Ragnar Kjartansson

Það er svo sorglegt og fallegt að vera manneskja


Í þættinum er fjallað um myndlist Ragnars Kjartanssonar, f. 1976. Ragnar Kjartansson hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli fyrir myndlist sína sem dansar á mörkum margra listgreina, en leikhús og tónlist hafa haft mikil áhrif á myndlist Ragnars. Í gjörningum hans og vídeóverkum myndar endurtekningin eða lúppan grunnstef og andstæðar tilfinningar togast á, sorg og hamingja, alvarleiki og húmor, kaldhæðni og hreinskilni. Á undanförnum árum hefur Ragnar m.a. haldið einkasýningar í Luhring Augustine í New York, ICA í Boston, Carnegie Museum of Art í Pittsburgh, Museum of Contemporary Art í Miami, Moderna Museet í Stokkhólmi, i8 og Hafnarborg. Árið 2009 var Ragnar fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. Í þættinum er rætt við Ragnar Kjartansson, Markús Þór Andrésson, Börk Arnarson, Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur og Kristján Jóhannsson. Heyra má brot úr eftirfarandi verkum Ragnars: -Satan is real, 2004. 64 mínútna vídeóverk. -God, 2007. 30 mínútna vídeóverk. -The Schumann Machine, 2008. Á Manifesta 7 sýningunni dagana 19. júlí til 2. ágúst fluttu Ragnar og Davíð Þór Jónsson aftur og aftur ljóðaflokkinn Dichterliebe eftir Schumann og Heine. -Bliss, 2011. Gjörningur í Abrons Art Center í tengslum við Performa 2011 í New York. 19. nóvember frá 12 til 24 fluttu Ragnar og Kristján Jóhannsson ásamt 8 öðrum söngvurum og 14 manna hljómsveit síendurtekið sömu hendinguna úr lokaþætti Brúðkaups Fígarós eftir Mozart. -Song, 2011. Gjörningur í Carnegie Museum of Art í Pittsburgh. 10. til 27. mars 2011 fluttu systurnar Ragnheiður Harpa, Rakel Mjöll og Íris María Leifsdóttir síendurtekið sama stefið. An die Musik, 2012. Gjörningur í Migros Museum für Gegenwartskunst 10. til 17. júní þar sem 8 söngvarar og 8 píanóleikarar fluttu síendurtekið An die Musik eftir Schubert. -The Visitors, 2012. Vínardrengjakórinn flytur stef úr vídeóverki eftir Ragnar við texta Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur, útsett af Davíð Þór Jónssyni og Kjartani Sveinssyni.Rúv, 2013
Hlekkur á gagn