Þorvaldur Skúlason

Nonfígúratív listNonfígúratíva myndlistin hefur verið að þróast frá 1910, eða síðan Kandinsky málaði fyrstu myndir sínar sem voru aðeins litir og form. Þessi stefna er því ekki það tízkufyrirbæri sem margir, er lítið þekkja til nútímalistar, vilja vera láta. Hinsvegar hefur hún tekið miklum breytingum og auðgazt mjög eftir síðari heimsstyrjöldina og er nú í stöðugri sókn víða um heim. Nonfígúratíva málaralistin og hin natúralistíska eru algjörar andstæður, og til þess að reyna að skýra hina fyrrnefndu nota ég því þá síðarnefndu til samanburðar. Natúralistinn leitar sér fyrirmyndar og reynir síðan að líkja eftir henni með litum sínum og teikningum. Stundum leggur hann að vísu áherzlu á einstaka liti eða línur fyrir myndarinnar til þess að ná meiri áhrifum. En litirnir eru honum þó fyrst og fremst tæki til að eftirlíkja blæbrigði náttúrunnar. Nonfígúratívt málverk skírskotar ekki til neinnar þekktrar fyrirmyndar. Það er í einu og öllu sköpun, bygging sem vex upp í huga höfundar þess. Þegar verkinu er lokið stöndum við andspænis mynd sem túlkar innri sjón málarans á liti og form.Til þess að ná árangri í þessari list þurfa mennn að vera gæddir næmu lit- og formskyni. Form og litir verða að lifa innra með málaranum. En þetta er þó ekki nóg. Hann verður að komast til botns í hinu sérstaka eðli hvers litar sem hann notar til að tjá sig. Svipað og tónskáldið þarf að þekkja út í æsar hvert hljóðfæri hljómsveitarinnar, er nonfígúratívum málara nauðsyn að skilja eigindir lita sinna. Því að í málverki hans syngja þeir hver með sinni rödd, óháðir eftirlíkingu á ytri fyrirbærum náttúrunnar. Litir eiga sér sína náttúru sem er í nánu sambandi við allt lifandi en samt eitthvað sérstakt. Við vitum í rauninni ekki hvað liturinn blátt er, fyrr en við hættum að tengja hann hafi, himni eða fjalli. Í nonfígúratívu málverki hafa litir allt aðra merkingu en í natúralistísku. Í hinu fyrrnefnda er þeim teflt saman, hverjum með sínum sérkennum; í hinu síðara eru sérkenni þeirra máð út til þess að líkja eftir yfirborði náttúrunnar. Áhrifamáttur lita er óumdeilanlegur, og eins það, að þeir eru jafn raunhæfur þáttur í lífi okkar og hvert annað fyrirbæri þess.

Þeir sem telja málverk, er hefur litbyggingu eina að inntaki, óraunhæft og tómt hafa ekki athugað mál sitt vel. Við getum lifað lífinu án fjalla — en tæplega án lita. Fjöll þykja þó fullboðlegt viðfangsefni fyrir málara. Hér á íslandi að minnsta kosti. Nonfígúratívt málverk er eins og áður varsagt eingöngu bygging lita og forma. Milli verksins og listamannsins er enginn þriðji aðili, ekkert mótív handan við myndina. Það leiðir af sjálfu sér að formheimur slíkra málverka er allur annar en natúralistískrar myndar. Þar er hraði t. d. túlkaður með því að sýna hest á hlaupum, bárur sem brotna við strönd o. s. frv. — í nonfígúratívu málverki felst hreyfingin í hlutföllum þess, í hrynjandi myndarinnar. Þar er ekki skírskotað til hreyfinga sem við þekkjum úr hinni ytri veröld. Það byggist á rythma sem býr í manneskjunni sjálfri. Málarinn snýr sér beint til áhorfandans og tjáir formkend sína milliliðalaust. Í all flestum tilfellum er það aðeins natúralistískt uppeldi hins síðarnefnda sem kemur í veg fyrir að hann og listamaðurinn mætist.

Oft heyrist talað um að þessi málverk séu flöt og tóm, þau skorti rúm og dýpt. Hér er auðsæilega átt við fjarvídd natúrahstískrar myndar. Nonfígúratívt málverk er vitanlega allt annars eðlis hvað snertir dýpt og rúm. Þar er ekki reynt að eyða áhrifum flatarins; þessari fögru undirstöðu verksins er haldið eins óspilltri og frekast er unnt. En samt er hér vídd, ekki síður en í natúralistísku myndinni. Form eiga sitt sérstaka rúm, þau eru misjafnlega opin eða lokuð. Það má þjappa þeim saman, láta þau víkka og leysast sundur á fletinum, þau geta verið ýmist dökk eða björt. Litir hafa einnig þá náttúru að þeir standa misjafnlega framarlega, séu þeir settir hlið við hlið, Rautt kemur á móti okkur, blátt víkur undan o. s. frv. í þessu felast rúm og dýpt hinnar nonfígúratívu myndar, sprottin úr formkennd og hugsun málarans. Ymsir tala um að þessi verk séu geómetrísk og köld. Þessu fólki langar mig til að benda á, að hita eða kulda listaverks er fyrst og fremst að finna í heild þess og reisn allri en ekki einstökum formum. Hitt er svo annað mál, að tilgangslaust er að leita þeirrar hóf- lausu tilfinningasemi og væmni í góðri non- fígúratívri mynd, sem í margra augum er tákn ástríðna og hita.

Allar listir eru í nánu sambandi við hugsun og tilfinningu samtíðar sinnar og svo er einnig um nonfígúratíva málaralist. Hún ber í sér hraða nútímans og breytileik, en einnig ná- kvæmni í vinnubrögðum. Þannig túlkar hún anda tímabilsins kannski frekar en ytra útlit þess.Birtingur, 01.04.1955
Hlekkur á gagn