Karl Kvaran

Björn Th. Björnsson tekur viðtal við Karl Kvaran— Þessi litli blái fjandi þarna vill ekki haldast kyrr. Hann hoppar alltaf fram úr fletinum og gerir mér glennur!


Ég sit hjá Karli Kvaran uppi á efstu hæð Landsímahússins. Hann virðir fyrir sér mynd í smíðum. Svört burðargrindin stendur há og stoltleg í fletinum, líkt og hún bjóði öllu byrginn, en inn á milli hennar leika bláir litir saman, fyrst kliðmjúkt, svo herða þeir á með skarpari tónum, og í örlitlum reit sem myndast af svartri uppistöðunni er skærblár ferningur; það er hann sem þrjóskast við og svífur laus, eilítið framar en hinir.

Ég skoða myndirnar umhverfis mig nokkra stund. Þær einkennast flestar af lóðréttri byggingu með traustlegum svörtum uppistöðum. Þar sem bláu litirnir standa svo til einir gegn þeim svarta verður yfirbragð þeirra hátíðlegt og veraldarfjarri, og ég veiti því athygli, að þar er byggingin uppleitnust. Mér flýgur í hug viss tegund trúarlegrar listar áður fyrr, þar sem allt jarðargróm er útþurrkað og verkið lifir lífi sínu óháð manneskjunni og öllum hlutum í kring. Í heimi okkar stendur maðurinn á nýjan leik andspænis ómæli hlutanna, vitandi um smæð sína og einskis nýti persónulegra duttlunga. Hann leitar listforms sem feli í sér algildari lögmál, hreinsað af hverri tilviljun og upphafið, listar er geti lifað jafnframt náttúrunni sem hreinn ávöxtur mannshugans. Því felur listaverkið ekki lengur í sér beina afstöðu til hlutanna umhverfis: þessi blái litur hefur gildi sitt í sjálfum sér, hann er staðreynd. Hann er ekki lengur myndrún himins eða sjávar, hann er. En þó býr hann yfir þeim sveigjanleik að geta orðið mildur eða skarpur, áleitinn eða bljúgur, allt eftir samskiptum hans við litfletina sem í kring um hann standa. Þannig fá litirnir nýtt líf á myndborði þessarar listar, viðkvæmt og vandmeðfarið og óendanlega heillandi. í öðrum myndum sem standa hér umhverfis mig er byggingin breiðari og lithljómarnir mýkri: sefgrænn og mosagrár og leirbrúnn. Samspil þeirra er hægt og söngvið, en allstaðar stendur svört uppistöðugrindin lóðrétt í fletinum.Karl Kvaran að störfum— Já, mér þykir gaman að láta þessa mjúku liti spila á móti harðri uppistöðunni. Konstrúktiónin stendur kyrr, en mjúkur yfirgangurinn í litunum myndar einskonar hæga hreyfingu á móti uppistöðuformunum. Og venjulega er það svarti liturinn sem leiðir hina af sér.


— Þið eruð orðnir mjög samrýmdir, svarti liturinn og þú.


— Já, við erum mestu mátar. Eiginlega þykir mér vænst um hann af öllum litunum. Hann býður upp á svo marga möguleika að það er hægt að vinna með hann árum saman. Ég held að ég hafi varla gert mynd í nokkur ár nema nota svart, þar til nú síðustu vikurnar, að ég hef gefið honum frí. Og þó nota ég ennþá svarbrúnt högg, eins og í þessari björtu þarna, svona eins og akkeri. Ef það væri ekki þarna, færu allir hinir á flot og sigldu hver um annan þveran!


Þegar ég horfi hér út um gluggann, á öll húsin, á allar þessar lóðréttu línur, kemur mér í hug að spyrja: — Heldurðu að þetta umhverfi þitt hérna í miðbænum ráði nokkru um svip myndanna?


