Að endingu verður allt einfalt
Kristján Davíðsson og Þór Vigfússon halda sýningu á verkum sínum í Listasafni Árnesinga í Hveragerði en það hefur nú fengið nýtt húsnæði þar sem Listaskálinn í Hveragerði var áður. Sýningin verður opnuð á uppstigningardag en á henni verða ný verk eftir Kristján og Þór. Þröstur Helgason ræddi við þá um sýninguna, breytingar á list Kristjáns, hugmyndafræðilegar samræður og ýmislegt fleira.

„Menn eins og ég og Þór eigum að geta sýnt saman án þess að úr verði einhver leiðindi,“ segir Kristján Davíðsson sem er hér með Þór Vigfússyni.
Hvað kemur til að þið sýnið saman?
Kristján: Ja, þetta eru reyndar tvö rými en við munum sennilega láta verk okkar skarast með
einhverjum hætti. Það kemur í ljós þegar við byrjum að hengja upp. Það gerist ýmislegt í
upphengingunni. Annars ætlum við bara að sýna það sem við erum að fást við núna.
Blm: Og skarast það með einhverjum hætti?
Þór: Verkin eru af sama meiði þótt þau séu ekki lík. Sjálfsagt myndi fáum detta í hug að segja
okkur líka listamenn. En það mætti kalla myndirnar okkar beggja málverk þó að ég notist við gler
en ekki striga eins og Kristján.
Kristján: Við erum fulltrúar tveggja stefna. Það er alveg augljóst. Menn tveggja tíma enda 37 ár
á milli okkar. Við höfum gaman af því að sjá hvernig verk okkar taka sig út hlið við hlið. Og
sjálfsagt er leikurinn til þess gerður af okkar hálfu. En einnig má skoða sýninguna sem innlegg í
það ástand sem myndast hefur í íslenskum myndlistarheimi um þessar mundir þar sem
klíkumyndun er algeng. Menn eins og ég og Þór eigum að geta sýnt saman án þess að úr verði
einhver leiðindi. Mér finnst það.
Blm: Ertu sammála því, Þór?
Þór: Já.
Blm: Hvaða sess skipar Kristján í myndlistarlegu uppeldi þínu?
Þór: Ég kynntist verkum Kristjáns strax á námsárunum og hann hefur alltaf verið góður málari
að mínu mati. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Og þá ekki síst ferli hans en Kristján hefur
vaxið með hverju verki. Hann er enn í fullu fjöri. Hann er enn að þróa myndmál sitt. Það mun
sjást á sýningunni. Það er fyrst og fremst þessi stöðuga þróun og nýsköpun í list Kristjáns sem
hefur haft áhrif á mig. Hugmyndafræðilegar tengingar á milli okkar eru hins vegar ekki miklar.

