Kristján Guðmundsson

Yfir á rauðu ljósiÞað er stutt stórra högga á milli hjá Kristjáni Guðmundssyni myndlistarmanni á þessu ári; hann varð sextugur í byrjun júní, í dag kl. 16 verður opnuð stór yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum og að auki er að koma út vegleg bók um listferil hans og verk. Þótt Kristján sé hlédrægur maður og lítið fyrir að tjá sig á opinberum vettvangi, féllst hann á að spjalla við Fríðu Björk Ingvarsdóttur um baksvið listanna þá rúma þrjá áratugi sem hann hefur verið að störfum hér heima og erlendis.Kristján vinnur að uppsetningu verksins Hægar hraðar á Kjarvalsstöðum.Súmmari er það sem flestum dettur í hug þegar nafn Kristjáns Guðmundssonar myndlistarmanns er nefnt á nafn. Samt er orðið æði langt síðan nokkuð hefur beinlínis verið aðhafst í nafni þeirrar hreyfingar sem kannski var ekki einu sinni hreyfing því ekki var um neina meðvitaða stefnumótun að ræða sem listamennirnir höfðu komið sér saman um. En jafnvel fyrir fólk sem er of ungt til að hafa kynnst SÚM-sýningum stafar ljóma af orðinu „súmmari“, sem segir kannski meira en nokkuð annað um þau áhrif sem þeir höfðu á íslenskan myndlistarheim. Fyrsta einkasýning Kristjáns var á Mokka árið 1968 en árið eftir setti hann upp sýningu í gallerí SÚM sem vakti mikla hneykslan almennings þrátt fyrir að aðeins 47 manns hafi séð hana. Þar sýndi hann innsetninguna Environmental Skulptur o.fl. en þungamiðja hennar var straubretti þakið óhreinindum og hænsnaskít. Listasafn Íslands keypti það sem eftir var af innsetningunni árið 1988 og þegar verkið var sýnt tveimur árum seinna varð enn fjaðrafok svo forstöðumaður safnsins, Bera Nordal, sá sig knúna til að birta athugasemd í fjölmiðlum þess efnis að lögum samkvæmt væri það hlutverk safnsins að afla verka sem endurspegla nýja strauma og stefnur í íslenskri myndlist og þetta verk væri mikilvægur fulltrúi ákveðinna listviðhorfa og stefnu sem fram kom á sjöunda áratugnum. Kristján sýndi einnig verkið Vörðubrot árið 1970 sem gert var úr heilhveitibrauðum og lögreglan fjarlægði af vettvangi á Skólavörðuholtinu „af heilbrigðisástæðum“. Þrátt fyrir þessar kyndugu viðtökur í upphafi ferilsins er ljóst að Kristján á sér marga aðdáendur á Íslandi og þá ekki síður erlendis.


Er hægt að semja músík í anda Mozarts núna?


Kristján reyndi fyrir sér við ýmislegt áður en hann fór að stunda myndlist og aðspurður segir hann það ekki hafa verið neitt sérstakt sem dró hann inn í listheiminn.

- „Ég sogaðist bara inn í þetta með vinum mínum, eftir að hafa verið að læra að fljúga. Síðan fór ég til Spánar með Ólafi Jónssyni, athafna- og uppfinningamanni, og var að gæla við að fara á listaskóla þar. Eftir að hafa skoðað nemendasýningu sá ég að þetta myndi þó líklega ekki vera skóli fyrir mig.“

Hann segist þó hreint ekki hafa verið að hafna listhefðinni, enda finnist honum hann nú oft vera nokkuð hefðbundinn í verkum sínum. Í texta Ólafs Gíslasonar listfræðings, í bók þeirri sem nú kemur út hjá Máli og menningu, segist Kristján þó oft hafa farið yfir á rauðu ljósi í listinni:

- „En það er þegar verið er að búa til einhverjar reglur í myndlist sem listamenn eiga að hlýða. Þá finnst mér fagurfræðilega löggan vera gengin einum of langt. Ef það væru einhverjar reglur í myndlist sem þyrfti skilyrðislaust að hlýða, hvernig væri myndlistin þá í dag? Slíkar reglur er ekki hægt að setja á neinu listsviði. Það er til fagurfræðilegur ballett, þótt hann sé ekki klassískur,“ útskýrir Kristján „og það sama finnst mér eiga við um myndlist.“

Hann hugsar sig um í smástund en heldur svo áfram.

