Níels Hafstein

Hringferli Myndlistar16 þátta greiningarferli


FRUMLEIKI
Hrein og tær hugmynd sem stendur ein án stuðnings, þróast ekki, og útvatnast ef reynt er að fylgja henni eftir í tilbrigðaformi. Þeir örfáu listamenn sem sífellt birta frumlegar hugmyndir og ný sjónarhorn njóta yfirleitt ekki mikillar athygli, hvorki markaðar né safna, eru taldir skorta nauðsynlega staðfestu og einkennandi stíl, en eru í raun sívirkir, ferskir og leitandi og skapa áhrifaríka myndlist.

KÖNNUN

Hugmynd er tekin til rannsóknar, unnin af nákvæmni, sett fram með skilgreindar aðstæður í huga og leidd að rökréttri niðurstöðu. Úrvinnslan gerir kröfur um óþvingaða efnisnotkun, fagmennsku og gæði.

AÐDÁUN

Myndmálið er þrautpínt út frá hugmynd annars myndlistarmanns, orðið afrit af verki hans. Sporgöngumaður sem reynir að skapa sér sérstakt stílbrigði gefst upp og snýr sér að annarri fyrirmynd til að herma eftir. Hann virðist ekki geta viðað að sér áhrifum þannig að verk hans fái persónulegan blæ, séu hans eigin.

VANI

Listræn tjáning er varla list. Höfundurinn er sefjaður af sjálfsmærð og stöðugri aðdáun annarra. Þetta eru endurtekin form, glannalegir litir og flottheit, en svo flaumósa myndgerð á yfirleitt greiðan aðgang að áhrifagjörnum kaupendum sem líta fremur til vinsælda en gæða. Hún er sýnileg í verslunum og stórmörkuðum, markaðssett af útsjónarsemi eins og hver önnur vara. En það vantar í hana merg og blóð.

FÖNDUR

Annars vegar ósjálfstæð myndgerð þar sem er málað og saumað eftir númerum eða steypt í fjöldaframleidd mót. Rammar skipta miklu í þessari máttlausu fjöldaframleiðslu, vandað handverk, umbúðir og skreytingar. Hins vegar myndgerð sem sprettur fram úr einkalífinu eða áhugamáli, fær hugþekkan blæ og sjálfstætt yfirbragð vegna frávika í teikningu og litanotkun og fetar sig á þeirri mjóu línu sem aðskilur list frá fúski – og þokast yfir í „frásögnina“.

LISTLÍKI

Formgliðnun eða samþjöppun tákna, aragrúi smáatriða, ofhlæði og úrkynjun, þannig að handverkið ber innihaldið ofurliði. Verkið hrindir fólki frá sér eða drukknar í hryggðarskopi. Listkíki getur líka verið hvati fyrir menn að breyta til, nota það sem fyrirmynd að nýju listaverki, stækka, skrumskælt eða upphafið, þannig að það fái ferskan hljóm og falli að ríkjandi andrúmslofti. Sjá nánir í STEMMINGU.

ÞJÓÐRÆKNI

Rómantísk sýn á land og þjóð með persónulegri nálgun, kærleik og virðingu. Mikilvæg gildi eru í brennipunkti, afturhvarf til æsku og dýrmætra minninga sem vekja ljúfar kenndir. Þessi tilfinningaríka aðkoma birtist í kvöldstemmum, dalalæðum og mistri til fjalla: afmarkaðir sýn, nálægð við landið og órjúfanlegri tryggð við það.

SKREYTI

Myndgerð sem lýsir gleði og hamingju með fjörmiklum formum og tákngervingum. Hún er hraðvirk og grípandi, liggur upp við yfirborðið en nær sjaldan tilfinningalegri dýpt.

SAKLEYSI

Einföld myndgerð, sjálfsprottin og hispurslaus, gerð án utanaðkomandi áhrifa, endurtekin með litlum tilbrigðum og fáum litum, oft í stórum flokkum þar sem öll verkin eru keimlík og spegla persónu höfundarins, en aldrei samfélag hans. Rétt er að geta þess að teikningar barna eru af öðru tagi, því börn staðsetja sig í myndheiminum og hafa næstum því líkamlega nánd. Þau segja sögur og lýsa reynslu, fela eitt og ota öðru fram eftir hentugleikum.

