Margrét H. Blöndal

Úff þvílík innilokunarkennd. Eitt sinn svaf ég á hóteli í plussherbergi, í seilingarfjarlægð var alvöru pluss, mosabreiða á hrauni sem hrakti fólk frá lífi og landi í fæðingu. Nú er ég í herbergi þar sem veggur er fyrir ofan tölvuna. Ég get ekki hugsað með vegg fyrir framan mig, hann verður vegatálmi og hindrun. Ég get heldur ekki tekið á sprett því hér er ekki óhult fyrir konu að vera og kjáninn sá lærði ekki útbreiddasta mál jarðarinnar. Jú, safarikir eru ávextirnir og fólk örlátt og gestrisið. En ég fæ þursabit í seigfljótandi umferðarstraumnum.

En hvert er þá haldreipið? Hver er hún stúlkan þín og öryggiskenndin? Grunnurinn, nú vatnið, loftið og heiðargæsin. Vappaðu til mín Vala með alla þína smala, hóaðu þeim saman í sveitina.

Þetta hús er reist á bjargi, svörtu hraungrýti og tilhoggið. Tröppurnar eru brattar og tilhugsunin um að steypast þar niður er ógnvekjandi. Í dag tróðu þeir ofvöxnum pappaskúlptúr inn um fæðingarveginn, fjórir kallar og ein kona í hvítum slopp. Hún er samt ekki forvörður heldur almannatengsla- og upplýsingafulltrúi.

Já, það er fölvi og tilfinning um eitthvað undir himnum – bjó til mjúka kósa kringum stungugöt til að geta hengt fleiri, sumar hanga í þráðum og allt er strax betra þótt stutt sé í óþarfa prjál. Vorið er komið, Sölvi er að smíða sér lásboga og mig dreymdi að einhver spilaði á lásbogasveit. Hvað segirðu? Hví, stendurðu svona við bakkann og snýrð í okkur baki? Nú ertu ósyndur. Þú nýtur samt laugarinnar er ekki svo og erum við ekki sammála um að skynvíxlun sé réttara orð yfir litblindu?

Nam merkin hjá eldflugunum, þú komst í vinnustofuna með verkin og þrungið var loft. Kvöldverður og vér vitum framhaldið. Öll fallegu verkin í tægjum og hugurinn á spani í myrkrinu. Kannast þú við svitann þann, svitann þann, svitann þann? Kannast þú við að vakna blautur og vinda klæðin?

Hvenær er mökunartími slanganna? Í ástarbrímanum verða þær nefnilega svo sljóvgaðar að þær gæta ekki að sér og gleyma að forða sér við köll og læti. Annars er mest um vert að sýna stillingu og gleyma sér ekki í hysteríu á þessu svæði. Heyrðirðu hvaða orð ég notaði? Móðursýki. Hvernig er þér annars innanbrjóst þegar þú veist af eitrinu á leið um æðar þínar? Mamma, sagði ég þegar ég lá ein og varnarlaus í bandarískri vöknunarstofu og var sjálf orðin móðir. Mamma og hugsaði mína til mín.

Fitlaðu núna, trillan mín en ekki festast í sömu fingrasetningunum

En heyrðu kelling, ertu ekki farin að mannast? Af hverju ertu úti í skóginum? Eru lungum teppt eða nennirðu ekki að ganga? Ættirðu ekki að vera búin að gera meira? Mér líður og hefur liðið vel og hunskastu hugsun því í burtu! Allt á sinn tíma og ekki er hægt að þvinga, það veistu frú og stopp nú.

Aðeins eina nótt og hnífurinn verður að skærum, notast ekki til stungu heldur til að klippa til að sleppa. Laugast í blóðinu sem er ekki dauða heldur tímamóta. Hér eru verkin kristalstær og klingjandi – úr köldu landslagi – þar rekast einhverjir í gegn og hjálpartæki auðvelda leiðina. Kannski hafa stjörnumerki sigið niður á útréttan arm sem heldur þeim létt og leikandi uppi. Viltu stíga í vök, horfa í vök, veiða gegnum vök? Stjörnur hafa sigið niður.

Og þá höfum við það nákvæmlega eins og við viljum. Ég haga staðreyndum mér í vil. Tilkynni ferðalag í hólf sem ekki hafa áður verið reifuð. Tilkynni að þar verður nokkuð sagt sem teprum er ekki að skapi. Tilkynni: ferðir um göng lengst í djúpi, leggöng hefði Alli spurt. Jú, þau, en önnur líka því þráin er víða og vonin er fastastjarna sem skín þrátt fyrir smæðina. Hver ert þú skógarbjörn og hvaða leyfi hefur þú til að tæla mig út í nóttina og kyssa mig. Ég finn fyrir löngu klónum. Bíddu við, ég hef heimildir fyrir mjög svo ósæmilegu athæfi þínu. Ekki frá fyrstu hendi, nei en áreiðanlegur aðili kvað.

Hjólaði í rigningunni hratt meðfram sjónum og saug inn litina. Sex til sjö kallar stóðu á Valsvellinum beinir í baki, þráðbeinir og kráka vel við vöxt vappaði inn. Kallarnir reyndust prik klædd íþróttabolum eins og fuglahræður en krákan hélt óhrædd inn á völlinn án nokkurs hiks. Grasið var blautt, ermarnar blautar og frakkinn renndur alveg upp fyrir háls og höfuð. Ég þeystist áfram og hrópaði: opnastu skjóða, opnastu!

Hvalur var dreginn á land og hagvanur skar. Blóð vall og fita sprakk, fólk hlakkaði og ég er öll ringluð. Leita á miðin og reyni að afmá mörk. Toga inn og tékka, sumt er vont en næringarríkt já. Hentistefna í hnitakerfi og netið lagt. Hölum upp þræðina, stingum inn í möskvana, möskvastærðirnar? Fuglafit

Á sprett að Colosseum, fann skilti merkt zoo er núna í ratleik og smelli myndum af margvíslegum vísbendingum: Fallega mótað laufskrúð, veðrun á vegg, slettur á götu, brúskur, armbönd á rúllu, skylmingaþrælar í nóvember. Hrægammur skrúfaði frá vænghafinu meðan annar fölbleikur hlykkjaði magran hálsinn svo hárlausar fellingarnar þöndust.

Ekki krúttið mitt verða svona hrædd. Þetta verður í lagi ef þú bara treystir og heldur áfram, heldur áfram, heldur áfram. Ekki sofna, kysstu mig hin mjúka mær því þú ert sjúk, kysstu mig hin mjúka mær, því ég er nervös. Lítið herbergi og þar er þyrping. Hver gægist út gægist og réttir fram kollinn?

Upp í himininn og kyssi þig á augnlokin. Hærra syngur þú og augnlokin teygjast. Þunnar himnur sem nema hvert tif. Sefur þú fyrir mig? Hjarta til hjarta til hjarta til hjarta.

Sjónauki, 2. tbl, 2005