- „Þegar fólk segir að maður sé að hafna hefðinni þá er það náttúrlega ekki rétt nema að því leyti að flestallir myndlistarmenn sem eitthvað kvað að á tuttugustu öldinni hafi hafnað ákveðinni hefð. Sú höfnun gleymist að sjálfsögðu einhverjum áratugum seinna. En hvað heldur þú að það þýði að vera að mála eins og Picasso árið 2000? Er hægt að semja músík í anda Mozarts núna, væri það eitthvað fínt?“ spyr Kristján hreinskilnislega.

Þetta er þá ef til vill einungis spurning um muninn á frumsköpun og eftirlíkingu?

- „Ég veit það ekki, en fyrir mér er fólk annaðhvort að fást við þessa hluti sem lúta að listinni, eða þá að það er bara í einhverju smekkdúlliríi – að mála eins og Picasso eða einhver annar. Ekki það, ég hef ekkert á móti handverki sem slíku.“


Vel sjálfur mína prófessora


Þú hefur þá ekki þurft að fara í gegnum þetta hefðbundna námsferli í myndlistinni?

- „Nei, ég sneiddi hjá því. Annars er það mikið nám í mínum augum að hafa verið með þessum vinum mínum, unnið með þeim og orðið fyrir áhrifum. Ég lít á það sem mitt nám að verða fyrir áhrifum af sterkum og góðum hlutum, það er mín akademía þar sem ég vel sjálfur mína prófessora. Meðal þeirra eru gamlir vinir mínir, Magnús Pálsson, Dieter Roth, Flúxusfólk, listamenn Arte Povera og þar fram eftir götunum. Maður verður ekki bara fyrir áhrifum af kollegum sínum, heldur líka af fólki sem er ekkert að fást við myndlist.“Kristján bregður á leik á fyrstu sýningu sinni í galleríi SÚM 1969, en hann var forstöðumaður þess fyrsta árið.Mörgum finnst eins og hugmyndalistin og innsetningarnar hafi markað upphaf þeirra tíma er listin varð „illskiljanleg“ – kannski af því þau gildi sem talin voru hefðbundin fagurfræði viku. Aðrir halda því fram að upphaf abstrakt listarinnar í málverkinu hafi verið miklu meira áfall fyrir áhorfendur. Hefur ef til vill verið gert of mikið úr „uppreisn“ ykkar félaganna?

- „Það var auðvitað einhver klofningur á meðal myndlistarmanna á þessum tíma, rétt eins og gerðist í bókmenntum og fleiru,“ segir Kristján og gerir ekki mikið úr gömlum uppþotum listheimsins. „En abstrakt list var auðvitað til að byrja með ekki meðtekin snemma hér, ekki fyrr en um ’50 eða ’60. Fólki fannst kannski eins og abstraktsjónin væri rétt að festa sig í sessi þegar þessir unglingar komu til að brjóta það allt niður. Fólk fann ögrun í því.“


Maður má hafa vondan smekk


En þið hljótið að hafa verið í tengslum við þær miklu hugmyndafræðilegu hræringar sem áttu sér stað á þessum tíma í kringum ’68, uppbroti á hefðbundnum gildum og upphafningu á öllum sviðum?

- „Mér fannst það sem við vorum að gera einfaldlega fallegt,“ svarar Kristján. „Ég hafði jú gaman af því að þetta væri svolítið ögrandi, en fyrst og fremst var ég að leita að fegurðinni.“

Áttu þá við þá tegund fegurðar sem er laus við markaðsgildi og tilgerð?

