Ásgerður Búadóttir

Nútímabyggingarlist kallar á myndvefnað

Ásgerður Búadóttir við vefstólinnVefnaðarlega séð er vefur tvívíður flötur, sem byggist upp hornrétt af sam ofnum þráðum: lóðréttum, sem er uppistaðan, og láréttum, sem er ívafið. Það er sama hvaða efni og aðferð vefarinn notar, hvort hann býr til ferhyrnt veggteppi í hefðbundnum stíl eða hreyfilist, — alltaf er hann háður þessu lögmáli. Þetta skapar þeim, sem leggur stund á myndvefnað, aðhald, og það er dálítið gott að geta ekki gert allt jafnvel þótt maður geti gert allt.

Það álítur a.m.k. Ásgerður Búadóttir myndlistarkona, sem telur myndvefnað eiginlega sitt eina, rétta tjáningarform. Hún vefur nær eingöngu úr ull, sem henni finnst geysilega heillandi efni. Sjálft efnið gefur henni hugmyndir að verkum sínum og þá ekki síður litirnir á ullinni.

Og það má með sanni segja að Ásgerður hafi lotið lögmáli vefsins allt frá því hún komst i kynni við það. Hún lagði stund á myndlist fyrst hér við Handíðaskólann, sem þá hét. Síðan tóku við tvö ár í málaradeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn og 1/2 ár við nám í grafík í sama skóla. Áður en Ásgerður fór heim að námi loknu keypti hún sér vefstól og upp frá því hefur hún ekki lagt stund á aðrar greinar myndlistar.

— Þetta hefur einhvern veginn legið í mér, segir hún.Þórunn dregur stundum huga móður sinnar frá vinnunni.Á námsárum Ásgerðar í Kaupmannahöfn var myndvefnaður ekki kenndur við Listaháskólann og lítið um vefnaðarsýningar í borginni. Þó hafði hún séð eitthvað af myndvefnaði. Jafnvel þótt þessi grein hefði verið kennd er óvíst, að hún hefði valið hana, enda er myndlistarnám góð undirstaða fyrir vefnað. Þegar heim kom fór Ásgerður að nota vefstólinn og vefa.


Hörgull á góðu efni


Ásgerður býr ásamt eiginmanni sinum Birni Th. Björnssyni og þrem börnum þeirra inni i Vogum, og þangað heimsóttu blaðamaður og ljósmyndari Tímans hana ekki alls fyrir löngu:

Í heimilislega búinni vistlegri stofu skipar vefstóllinn öndvegi og hér vefur Ásgerður og einkadóttirin Þórunn, 4 ára leikur sér í kring, en hana kallar hún raunar „sitt bezta verk“. Uppi á lofti er bandið geymt og þar hefur Ásgerður kompu þar sem hún teiknar og rissar. Vinnunni hagar hún þannig, að fyrst gerir hún smáskyssur að verkum sinum og hefur þá litina, sem hún ætlar að nota i huga, og handleikur mikið efni, sem hafa á í vefnaðinn. Þá gerir hún teikningu í þeirri stærð, sem verkið á endanlega að vera í, og fer síðan að mestu leyti eftir henni.Eitt af nýjustu verkum Ásgerðar Búadóttur.Við minntumst á að Ásgerður vefur mest úr ull, hör og stundum notar hún hrosshár. Þegar við spurðum hana hvernig efnisöflun væri háttað hér fyrir myndvefnað kom í ljós, að þar er við erfiðleika að etja. Íslenzk ull er nú fyrst og fremst unnin fyrir vélvefnað og prjónaskap, en ekkert hugsað um myndvefnaðinn. Það efni sem notazt þarf við er leiðinlegt og sumt lélegt.

- „Maður á gjarnan svolítinn lager af bandi, sem maður býr að“, segir Ásgerður, en ef ég fer í verzlun til að kaupa efni til vefnaðar er þar alger eyðimörk. „Eins er um litunina. Ég býst við, að á næstunni þurfi ég að fara að lita sjálf, sem ég hef raunar þegar gert í litlum mæli. Ég man eftir því, að er ég var að byrja að vefa fór ég með litaprufur upp að Álafossi, en þar var yfirmaður Pétur Sigurjónsson. Ég bað hann að lita fyrir mig, sem hann gerði. Hann var allur af vilja gerður til að aðstoða mig. Ég er ekki að segja, að verksmiðjur geti gert eða eigi að gera svona, en þetta verður að breytast frá því sem nú er“.


