Magnús Pálsson

List og kennsluListÍ málinu er ferli listarinnar líkt við hafið. Við tölum um að öldur gangi yfir í listinni. Vonandi leyfist mér að slá hér fram ögn rómantískri samlíkingu. Í listinni eru öldudalir og öldutoppar. Öldudalurinn er það tímabil listarinnar þegar viðfangsefnin hafa verið tæmd. Þá er tími íhugunar og leitar að leiðum til að tjá nýjar hugmyndir og kenndir. Gömlu tjáningarformin eiga ekki lengur við því þjóðfélagið hefur tekið breytingum. Upp úr öldudalnum koma síðan ný tjáningarform, oft sterk og dálítið frumstæð. Þau verða smám saman meðvitaðri og markvísari þar til þau ná öldufaldinum. Skriðurinn eftir bárunni niður í næsta dal ber í sér þróun hugmyndanna, fágun og hreinsun tjáningarformanna. Listin kemur niður í dalinn og það verður mjög lygnt þar til hún rís á ný og myndar næstu bylgju. Sú er af sama vatni gjör en samt önnur. Hún er afkvæmi öldunnar á undan en eðli hennar er annað því hafsbotninn sem er undir og mótar hana er öðru vísi. í öldunum og til hliðar við þær er f jöldinn allur af gárum, skvettum og gusum. Þær fylgja í humátt á eftir meginstraumnum, engum háðar, æsa og gefa lit, dálítið af gruggi og kannski öryggisleysi. Öldufaldurinn er mest spennandi. Þar er framsetning listarinnar skörpust og sterkustu listaverkin sköpuð. Vera má að þetta sér gróf einföldun en í fáum dráttum er þetta ferli listar.

í tímanna rás hefur bylgjuhreyfingin stöðugt orðið hraðari. Á miðöldum tók hver bylgja yfir nokkrar aldir. A okkar dögum hafa það lengst af verið nokkrir áratugir þar til nú að síðustu bylgjur hafa spannað um það bil tíu ár. Eflaust halda þær áfram að styttast. Það er greinilegt að listin sækir í sömu átt og iðnframleiðslan. Maður drekkur úr kókdollunni og fleygir henni síðan. Myndlistin styttist og styttist og sækir í að verða augnablikslist eins og tónlistin. Einmitt nýlega hef ég kynnst því að skreytingum á byggingum er ekki endilega ætlað lengra líf en svo sem 30 ár. Bráðum mun það þykja alltof langt.

Listbylgja eða stefna er svar eða andmæli við bylgjunni á undan. Hún fæðist af henni og væri ekki til án hennar. Þó reynir hún að sýnast sjálfstæð. Í konseptlistinni sem var stefnt gegn Fluxus og Ný - dadaisma eru greinilegar tilvísanir til konkret - ljóðlistar. Og í Nýja málverkinu í dag má finna tengsl við ákveðnar greinar af Fluxus. Og enda þótt Ný - expressionisminn æpi heróp gegn konseptlistinni ber hann í sér sæði hennar og væri tæpast hugsanlegur ef hún hefði ekki verið til áður. Það er erfitt að sjá hvers vegna öldurnar rísa og falla. Fljótt á litið er orsakanna sjálfsagt að leita í þjóðfélagsástandinu. Það sem því veldur er oft ekki greinilegt meðan á því stendur, en sést eftir á. Það eru stjórnmál, stríð, efnahagur, fíkniefni, tískutilhneigingar og kynlíf. Því er gjarnan haldið fram að fjármagn og tíska séu aðal orsakirnar, en þó er það ólíklegt. Stríðið í Kóreu hafði eflaust áhrif á „Beat" tímabilið, en auk þess höfðu þar áhrif áfengi og eiturlyf. Ný - dadaismi sjöunda áratugarins, uppákomur og gerningar tengdust nýjum Anarkisma, kynlífsbyltingu, austrænni heimspeki, hippahreyfingunni, pasifisma og Vietnam stríðinu. Psychedelic list tengist LSD. Stúdentauppreisnirnar í lok sjöunda áratugarins ásamt hassi, Yoga og Zen Búddisma höfðu áhrif á gerningalist, myndbandalist og hina íhugunarkenndu konseptlist áttunda áratugarins. Fjölmiðlasprenging níunda áratugarins, tölvur og hljómburðarfræði hélst allt í hendur við pönktónlist og pönkhegðun og nýjan expressionisma í málverki og skúlptúr. Á tíu árum gengur stefna yfir og tilheyrir upp frá því listasögunni.