- „Já, mér fannst þetta vera það sem hentaði mér að gera og ef aðrir vildu gera eitthvað annað, þá þeir um það. En ég hef aldrei hugsað myndlist sem einhverja fratyfirlýsingu um pólitík. Ég hef alltaf litið á fagurfræðilegu teiknin í henni og sett þau framar öðru. Svo getur fólk bara sagt að Kristján Guðmundsson hafi svona hroðalega lélegan smekk, það verður þá bara að hafa það,“ segir Kristján og glottir. „Maður má hafa vondan smekk. Það getur enginn bannað manni það.“Verkið Brotinn sjóndeildarhringur frá árinu 1993.Verkið Þríhyrningur í ferningi frá árunum 1971–’72Kristján segir að tvö þeirra verka sem nú séu til sýnis á Kjarvalsstöðum hafi farið töluvert í taugarnar á fólki, og þá aðallega listamönnum. Þetta eru verkin Þríhyrningur í ferningi sem búið er til úr vígðri mold og mold, og verkið Hægar hraðar sem samanstendur af tveimur grjóthrúgum, einni sem hafið hefur slípað og annarri sem kemur úr grjótmulningsvél.

- „Í gamla daga var oft sagt að það væri verið að gera grín að fólki með þessari myndlist, – moldarverkum og öðru álíka. En ég myndi aldrei nenna að eyða mínu lífi í það að gera grín að fólki úti í bæ. Ég er bara alltof latur til að standa í því. Svo það eru einhverjar aðrar ástæður sem liggja að baki minni listastarfsemi,“ segir hann alvarlegur. „En ég var náttúrlega til ’68, á tímum Víetnamstríðsins, kvenfrelsis og alls þessa sem þá var í gangi. En það var nú allt tiltölulega rólegt miðað við hvernig hlutirnir eru í dag. Þó voru kannski einhver skil þarna, maður vissi af Rauða-Danna, Baader Meinhof og allri þeirri deleríu. En ég fór aldrei inn í flokksstarf af neinu tagi, ég rakst ekki vel í hópi, pólitískt séð. Ég man þó eftir því að hafa verið skotinn í stelpu,“ bætir Kristján við brosandi, „og þegar ég sá hana í kröfugöngu slóst ég í hópinn og gekk svona við hliðina á henni og kallaði, Ísland úr NATO og herinn burt! En mér leið frekar illa. Mér finnst nefnilega leiðinlegt að hrópa í kór, jafnvel þótt ég vildi að herinn færi frá landinu. Mér fyndist eiginlega betra að hrópa svona einsamall, heldur en með hundruðum manna.“


Skylda listamannsins að láta ekki teyma sig hvert sem er


Nú má merkja á þínum ferli að þú hafir horfið frá einhvers konar óreiðu yfir í stílhreinni verk með árunum – ef hægt er að orða það þannig – öfugt við það sem hefur verið að gerast í ríkjandi hugmyndafræði á sama tíma.

- „Ég hef aldrei vitað hvað ríkjandi hugmyndafræði er,“ svarar Kristján. „Ég hef aldrei getað sett fingurinn á nokkuð sem heitir „hin almenna hugmyndafræði“. Ég varð fyrir áhrifum af vinum mínum og þessum hreyfingum sem ég nefndi áðan, en ég veit ekki hvort list getur endurspeglað nokkuð slíkt. Þetta var allt miklu einfaldara fyrir þrjátíu árum heldur en það er í dag. Í dag geturðu ekki sett fingurinn á neitt. Það er alltaf verið að segja manni hvað er í gangi í listum fjölmiðlunum, en þeir sækja í þetta fólk í Gallerí Fold og Gallerí Reykjavík – í svona gjafavöruverslanir sem selja mest skrautvöru. Maður heyrir alltaf einhvern áróður annað slagið um að nú séu allir farnir að mála í útlöndum, málverkið sé komið aftur í tísku og nú vilji allir vera gamaldags á nýjan leik. Þetta er náttúrlega bara eins og hver önnur kjaftafroða og ef þetta er hið almenna viðhorf þá hef ég engan áhuga á því. En maður býr að sjálfsögðu í þjóðfélagi, og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að listamaður hefur skyldur við samfélagið. Ég lít ekki á listamann sem einhvern utangarðsmann sem hefur ekkert með samfélagið að gera. Mér finnst hann meira að segja hafa miklar skyldur við það. Og þær felast í því að láta ekki teyma sig hvert sem er. Hlutverk listamannsins er að bæta samfélagið, halda því lífvænlegu og hreyfa við því um leið. Ef ekkert hreyfir við neinum þá er fólkið orðið dálítið dautt – einum of rólegt.“