Nýjasta mynd Kristjáns Davíðssonar, máluð á þessu ári.
Kristján: Öll list á það samt sameiginlegt að vera byggð á hugmyndafræði. Það hefur fylgt
myndlistinni allar götur frá Giotto sem var áhrifavaldur Tizians og Tintorettos. Allt heyrir þetta því
saman að vissu leyti.
Blm: Í viðtali við mig fyrir sjö árum sagðir þú að öll list væri ávöxtur skynsamlegrar niðurstöðu.
Kristján: Já, myndlistin á það sameiginlegt með öðrum listgreinum að hún verður til eftir að
menn hafa lagt höfuðið í bleyti.
Blm: Geturðu tekið undir þetta, Þór?
Þór: Já, mér þykir þetta skynsamlegt. En ég er hins vegar ekki mikið gefinn fyrir að tala um
verkin mín, ég vil bara að þau séu. Listamaðurinn er yfirleitt einn í vinnu sinni en síðan heldur
hann sýningu á verkunum, tekur þau út af vinnustofunni svo aðrir geti séð þau og skoðað í
samhengi við annað sem er að gerast. Þannig verður til hugmyndafræðileg samræða. Við
Kristján erum að vissu leyti að hefja samstarf okkar og sennilega á ekki margt eftir að gerast í
því fyrr en við stefnum verkum okkar saman í Hveragerði, þá sjáum við betur hvað við höfum að segja hvor öðrum.
Blm: Það var ýjað að því að það hafi orðið breytingar á myndum þínum, Kristján.
Kristján: Já, það eru breytingar. Myndirnar eru að verða einfaldari og um leið víkkar sviðið sem
ég er að fást við.
Blm: Hvers vegna eru myndirnar að verða einfaldari?
Kristján: Vegna áhrifa frá kollegum hingað og þangað um heiminn. Og svo vegna áhrifa frá
tímanum sem við lifum. Þetta eru sérstakir og raunar einstakir tímar í myndlistinni. Annað eins
hefur aldrei gerst. Það er gríðarleg fjölbreytni og átökin eru mikil. Ég finn fyrir þessu og það
skilar sér inn í verkin.
Blm: Margir tala um að heimurinn sé alltaf að verða flóknari.
Kristján: Já, rétt, og það mun leiða til þess að heimurinn verður einfaldari. Ef heimurinn heldur
áfram að verða flóknari mun enginn botna neitt í neinu. Hann hlýtur því að verða einfaldari. Að
endingu verður allt einfalt. Vonandi. Líka í listinni. Myndirnar mínar stefna að minnsta kosti í þá
átt.
Blm: Þú málar tilfinningu þína fyrir umhverfinu og tímanum. Kristján: Ég hef alltaf verið í
tengslum við umhverfi mitt. Tónlist hefur til dæmis alltaf haft mikil áhrif á mig, kannski vegna
þess að mínir bestu vinir hafa alltaf verið tónskáld fremur en málarar.
Blm: Hlustarðu á samtímatónlist?
Kristján: Ég fer því miður æ sjaldnar á tónleika en ég kann að meta þessa nútímatónlist sem
flestir segja að sé óskiljanleg. En talandi um tónlist þá rifjaðist upp fyrir mér tónlistarmaður frá
fimmta áratugnum sem kallaði sig Moondog. Hann var betlari og spilaði á alls konar drasl sem
hann sankaði að sér. Hann minnir mig mjög á það sem háttskrifaðir menn eru að gera í myndlist
um þessar mundir. Ég hafði mjög gaman af honum. Náði mér í plötur eftir hann. Það hefði verið
gaman að stilla honum upp við hliðina á því sem sumir eru að gera í myndlist í dag.

Eitt af verkum Þórs Vigfússonar í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.
Blm: Þór, þú hefur verið að vinna með gler.
Þór: Já, aðallega einlitt gler sem ég læt vinna í Finnlandi. Ég hef einkum unnið með iðnaðarefni í
list minni. Verkin hafa helst verið þannig að hver sem er getur unnið þau, sem er ólíkt
vinnuaðferðum Kristjáns þar sem handbragð hans skiptir öllu máli. En verk mín eru líka mjög
einföld. Ég mun reyndar nota fleiri liti en oft áður að þessu sinni en einfaldleikinn er samt sem
áður í fyrirrúmi. Kannski fyrir áhrif frá samfélaginu. Ég sé líka ákveðinn áróður í verkum mínum.
Blm: Á sýningunni verður þá samsláttur á milli iðnaðarins í verkum Þórs og náttúrunnar í verkum
þínum, Kristján.
Kristján: Já, ég mála upplifun mína á náttúrunni, tilfinningu mína fyrir henni. Þannig er öll
myndlist.
Þór: Jú, það er rétt, náttúran er umfjöllunarefnið með einum eða öðrum hætti. Mín verk tengjast
þó meira hinum manngerðu hlutum, kannski ónáttúrunni. En það er gaman að sjá málara ráða
við jafn stóran flöt og Kristján gerir með jafn fáum strokum.
Blm: Og það er eins og maður hverfi inn í myndina þegar horft er á hana, verði hluti af þessari
náttúru.
Kristján: Það er eitt af aðalatriðunum í myndlist. Möguleikinn á innlifun og þátttöku verður að
vera til staðar. Verkið sendir mann í ferð til að bæði horfa og gera.
Þröstur Helgason
Lesbók Morgunblaðsins, 24.05.2003
Hlekkur á gagn
Lesbók Morgunblaðsins, 24.05.2003
Hlekkur á gagn