Listbyltingin mikla um 1960 hristi upp í öllu. Hún gerði að engu öll fyrri listahugtök. Hún opnaði fjölda tjáninga- leiða og kollvarpaði viðteknum reglum og mörkum milli listgreina. Hefðbundin greinaskipting innan listarinnar riðlaðist. Listin sem ,,fag" hætti til að vera til. Það er ekki lengur hægt að vera bara málari, myndhöggvari eða grafíker. Hugtakið ,,mynd"list tapaði merkingu Heimurinn œpir á listasögu sinni. Hvað á til dæmis að kalla listamann sem vinnur að elektróník, gerningum, tónlist og myndböndum, smíðar vélmenni og málar með ljósum. Er hann myndhöggvari eða málari? Er það myndlist sem hann býr til? En þannig er listin í dag. Jafnvel sú staðreynd að í heiminum eru nú fleiri að mála myndir en nokkurn tíma áður breytir engu. Öldurnar koma og fara, og til tjáningar eru notuð öll heimsins fyrirbrigði, litir og annað. Listaskólarnir verða að taka mið af öllu þessu. Fagmennska er ekki lengur til í listinni. Það eru ekki lengur málarar og myndhöggvarar heldur bara listamenn, án frekari skilgreiningar. Menn „kunna" ekki lengur neitt en samtímis kunna þeir allt. Nú hefur listamaður varla hendur lengur. Hann er bara haus. Hugsun og tilfinningar og ekkert þar fyrir utan. Menn vinna varla lengur því það er svo sem ekkert að gera. Þetta þurfa skólarnir að skilja og taka mið af þessum aðstæðum. Það má reikna með að sá fjöldi ungs fólks sem í dag lærir eingöngu að mála eigi eftir að lenda í vandræðum síðar meir þegar þessi alda er gengin yfir, sem hún sjálfsagt gerir. Alda þessi er mjög kröftug og inspírerandi, en sjálfsagt gengur hún yfir eins og aðrar.

Svokallaðar tilraunadeildir við listaskóla eru í raun alls ekkert. Þær eru til bara vegna þess að aðrar deildir eru til. Af því að skólarnir eru deildaskiptir og gerð þeirra gamaldags. Deildaskipting og fagmennska eru tímaskekkjur sem í dag valda erfiðleikum skólanna. Það er bara þjóðfélagið og skólarnir en ekki listin sem krefjast fag- og deildaskiptingar. Á vissum tímabilum tuttugustu aldarinnar hafa menn leitað frá hinni ,,retinölu"list, list sjónhimnunnar. Á öðrum tímabilum hafa menn hvarlað til baka. En þegar á heildina er litið hefur listin á síðustu áratugum orðið heimspekilegri en nokkru sinni áður. Áherslan hefur flust frá hinu sjónræna yfir til hins heimspekilega. Listin er nú í nánari tengslum en fyrr við heimspekihræringar þjóðfélaganna. Um leið hefur hún losað sig frá handverkinu. Nú er því jafnt mikilvægt fyrir svokallaðan myndlistarmann eins og fyrir rithöfund eða heimspeking að þekkja hugmyndasögu listarinnar. Nú hegðar listin sér líkt og vísindin. Því hefur listasagan fengið margfalda þýðingu í listaskólunum og þjóðfélaginu öllu. Ef listaskólarnir vanrækja þá skyldu sína að halda uppi fræðslu og rannsóknum, sérstaklega í sögu samtímalistar, munu þjóðfélögin þurfa að taka alvarlegum afleiðingum. Þau fá lélega listamenn, lélega gagnrýnendur, léleg söfn, lélega listunnendur, lélega listaskóla og léleg listtímarit. Á öllum Norðurlöndunum sjást hrópandi dæmi um það stórslys sem hefur átt sér stað.

