Ragnar Kjartansson

Áhrifavaldar„það eina sem við þurfum að gera er að hesthúsa meistaraverk, melta og æla þeim“.


Áhrifavaldar mínir eru aðrir listamenn. Aðrir hugheimar sem gegnsýra líf mitt. Hvort sem þar er eitthvað popplag, ljóðlína eða innrétting í Eden. Ég er sampler eða biluð ljósritunarvél sem skilar öllu dálítið öðruvísi út úr sér sem komið er inn. „Ég er annar“ skrifaði Rimbaud, og ég er nákvæmlega allir listamenn sem ég þekki. Eins og „morf“ myndirnar hans Erlings Klingenbergs. Samt hafa þeir sem ég þekki persónulega mest áhrif á mig. Ég er gæfusamur að hafa fengið að alast upp og vinna hér í íslensku listasenunni. Hvort sem það var í tónlistinni, myndlistinni, leikhúsinu eða augnlýsingabransanum. Það er svo mikið af stórkostlegu fólki sem er alltaf að sprengja á manni hausinn (kannski hausinn og sprengjuna sem er ekki alveg viðeigandi í sambandi við augnlýsingabransann). Tónlistarmennirnir eru náttúrulega alveg rosalegir. Fullir af list sem þeir geta aldrei skilgreint. Dínamít í hvítum jakkafötum seins og Davíð Þór Jónsson. Ég hef bara alltaf haft það að leiðarljósi að drekka mikið. Fylla mig af hugmyndum annarra og þá hljóti eitthvað sérstakt að koma frá mér. Þegar ég horfi í gin fegurðarinnar fer tilvitnunarvélin í gang. Hvaðan koma hughrifin? Sumir listamenn hafa náttúrulega haft meiri áhrif en aðrir.

Gabríela, Gjörningaklúbburinn og Egill Sæbjörns opnuðu augu unglingsins fyrir möguleikum samtímalistarinnar. Í myndlistarskólanum voru kennarar eins og Birgir Andrésson, Gunnhildur Hauksdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Markús Þór Andrésson, Sigga Björg og Ráðhildur Ingadóttir sem vísuðu veginn. Einu sinni gaf Biggi mér spjótið sitt, með svarta hárið í skítugum frakka rétti hann mér það á opnun í Gerðarsafni. Vægast sagt áhrifamikill atburður. Halli Jóns er svo boðberi póesíunar í Bankastrætinu.

Síðan langar mig að nefna fjóra listamenn sem ég ber mig alltaf saman við af einhverjum ástæðum. Þetta eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Ingibjörg Magnadóttir á aðra höndina og svo Ásmundur Ásmundsson og Magnús Sigurðarson á hina. Þau eru alveg uppáhalds. Þótt ég sé giftur Ásdísi og hafi nokkrum sinnum sofið hjá Magnúsi er það málinu óviðkomandi. Þetta eru þeir listamenn sem ég hugsa oftast til í listsköpun minni og hef gert í mörg ár. Það má rekja verkin mín eftir þeirra verkum. Þau eru einhvern veginn mælistikan mín. Nymfururnar og kentárarnir. Þau hafa gert verk sem eru alveg á jaðri skilnings hjá mér. Þau ná að „fokka“ í mér og breyta mínum hugmyndum um listina. Þau eru í framtíðinni. Einhvers konar falsspámenn. Sannfærandi en þó alveg á mörkum fattarans í mér. Það er þetta ókannaða svæði skilningsins sem er heillandi og leiðir mann áfram í listinni.

Sjónauki, 2. tbl, 2005