Í þeim skilningi eru verkin þín einhvers konar svörun?

- „Já, það má kannski segja það.


Vil ekki gefa listinni fasta boðun


Í bókinni segir þú á einum stað að listaverk sé mynd af list. Er listin þá í þínum huga fyrst og fremst huglæg og myndbirtingin sjálf eins konar eftirmynd?

- „Hvað er það sem við köllum list og hvað er átt við þegar við segjum að eitthvað sé list en annað ekki?“ spyr Kristján á móti. „Það eru ekki öll þjóðfélög í heiminum sem hafa listhugtök sem eru sambærileg við það sem við notum. Í Kína t.d. er ekki til listhugtak eins og við notum hér, þ.e.a.s. þetta einkennilega einstaklingsframtak. Ef listin er til þar – sem hún er sjálfsagt – þá er það í einhvers konar kalligrafíu og kannski í óperu eða tónlist. En hún fer sér afar hægt og breytist lítið frá einni öld til annarrar. Og listin má svo sem alveg vera svoleiðis, það er ekkert verra. En á Vesturlöndum er hún ekki þannig, það vitum við. Mér finnst öll list vera bætandi fyrir samfélagið, jafnvel þó hún virðist í fljótu bragði rífa það niður. En ég vil ekki gefa listinni fasta boðun – segja að hlutirnir eigi að vera svona frekar en öðruvísi. Stjórnmálamenn hafa, eða reyndu í það minnsta í gamla daga, að taka listina og segja að hún yrði að vera með ákveðnum hætti. Vinna fyrir flokkinn, þjóna verkamanninum eða kapítalistanum. Þannig hugsuðu bæði Hitler og Stalín, enda er þetta tilhneiging hjá valdhöfum. Hjá kapítalistum þarf listin bara að vera dýr til að vera góð. Hún er þá statussymból eða peningatilfærsla. En í rauninni voru engir peningar í myndlist fyrir 1970 á alþjóðlegum grundvelli. Margir góðir listamenn eins og Robert Fillou, Georges Brecht, Dieter Roth og fleiri, voru orðnir mjög vel þekktir, en þó fátækir. Nú til dags verða menn annaðhvort stjörnur eða ekki. Þetta er að verða svolítið eins og í poppinu og það verður bara að hafa það. En svo er til mikið af listamönnum sem eru viðurkenndir að einhverju leyti og virkir, en sem eru samt ekki í þessum rakettu- og stjörnufansi. Mig hefur aldrei langað í þann leik. Það hefði ekki hentað mér ef ég væri ungur í dag að láta eitthvert gallerí skjóta mér upp eins og rakettu og selja verkin mín á 100.000 dollara. Ég myndi ekki fá neitt út úr því sérstaklega, þó ég hafi ekkert á móti peningum. Það fer enginn út í list til þess að verða milljónamæringur. Jú, kannski Jeff Koons, sem sagði að það væri miklu betra að vera listamaður heldur en að vera í fasteignabransanum – eða var það kannski öfugt?“ segir Kristján og hlær.


