Níels Hafstein

ÆSKULIST OG FRAMÚRSTEFNANíels Hafstein, Formaður Félags Nýlistarsafnsins.


Þegar barn vex og dafnar fer það fljótt að skoða umhverfi sitt af athygli, það víkkar sjóndeilarhring sinn smátt og smátt, forvitni þess er vakin og dregur það út í króf og kima; inn í skáp, upp á borð, út í glugga: Drottinn minn hve veröldin er stór! Barnið snýr við og hefst handa við að skapa sér einkaheim: dregur teppi fyir stóla og býr til hús, smækkar veruleikann á pappír: blómin í garðinum, pabbi og mamma, dýrin í sveitinni, bílar, sól og stjörnur, - hér öruggt að vera, hér getur barnið afmarkað reynslu sína, hér getur það tjáð ýmsar mikilvægar hugsanir, þrár og kenndir, sett fram spurningar og fengið leiðsögn, huggun,- og umbun. Hér á draumurinn upphaf sitt, hér hefst og endar ævintýri dagsins.

Í myndheimi barnsins, með táknum og tilvísunum, er lýsing á skapferli, reynsla dags og nætur, þar er að finna ómótað formskyn, sem þó er einstaklingsbundið, - hið sama gildir um lit og línu. Í heildinni er ákveðinn samhljómur spunnin úr djúpi hugans: persónuleikinn sjálfur, spegilmynd hans. En, einn góðan veðurdag þegar síst varir, þá dofnar bjarminn á þessu sviði, barnið stígur fram til móts við lífið og kröfur þess, og skilur eftir töfrana ú bernsku að baki.

Þegar fullþroska manneskja finnur fyrir þörf til að skapa eitthvað sérstætt, virkja ímyndunarafl sitt og tjáningargleði, þá á hún raunverulega aðeins um tvennt að velja: að vitja upprunans og knýja á leynidyr hjartans þar sem ofurveikt titrar sá strengur sem gefur réttan tón. Eð hún gengur í gegnum harðan og miskunnarlausan skóla þar sem allur óþarfi er máður burtu og all er á ný byggt upp frá grunni. Þar eru sjálfsagi og gagnrýni leiðarljósin skæru, þrotlausar rannsóknir, áfangar, smásigrar. Viðfangsefni er sundurgreint og krufið, síðan kastað á glæ. Loksins eftir dúk og disk: logn, vissa, hamingja, hugljómun, sífelld þróun, bylting. En líka einsemd, mótlæti, skilningsleysi, - en enginn frami og frægð, því ljósið skín á þá sem gáfust upp og vantaði neistann, - sporgöngumennina.

Þegar maðurinn lýkur upp dyrum að bernsku sinni til að hefjast handa þar sem frá var horfið, þá stígur hann mjög mikilvægt skref, hann bægir frá sér efasemdum, óánægjuröddum og áliti samferðafólks, fordómum og tvíræðum athugasemdum, - hann sannar manngildi sitt með því að ganga þvert á breiða veginn. Hann skapar eingöngu fyrir sjálfan sig, og verk hans eru þá aðeins einhvers virði að þau séu gerð í hjartans einlægni: tilgerðarlaus og sönn. Og ævintýrið hefst á nýjan leik.

Æskulist og framúrstefna: Báðir aðilar stefna að sama marki, og þrátt fyrir ólíkar leiðir og lausnir þar sem annar horfir fram en hinn aftur, þá ná þeir saman að lokum og þegar hringurinn fullkomnast.
Í framúrstefnu kannar maðurinn form, liti og línu, stöðu og stefnu, hlutföll og skipulag, opið og lokað rými, mýkt og hörku, styrk og sveigjanleik, áferð, samspil, massa og gliðnun, andstæður og samstæður. Hann kannar einnig víddir og dýpt, rúm og tíma, kerfi og heildir. Niðurstaða rannsókna hans er óvænt, frumleg, heillandi.

Æskulistamaðurinn hugar fyrst og fremst að myndefninu, og hvernig það tengist reynslu hans minningum og atburðum líðandi stundar. Í verkum hans birtist daglegt stúss, tilvísun í þjóðsögur og sagnir, liðni búskapahættir, ævintýri. Stundum nálgast verk hans siðfræðilegar spurningar jafnvel stjórnmál og háspeki.

Æskulist er heillandi tímalaus í þeim skilningi að hún breytist ekki í innsta eðli sínu, sem er sakleys og einlægni, hún ljómar í hellnamálverkum og ristum sem gerðar voru fyrir þúsundum ára, síðan í mannkynssögunni allri. Hún er fjölbreytt, sérstök, þróast ekki en tekur stundum spor til hliðar, en fellur aldrei undir stíl eða skóla. Æskulist er oft lögð að jöfnu við klaufaskap, eftirhermur og fúsk, en ekkert er fjarri sanni, hún er einfaldlega formálalaus tjáning fólks, sem er óspillt af heimsins glaumi, hjartahreint, mótað úr skírum kjarna, - eins og gullið.

Æskulistamaðurinn leggur oft áherslu á að ná fyrirmynd sinni, hvort heldur hún er sýnileg andspænis honum eða lifir í minningunni, en það leiðir að sjálfu sér að slíkt er ógerlegt, það er eins og hann horfi í gegnum matt gler eða grisju, - en það er einmitt við slíkar aðstæður sem undrið kviknar: töfraveröld sem vekur fögnuð og hamingju í brjósti þess sem skoðar.

Æskulistamaðurinn er hvers manns hugljúfi því hann keppir ekki neinn. Myndverk hans eru hógvær og látlaus, því hann lifir í sátt við umhverfi sitt og aðra menn. Æskulistin rennur ljúflega í farvegi sínum, stundum er hún feimin og hlédræg eins og ástfangin stúlka eða hún er í felum eins og álfarnir,- eftir jarðýtan kom til landsins.

En hvort heldur sem er, æskulist eða framúrstefna: sönn tjáning er sprottin beint úr kviku mannsins, úr undirdjúpunum þar sem ljósið týrir, en glóir stundum í björtum loga svo andinn tekur kipp og margslungin starfsemi fer í gang til að froma ljómann, finna honum farveg, lit og lögun. Og síðan kvölin að kynna fullburða verkið fyrir umheiminum, að kjósa frekar að hlúa að því áfram í næði, en vilja líka leyfa öðrum að sjá og dást að, - úr hæfilegri fjarlægð þó - með ugg í brjósti, einnig hreykni og gleði: þetta get ég, þetta kann ég, hér er ég! Og síðan að standa vörð um gáfuna, undrunina, hrifninguna, samanþjappaða persónureynslu sína, barnið í sjálfum sér,- allt þar til yfir lýkur.Úr sýningarskrá sýningarinnar: Í hjartans einlægni,
Nýlistarsafnið, 5-20. janúar, 1991.Upprunalegt gagn má finna á bókasafni Listasafns Íslands.