Hvar hefðum við átt að hafa myndvefnað


Við Íslendingar eigum sáralítið af gömlum myndvefnaði, aðeins fáeinar rúmábreiður, söðuláklæði o.þh. Þetta er þó ekkert furðulegt. Hvar hefðum við átt að hengja upp myndvefnað í okkar lágreistu, skammlífu húsum. Nútímabyggingarlist hins vegar með sínum hreinu, köldu flötum bókstaflega kallar á myndvefnað, enda hefur hún verið aðalhvatinn að endurreisn myndvefnaðar á síðari tímum. Sums staðar, eins og t.d. í Sviþjóð, er varla byggt svo hús, að ekki sé fenginn listamaður til að vefa mynd til að hafa í því. Við minntumst áður á Svíþjóð, en Norðmenn eiga sér langa myndvefnaðarsögu, og á öllum Norðurlöndum er myndvefnaður vaxandi. Frakkar áttu mikinn þátt i viðreisn myndvefnaðar, en franski málarinn Lurca átti frumkvæði að mikilli myndvefnaðarsýningu, sem haldin er á tveggja ára fresti í Lausanne í Sviss. Þar eru sýndir vefir hvaðanæva að úr heiminum, allt geysilega stór verk. Eflaust hefur þetta örvað myndvefnað nútímans, þótt skiptar skoðanir séu um hvernig sýningarnar sjálfar hafi tekizt, en segja má að þar séu fyrst og fremst stór, ofin málverk unnin á vefstofum og einstaklingum er varla fært að taka þátt í sýningunum.


Settust sjálfar við vefinn


- „En þrátt fyrir allt finnst mér myndvefnaður aldrei hafa staðið eins sjálfstætt og hann gerir núna“, segir Ásgerður Búadóttir. „Það held ég að sé fyrst og fremst vegna þess að listamennirnir hafa setzt sjálfir við vefstólinn og komizt í snertingu við efnið“.Dóttur sína, Þórunni, kallar Ásgerður sitt bezta verk. Hér er sú fjögra ára með dætrum sínum.Pólverjar og Tékkar hafa blásið nýju lífi í nútíma myndvefnað. Þeir vinna sjálfir verk sín og eru í sambandi við efnið, sem þeir nota, hvort sem það er ull, nælon, hampur, eða eitthvað annað, en hið margvíslegasta efni er haft til myndvefnaðar nú á dögum. Í Póllandi og Tékkóslóvakíu er búið mjög vel að myndvefnaðarfólki. Þar situr ekki hver í sinu horni og vefur, heldur hefur ríkið sett á stofn tilraunavefstofur. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.


Örvandi að fá verkefni


Við víkjum að því við Ásgerði hvort farið sé að verða vart hvatningar frá opinberri hálfu eða gerðar séu pantanir á myndvefnaði hér á landi. Það kemur á daginn að slíkt er nánast ekki til og ekki annað að gera fyrir myndvefnaðarfólk en að vinna að sínum hugmyndum eitt og óstutt í þeirri von að úr rætist í framtíðinni. En kannski er líka að rofa til hér.„Hrævareldur.“ Þetta teppi Ásgerðar er í Langholtsútibúi Landsbankans.Fyrst á verkefnið, sem Ásgerður fékk var teppi, sem nú hangir i Norræna húsinu. Hafði hún að öllu leyti frjálsar hendur og mátti sjálf kjósa, hvaða vegg verk hennar skyldi prýða. Úr þessu varð „Stormharpan“, sem hangir í fundarherbergi hússins, teppi ofið undir áhrifum af þeim stíl, sem Norræna húsið er byggt í. Annað teppi í svipuðum litum, brúnum, rauðum og hvítum og einnig úr ull og hrosshári hangir í stofunni þar sem við sitjum með Asgerði. Það á að fara i nýbyggt hús þeirra Þórunnar Jóhannsdóttur og Vladimirs Ashkenazy. Þau sáu teppið í Norræna húsinu og voru ekki sein að biðja Ásgerði að vefa fyrir sig, henni væri alveg frjálst hvernig það yrði. Þetta verk hefur verið á ýmsum sýningum m.a. á norrænu vefnaðarsýningunni í Svíþjóð í haust.

- „Þetta er svo gott fólk", segir Ásgerður, „að það var gaman að vinna fyrir þau. Og það er alltaf mikil hvatning að fá verkefni, þótt oft sé litið um þau og ekki annað að gera en að halda sínu striki einn í sínu horni“.


Aldrei fengið góða hugmynd yfir pottunum


Ásgerður hefur fyrst og fremst helgað starfskrafta sína vefnaðinum ásamt heimilisstörfum og fjölskyldu. Hún hefur oft verið beðin um að kenna, en alltaf komið sér hjá því og ekki viljað taka að sér þriðja starfið.

- „Ég held að hitt sé líka nauðsynlegt og vona að eitthvað af því, sem maður er að vinna komi til skila á annan hátt“, segir hún. „Stundum eru listamenn spurðir hvernig gangi að samræma listgrein þeirra einu eða öðru starfi, sem þeir hafa sér til lífsframfæris“, segir Ásgerður. „Ég get eiginlega ekki hugsað mér að neitt fari betur með vefnaðinum en heimilisstörfin. Með þeim hef ég meiri tíma til að vefa (þó aldrei nógan) en með einhverju öðru. Ef ég hef átt góðan dag og getað unnið ótrufluð, finnst mér ágætt að stússast í matseld. En ég tek það fram að ég hef aldrei fengið góða hugmynd yfir matarpottunum". —

SJ
Tíminn, 19.04.1973
Hlekkur á gagn