Íslendingar hafa frekar lítið formskyn


Hvernig finnst þér Íslendingum hafa tekist að vera samstiga því sem er að gerast annars staðar, bæði í listsköpun og skilningi á listum?

- „Íslendingar eru nú yfirleitt mjög fljótir að tileinka sér nýjungar, í það minnsta hvað varðar græjur, hvort sem það eru farsímatæki, bílar eða sjónvarpstæki. Við erum efnishyggjufólk að því leyti, höfum gaman af leikföngum og erum svolítið barnaleg stundum. Maður sér gleggst hvað Íslendingar eru ung þjóð í því að tuttugasti hver bíll er með númeraplötu á borð við „Bubbi“ eða „Dísa“,“ segir Kristján og brosir. „En þegar fólk er að skíra svona í höfuðið á sjálfu sér þá er það ekkert öðruvísi en þegar menn lýstu ánægju sinni yfir hestinum sínum, Rauð eða Grána, í gamla daga. Ég myndi þó aldrei setja Kristján á bílinn minn. Hvað myndlistarsviðið sjálft varðar er staðan þannig að við erum ekki nema 300.000 manna þjóð og ef við eigum 10 eða 20 frambærilega listamenn, þarf ekki annað en að margfalda það með þúsund til að sjá hvað margir frambærilegir myndlistarmenn ættu að vera í Bandaríkjunum. Þannig að samkvæmt þessari frægu höfðatölu erum við mjög fljót til og módern – og eiginlega best í öllu,“ heldur hann áfram og hlær. „Sjálfum finnst mér þó Íslendingar hafa frekar lítið formskyn. Formskynið er ekki sterkt hjá okkur. Ég veit ekki hvers vegna, en auðvitað hefur aldrei verið kennd nein listasaga í skólakerfinu hér. Hún hefur allavega ekki verið gerð skemmtileg. Hér vita allir unglingar hver þjálfar fótboltaliðið í Angóla en ef þeim er sýnd mynd eftir Ásgerði Búadóttur, þá segja þau annaðhvort Picasso eða Salvador Dali. Íslendingar hafa svo sem ágætis tilfinningu fyrir landslagsfegurð nú til dags, en því er oft ekki fyrir að fara í húsagerðarlist og myndlist. Þú myndir t.d. aldrei sjá útihöggmyndir á borð við þær sem hér eru á torgum í Helsinki. Það er útilokað að menn gætu þolað þær,“ segir Kristján ákveðinn. „Ég tek bara Finna sem dæmi, en ég held að það sem við búum við myndi hreinlega særa formskyn þeirra. Byggingarlistin hér er kannski svolítið villt og það má vel vera að það sé skemmtilegt að hafa það þannig. Sjálfur hef ég aldrei komið til Los Angeles en mér er sagt að borgin hjá okkur sé farin að líkjast úthverfunum þar.“


Ekki fyrir íslenskt tilstilli að ég er enn myndlistarmaður


Þú dvaldist lengi erlendis og naust snemma virðingar þar; fékkst listamannalaun frá hollenska ríkinu og varst meðal þeirra sem sýndu þegar Pompidou-safnið var opnað í París ’77 – hvernig kom þetta til?

- „Nokkrum árum áður tók ég þátt í tvíæringnum í París undir íslensku flaggi þótt ég muni ekki hvernig það kom til. Að því loknu var mér boðið að sýna í nútímalistasafninu í Amsterdam og svo leiddi eitt af öðru. Annars held ég að þetta sé nú fyrst og fremst spurning um að vera virkur og gera eitthvað,“ rifjar Kristján upp, hógvær. „Ég hef nú aldrei verið ofvirkur í myndlist. En þó aldrei gleymt henni. Stundum koma lægðir en svo fer allt af stað aftur. Það er þó alveg víst að ef ég hefði ekki farið til Hollands ungur þá hefði ég bara dottið út út þessu. Það er því ekki fyrir íslensk tilstilli að ég er enn myndlistarmaður. Árið 1970 voru engar forsendur fyrir myndlist hér á landi eða fyrir mig til að vera hér áfram. Ég veit ekki hverjar forsendurnar eru nú, en skilningurinn hefur þó aðeins aukist. Starfslaunin eru betri og fagmennskan meiri í þeim geira.“

Talið berst að leiðum til að efla myndlistarþekkingu og Kristján segist undra sig á því hvað t.d. sjónrænn miðill á borð við ríkissjónvarpið standi sig illa.

