Kristinn G. Harðarson

Í HáTTINNSAGA


Útvarpið: Rafmagnslínur slitna vegna ísingar... staurar brotna af þunga íssins og veðurofsans... dimmt og kalt í húsum... bifreið fýkur út af vegi... farþegarnir skríða út... inn aftur vegna hamsins... út aftur er rúður taka að brotna... skríða eftir veginum að yfirgefinni bifreið skammt frá... á hálendinu er fólk fast í bílum... bárujárn fýkur víða af þökum... í einu fjárhúsi standa sperrurnar strípaðar eftir... féð óttaslegið, í einum hnapp...

(Slekkur á tækinu.)

Hann teygir sig í lampann við rúmið og slekkur á honum. Það er dimmt í herberginu nema hvað örlitla birtu leggur inn um gluggann frá tungli og götuljósum. Nú dregur hann sængina upp fyrir höfuð þeirra beggja (húð þess minna er alþakin rauðum bólum) og rennir leikfanga-slökkviliðsbíl eftir lærinu. Sýrenurnar rjúfa kyrrð hjúpsins, hljóðið hækkar og lækkar í sífellu og rauðu ljósin tvö ofan á þakinu byrja að blikka - það kviknar og slokknar á þeim sitt á hvað. Ljósið lýsir upp litlu, hlýju veröldina undir sænginni og bregður rauðri birtu á mynstur sængurinnar: litlar greinar, grasstrá og blómskúfa á stönglum. Ofan á næstu sæng, fastur í gili milli tveggja hvítra og brattra sængurvershlíða, er lítill sjúkrabíll. Á toppi hans er hvítt skilti með gulum stöfum: EMERGENCY.


Teningur, 01.10.1991
Hlekkur á gagn