Heilu tímabilin hafa farið framhjá án þess að tekið hefur verið eftir þeim á Norðurlöndum. Þetta borga menn dýru verði í dag. Nú virðist til dæmis eiga að melta tvö tímabil í einu, konseptlistina, öldu sem hæst stóð fyrir tíu árum, og Nýja málverk níunda áratugarins. Það bætir ekki úr skák að fyrir tuttugu árum síðan fór Fluxushreyfingin hljóðlaust framhjá Norðurlöndunum. Þó þekki ég til einstakra listamanna sem voru alþjóðlega sinnaðir og tóku þátt í fram- vindu heimslistarinnar. Viðleitni þeirra hefur skilið eftir sín spor, en listasamfélög Norðursins eru samt enn þann dag í dag merkilega ósnortin af þessari framvindu. Inteligensían hefur enn ekki gert sér grein fyrir stöðunni. Ennþá drottnar einangrunarhyggjan og nesjamennskan.

Það má velta fyrir sér orsökum þessa sorglega ástands. Kannski hafa Norðurlöndin kosið einangrunina. Þegar lokað er fyrir upplýsingar einangrast listin og listamennirnir. Listaskólarnir á Norðurlöndum hafa lokað fyrir upplýsingar í tvo áratugi. Ýmsir vilja kannski halda því fram að sá tími sé nú loks liðinn. En er hann liðinn? Af þessu leiðir að við uppgötvum stefnurnar löngu eftir að þæreru um garð gengnar. Það leiðir aftur af sér tímaskekkjulist sem alltaf er slöpp og óspennandi. Spennandi list er vanalega sköpuð þegar liststefna geysar um sem stormur. Þá nær listin þeim ákafa, fanatík og beinskeytni sem gæðir listaverk lífi og merkingu. Norskur listfræðingur sagði nýlega: „Heimurinn æpir á listsögu". í fyrstu fannst mér þetta broslegt og sýndist að heimurinn ætti frekar að æpa á list. En nú held ég að hann hafi haft rétt fyrir sér. Listin er orðin svo auðug og fjölbreytt og flókin. Milljónir listamanna út um allan heim vinna með alls konar listform og enginn getur lengur fylgst með öllum þeim stefnum og hræringum sem samtímis eru í gangi. Þar þyrftu tölvur að koma til. Einmitt þessi fjölbreytni heimtar af listfræðingum og listamönnum að þeir séu vel á verði og reyni að átta sig á ringulreiðinni. Listamenn finna þörf fyrir einhvers konar fót- festu. Áreitin eru svo mörg og ruglandi. Ég hef rætt um listasögu og fjallað um listhugsun samtímans. Einnig um hvarf fagmennskunnar. Þetta hef ég rætt til að lýsa því hvernig byggja ætti upp nútíma listaskóla. Það er greinilegt að deildaskiptinguna ætti að leggja niður. En ég var beðinn að koma hingað til að fjalla um tilraunadeildir.

Eins og ég sagði þá virðast mér þær deildir vera ónauðsynlegar því tilraunastarfsemi ætti að fara fram í öllum deild- um. Auk þess þarf ekki að tala um tilraunir því þær tilraunir sem gerðar eru í framsetningu tilfinningabundinnar hugsunar er einmitt það sem við nefnum list. Tilraunadeildir ættu ekki að vera til. En það tekur eflaust nokkurn tíma fyrir skólakerfi Norðurlandanna að átta sig á hinum breyttu tímum til að geta gert svo róttækar breytingar á skólum sínum. Þar til þær breytingar geta orðið eru hinar svokölluðu tilraunadeildir nauðsynlegar. En hvað er þá tilraunadeild? Það er tilhneiging til að halda að allt sem ekki telst til hinna hefðbundnu greina, málverks, skúlptúrs og grafíkur, tilheyri hinni dularfullu tilraunadeild. Hún verður hefðbundnu deildunum einslags afsökun til að útiloka nýjar tjáningaleiðir. Tilraunadeildin verður afdrep þeirra sem eru óánægðir, þeirra sem hafa fengið hugboð um að til séu aðrar leiðir en þær hefðbundnu, þeirra sem eru til vandræða í hinum deildunum og koma með óþægilegar spurningar. Það er því miður engin framtíðarlausn að koma þeim fyrir í svokölluðum tilraunadeildum. Gömlu deildirnar verða að víkka út svið sitt og taka á móti nýjum straumum. Innísetningar tilheyra skúlptúrdeildinni og ljósmyndun og offsetprenttækni tilheyra grafíkdeildinni á meðan þessi bjánalega deildaskipting er á annað borð við lýði. í tilraunadeildinni mætti vinna með aðra miðla eins og: myndbönd, hljóðupptökur, tölvur, póstinn, gerninga, kvikmyndir o.s.frv.