- „Það er til mýgrútur af góðu efni um myndlist sem aldrei er sýnt. Við fáum bara að sjá Frasier, systurnar í Kaliforníu og unglinga í gaggó einhvers staðar. Þetta eru mest barnaprógrömm. Það hlýtur einhver að gefa sjónvarpinu þetta. Þeir geta tæpast þurft að borga mikið fyrir svona efni, þar sem kórinn hlær alltaf úr dós. Maður veltir því fyrir sér hvort Markús Örn horfi á þetta sjálfur,“ segir hann alvarlegur í bragði.

En þjónar ekki sjónvarpið bara þeim tilgangi fyrir fólk að slökkva á heilastarfseminni eftir dagsins önn?

- „Það er þá í samræmi við það sem ég heyrði frá einhverjum í Galleríi Fold, í útvarpinu um daginn,“ svarar Kristján og brosir, „hann sagði að myndlistin ætti að fela í sér hvíld. Að fólk ætti að geta komið heim til sín eftir erfiðan dag og horft á myndina til að gleyma sér í hvíldinni. Þetta er á alveg sama plani. Ekki það að ég eigi við að fólk þurfi að vera neitt óskaplega greint eða gáfað til að geta notið lista. Ef maður þyrfti að vera algjört séní til þess að skilja list þá myndi ég nú ekki njóta margra hluta. Það hefur einhver logið því að fólki að listin sé erfið. Fólk þarf heldur ekki alltaf að taka afstöðu til verks þegar að sér það, það er ágætt að melta listaverk í rólegheitum.“


Minni áhersla lögð á það sem lendir inni í umgjörðinni


Finnst þér skilningur stjórnvalda í menningarmálum hafa aukist?

- „Ég veit ekki hvort hann hefur aukist, ég held að stjórnvöld hafi nú meiri skilningin á einhverju öðru en listum. Enda eiga stjórnmálamenn ekki að velja og hafna list nema bara fyrir sjálfa sig. Sem betur fer er nú ekki lengur við lýði að draga fólk í dilka eftir pólitískum línum. Sjálfur vil ég hafa óperu og sinfóníuhljómsveit, þótt sumir vilji leggja slíkt niður. Ekki þarf heldur að kvarta yfir því að hér séu ekki til söfn. Umgjörðin er í það minnsta til staðar og meira segja alltof dýr, stundum. Því svo er minni áhersla lögð á það sem lendir inni í þessari umgjörð – það er ekki alltaf mjög hnitmiðað.“

Nú er þetta töluvert yfirgripsmikil sýning á Kjarvalsstöðum, fylgir svona sýningu ekkert tilfinningauppgjör?