ÍHALD

Fylgispekt við hefðir, skipulag og tákngildi í kyrrstæðum samfélögum, sem gera mun á því hvar einstaklingur stendur innan ættflokks, almúga eða hirðar. Oftast eru verkin bundin trúarathöfnum, kynferðismálum, manndómsvígslum, veiðum, ferðalögum, minningum um látna, lækningum, töfrum og launhelgum. Myndgerð þessi (primitive) hafði gríðarmikil áhrif á alþjóðlega gerjun í byrjun 20. aldar, en skekkti um leið nokkuð sýn manna á gildi hennar innan hugmyndaheimsins og umhverfisins sem mótaði hana og þróaði í rás aldanna. Í nútímanum örlar á staðlaðir myndgerð meðal hópa sem hafa tilhneigingu til að þjappa sér saman, svo sem íþróttafélaga og einkaklúbba, með táknum, merkjum, fánum og minjagripum til að viðhalda samruna, einingu, trúmennsku, staðfestu og völdum.

FRÁSÖGN

Myndir sem varðveita andblæ liðinna tíma, lýsa verklagi og atvinnuþáttum, taka fyrir sögur og minni, örnefni,dal, fjall, goðafræði, ævintýri, leiki og ferðalög, eða yfirnáttúruleg fyrirbæri, oft með nákvæmum útskýringum. Viðburðir úr æsku eru sagðir á sjálfstæðan hátt, rétt eins og fréttir. Þá má nefna þau vinnubrögð frásagnarfólks að nota náttúruform, afganga og endurvinnanlega hluti.

VIÐBRAGÐ

Myndir sem eru unnar sem andsvar við leiðindum og stöðnun, áreiti, einelti, afbrýði, ástleysi og höfnun, ofbeldi, einangrun, fangelsun, fíkn, svikum starfsuppsögn, meiðslum, veikindum, missi og sorg. Annars vegar flytja þér beinskeytt skilaboð með blygðunarlausum framslætti og ruddaskap, jafnvel niðurbroti, klámi og trúarofstæki. Hins vegar eru myndirnar innhverfar og blíðar, fara yfir þröskuld raunveruleikans og stefna inn á við þar sem hlutirnir eru afstæðir og sérgerðir og kúra í friði. Það sem áður útilokaði viðkomandi mann frá eðlilegri þátttöku, tákngerist smá saman í vörn utan um sársauka og einmanaleik, hann afneitar því sem hrjáir hann og reynir að sætta sig við orðinn hlut, felur, upptendrar, fegrar, gleymir – og fyrirgefur.

SÝNIR

Annars vegar myndgerð sem framkallast af neyslu vímuefna þar sem óraunverulegir atburðir brjótast fram stjórnlaust, oft með sprengikrafti og látum. Formin eru sveigjanleg og afbökuð, litadýrðin sjúkleg. Þetta eru uppskurðir á sál og líkama, endurlausn og alsæla eða hyldýpi martraðarinnar. Framsetningin er í engum tengslum við raunveruleikann, heldur ósjálfráða framrás undirmeðvitundarinnar. Hins vegar myndgerð sem verður til vegna bágrar geðheilsu eða langvinnrar lyfjameðferðar, nema hvort tveggja sé. Menn grípa í nærtæk hálmstrá, eru í nánu sambandi við fljúgandi furðuhluti og guðlegar verur, telja sig hafa ákveðnu hlutverki að gegna og trúa á þau skilaboð sem þeim berast með ofurnæmri sýn, heyrn eða skynjun.

STEMMING

Hleypidómaleysi, kærulaust viðhorf gagnvart lærdómi, höfnun á viðteknum sannindum og umsnúningur á hegðun. List í þessum flokki er vaxtarbroddur í þróun nýrrar tjáningar og logar af skrýtnum uppátækjum, elskulegri kímni, barnslegri ádeilu og stríðni. Stundum er hún gelgjuleg en umfram allt heiðarleg. Athyglisvert er að skoða hvernig höfundur þessarar myndgerðar sækja í listlíkið eða ígildi þess, notfæra sér möguleika upplausnar, formleysu og ofhlæðis og tengja þá persónulegum geðhrifum.

ÝKJUR

Gagnrýn afstaða, pólitískar öfgar, listfræðileg innskot til að hneyksla og stuða og kalla fram víðtæk viðbrögð, jafnvel með gjörningum sem jaðra við sjálfspíningu.

SPEKI

Gervivísindi með sýndarrökum, hjáfræði og sérvisku. Vitnað í eigin rannsóknir með miklu streymi upplýsinga og smáatriða sem ruglar skoðandann í ríminu, nema hann hafi lagt á sig nokkurt erfiði til að skilja frumhugsunina og sé orðinn innvígður í hugmyndakerfið. Myndgerðin er yfirleitt falleg og grípandi, og ef skoðandinn nýtur hennar frjálst og óþjakaður af inntakinu, þá verður hann undireins aðdáandi viðkomandi listamanns.Níels Hafstein

Sjónauki, 3. tbl, 2008