— Já, þetta er nú eiginlega skrýtið. Meðan ég málaði suður í Skerjafirði var hafflöturinn í öllum myndum sem ég gerði, — alltaf þessi langa, kyrra lína og varla nokkurt form sem hóf sig verulega upp. Hér mála ég svo að segja eintómar vertíkalar konstrúktíónir. Sennilega eru það áhrif borgarinnar, þótt ég geri mér ekki grein fyrir því meðan ég vinn. Annars hef ég aldrei skilið þann vísdóm, að litir og form þurfi að standa í einhverju sambandi við liti og form í náttúrunni. Að sjálfsögðu orkar umhverfið á málarann eins og aðrar dauðlegar manneskjur, en ég þekki engin lög sem fyrirskipa honum að verða þræll þeirra áhrifa í verkum sínum. Til dæmis finnst mér að veðurfarslýsingar heyri frekar undir Veðurstofuna en málaralistina.Form við sjó, olía, 1949— Viðurkennirðu þá ekki heldur, að athugun hlutanna í náttúrunni og teikning þeirra sé málaranum nauðsynleg?


— Jú. Ég held að maður verði að ganga í gegn um mjög stranga og nákvæma teikniþjálfun, meira að segja akademíska vöðvateikningu, til þess að fá tilfinningu fyrir hlutum í heildinni, fyrir heild myndflatarins. Því miður teikna ég ekki nóg, en það má í rauninni aldrei sleppa því að teikna. En ég lít á slíka teikningu sem þjálfun en ekki takmark.Komposition, gouache 1957— Þú leggur sem sagt áherzlu á myndbygginguna, hina ákveðnu og vísvituðu flataskipun, sem frumatriði málverksins. Hvað segirðu þá um tachismann, sem hefur kastað þessu alveg fyrir borð?


Við höfum nú dæmi hér heima þar sem var síðasta sýning Kristjáns Davíðssonar og verk hans í nýútkominni ljóðabók Jóns Óskars, — og að nokkru leyti í nýjustu myndum Eiríks Smith, þótt það megi kannski frekar kalla þær abstraktan expressionisma. — Ja, þegar búið er að flæma alla kompósitión úr mynd, þurrka úr henni alla spennuna sem er í formunum, hvað er þá eiginlega eftir? Mér finnst raunverulega ekki til neins að fást við myndlist upp á það. Þetta vandamál að mála, að byggja upp mynd, það er fyrst og fremst að gæða hana því lífi sem felst í innbyrðis þenslu forma og lita. Hún verður að skapast af tilfinningunni sem málarinn hefur fyrir hlutunum, af dómgreind hans en ekki af tilviljun einni saman. Ég held að tachisminn sé bara leiði og þreyta.


— En sé það þreyta, getur hún þá ekki verið eðlileg og kannski vísir að einhverju nýju?


— Jú, ég viðurkenni það raunar. Ég þekki það af sjálfum mér. Stundum er maður í lægð og gerir mjög slæma mynd, en samt getur eitthvað verið í henni sem leiðir af sér nýja grósku. Má vera að tachisminn sé þesskonar lægð. Og ég verð að játa, að stundum finnst manni þessi list okkar ekki komast lengra í því að hreinsa til, jafnvel að hún nálgist stundum gjaldþrot, eins og til dæmis hjá Herbin. Það er engu líkara en hann standi á leiðarenda og komist ekki lengra. Eða Árp til dæmis. Kannski eitt einasta fágað form. Tachisminn er sennilega viðbragð gegn þessu einfalda, hreina og klára formi, og málararnir sem honum fylgja eiga, sennilega ekki fleiri möguleika í þá átt. Hinsvegar er það með ólíkindum þegar menn eins og Jackson Pollock standa langt frá léreftinu, eins og ég hef séð á myndum, og sletta á það litunum, eða þegar þeir láta leka úr dósum á skáhallan myndflötinn. Slík vinnubrögð getur enginn maður tekið alvarlega. Með því væri sjálfsákvörðun listamannsins þurrkuð út, en listin hlýtur þó alltaf, hversu aum sem, hún er, að eiga uppruna sinn í huga málarans.


— Finnur þú fyrir slíkri þreytu eða þverrandi möguleikum á þinni braut?


— Nei. Hinsvegar er ég sannfærður um það, að eitthvað nýtt hlýtur bráðum að gerast í myndlistinni, og mig grunar að það verði eitthvað stórkostlegt. En allt slíkt verður að koma innan frá og í fyllingu síns tíma.Komposition, gouache 1957

Birtingur, 01.01.1958
Hlekkur á gagn