- „Nei, ekki fyrir mig¸“ svarar Kristján ákveðinn. „Þegar Eiríkur Þorláksson, forstöðumaður Kjarvalsstaða, hringdi í mig fyrir ári og bauð mér að sýna var ég nú bara svona á báðum áttum um hvort ég myndi nenna að standa í því. Ég bað hann að gefa mér nokkurra daga frest til þess að hugsa mig um, því ég er bæði latur og alveg nægilega vel þekktur hérna heima fyrir minn smekk. Ég vissi líka sem er að þetta yrði heilmikil vinna – og ef þetta er einhver upphefð má hún liggja á milli hluta. Staðreyndin er sú að listamaðurinn býr til verkin á sýninguna og hann ákveður einnig hvernig sýningin á að vera. Þrátt fyrir það er hann eini maðurinn sem er ekki á kaupi við þessa vinnu. Ég ákvað nú samt að slá til og þannig þróaðist þetta. Um svipað leyti hitti ég, ásamt Sigurði bróður mínum, Halldór Guðmundsson hjá Máli og menningu, fyrir tilviljun á matsölustað og hann sagðist vilja gera bók um mig fljótlega. Þegar boðið kom frá Eiríki stakk ég upp á því að þeir ynnu eitthvað að þessu saman. Svona bók er líka heilmikil vinna fyrir mig. Ég þarf að velja allar myndir í hana og kunna skil á tímasetningum og atburðum. Annars er ég ekkert að vorkenna sjálfum mér fyrir að vinna í þessu öllu saman í mánuð eða svo, það er bara hluti af vinnu listamannsins. En ég hef svo sem haldið svona sýningar áður, bæði í Svíþjóð og Þýskalandi, svo þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég held yfirlitssýningu. Sýningin á Kjarvalsstöðum spannar brot af sex eða átta litlum einkasýningum og ég er alveg viss um að þetta á eftir að gera sig ágætlega. Bókin markar ef til vill meiri skil af því það hefur ekki verið gerð um mig bók áður, þó það hafi oft verið gerðar veglegar sýningaskrár. Efnið í henni er blandað, viðtöl, myndefni ýmiskonar og skissur. Það er svona leikur í henni á köflum.“


Tómt og hlaðið í senn


Ertu ekki með eitthvað alveg nýtt á sýningunni?

„Jú,“ svarar Kristján að bragði, „ég er með nýja bók sem er búin að vera lengi að brjótast í mér. Hún heitir Two Hundred Pages on Barnett Newman og fjallar um málverk eftir þennan fræga myndlistarmann, sem er að vísu dáinn fyrir nokkru. Málverk eftir hann var skorið í tætlur á safni í Amsterdam og tilraun til að gera það upp mistókst, svo verkið er ekki til lengur. Bókin er allt í senn, tileinkuð verkinu, um verkið og það má jafnvel segja að hún sé verkið sjálft að nokkru leyti, þ.e.a.s. litirnir og stærðin. Verkið hét Who is Afraid of Red, Yellow and Blue? og ég vinn þetta sem minningu um það, eða óð til þess, því ég þekkti það mjög vel. Bókin kemur út í 100 tölusettum eintökum, en samhliða henni kemur út veggspjald í 10 eintökum.“

Hér er Kristján búinn að rekja feril sinn fram að yfirlitssýningunni fyrir blaðamanni eins og hann hafði lofað, með nokkrum útúrdúrum eins og við er að búast. Kaffið er búið og farið að líða að kveldi í stofunni heima hjá honum. Þegar hann er beðinn um myndir rís hann á fætur, rótar í pappakassa og finnur þar mynd af sér frá fyrstu Súm-sýningunni sem okkur varð tíðrætt um í byrjun samtalsins Hann segir að það megi nota hana með viðtalinu, hún hafi aldrei birst áður. Á myndinni bregður ungur og snyrtilegur maður, í támjóum skóm, á leik með tómar flöskur úr verkinu. Gerir sig líklegan til að fylla eina, því hvað er „tómara og kraftlausara en tóm flaska?“ eins og hann segir sjálfur í nýju bókinni. Kraftur verka Kristjáns er þó óumdeildur, ekki síst eins og hann birtist í óvæntum og hugvitsamlegum efnistökunum, hvort sem hann notar súra sláturkeppi til að skila andlegri næringu, byssukúlur til að teikna „yfirhljóðhraðateikningar“ eða klukkusímsvara til að lesa upp ljóð. Meira að segja tómleikinn í verkum hans er hlaðinn, en í lýsingu á bókverki sínu Circles, segir Kristján það „kannski akkúrat eins og ég vil hafa það. Tómt og hlaðið í senn.“

Lesbók Morgunblaðsins, 15.09.1974
Hlekkur á gagn