthvað er guðlegt, hefur það þetta jarðlega samband. Þetta er annað- hvort vellíðan eða vanlíðan, fylling eða tóm. Það sem sameinar ríkið eru hornin á leirkerunum, ávöxtunum, drengnum og nykrinum í vatninu. En möguleikinn er samt sá að þetta séu heimatilbúin horn sem Þóseidon hafi sett á alla hlutina, það er rás atburðanna sem sker úr um það.
Enn eina mynd tek ég til, sú er Marmaratittlingurinn, sem er frosin hamingjustund, langt frá súrrealískri hugsun, eins og allar mínar myndir, heldur er hún stundin þegar Móses kom ofan af fjallinu og fólkið hafði sameinast um gullkálf sem það smíðaði úr gulli sínu. Gullkálfurinn er þá sama og marmaratyppið, búið til af fólki, sem sameinar fólkið, ásamt dýrsmyndunum, sem sameinar það og sundrar. Þetta gerist eftir að það hafði þolað alls kyns þjáningar og meira að segja verið bjargað yfir haf og eyðimerkur, rétt áður en Móses lætur það fá boðorðin.

Þannig er stafróf mynda minna, ég vil að hver sprunga beri ástæðuna með sér, og að hver sprunga geti kveikt aðra mynd hjá áhorfandanum í samræmi við hans eigin huldudrang eða líf.Fyrirlestur á Kjarvalsstöðum 21. maí 1989


Teningur, 01.06.1989
Hlekkur á gagn