Margmiðladeildin.


Það má jafnvel deila um hvort listaskólar séu yfir höfuð nauðsynlegir. Fjöldi listamanna hefur aldrei inní listaskóla komið. Það er öruggt mál að lélegir listaskólar eru skaðlegir fólki. Eins og svo margir aðrir hef ég sjálfur um eitt skeið álitið að listaskólarnir ættu að hverfa. En nú finnst mér að þeir komi að notum. Ekki til að kenna mönnum list sem fag. Ekki til að kenna þeim að búa til list. Bara kannski hjálpa þeim soldið að skilja samtíma sinn í samhengi við fortíðina. Það gleymist oft í skólanum að upplýsa nemendur um hlutverk listamannsins í þjóðfélaginu. í flestum skólum er nemendunum kennt að þjóna listaheiminum, sem í þessu tilfelli er listmarkaðurinn, galleríin, söfnin og alþjóðlegu listtímaritin. Eg kalla þetta hér markaðskerfið, ,,The Commercial Circuit". Nemendunum er raunar kennt að búa sér framabraut, sem á kannski lítið skylt við list, frekar við velgengni og virðingu í þjóðfélaginu.

Markaðskerfið er að vísu mikill hvati fyrir listina. Það heldur uppi stöðugum áróðri fyrir hana og dreifir upplýsingunum. En í dag er fjárhagslegt mikilvægi þess fyrir listamenn afar lítið. Þeir afla sér viðurværis og skapa list algjörlega utan við þetta kerfi. Lakara er að markaðskerfið vill auðvitað eingöngu beina sjónum fólks að þeirri list sem selst. Þeirri list sem fellur vel að veggjum galleríanna og safnanna og á síður tímaritanna. Sem betur fer er einnig annað kerfi í gangi, nokkurs konar neðanjarðarkerfi eða net. Það byggist á ýmis konar starfi og samvinnu listamanna. Sem dæmi má nefna: Gallerí sem ekki stefna að gróða, lítil lista- og heimildasöfn, bókabúðir, kassettu og hljómbúðir. Til eru kerfi sem dreifa hljóðlist og tölvulist. Þúsundir listamanna eru virkir í ,,mail art" kerfum. Svo mætti lengi telja. Því miður virðast margir skólar í Evrópu telja það hlutverk sitt að framleiða „talenta" fyrir galleríin, að senda frá sér vonbiðla frægðarinnar sem bíða eftir að skjótast upp á stjörnuhimininn til að skína þar næstu fimm árin og halda galleríunum á lífi.

Allt of margir listamenn líta á listkennslu einungis sem millibils ástand meðan þeir bíða eftir frægðinni. Þeir kenna af því þeir geta ekki selt verk sín. Þannig eru þeir tilneyddir að kenna í nokkur ár þar til peningarnir koma. Til flestra koma þeir þó aldrei og þeir þurfa því að halda áfram að kenna, jafnvel alla ævi. Listkennsla er list og á að vera list. Hún færir sömu unun og lífsfyllingu og öll önnur list. Hun krefst sömu atorku, hugmyndaauðgi og hæfni til að hrífa aðra og hvetja þá til sköpunar. Þetta hafa menn ekki skilið. Listin að kenna þarf að öðlast sömu viðurkenningu og önnur list og vera höfð í hávegum. Góður listkennari fæst við kennslu á sama hátt og með sömu alvöru og sá sem fæst við uppákomur eða gerninga, eða þá hljómsveitarstjóri eða Ieikstjóri.Erindi flutt á ráðstefnu um listfrœðslu í Henie-Onstad safninu, Osló, apríl 1986

Teningur, 01.01.1987
Hlekkur á gagn