Alfreð Flóki

„Það er þá helst að maður sakni vissra bakgarða"Viðtal við Alfreð Flóka, sem hefur ort og teiknað frá barnsaldri„Stórborgarhávaðinn fer vel í mig“„ Ég hef grun um að það hafi verið veggfóður hjá afa mínum og ömmu, sem leiddi til þess að ég varð teiknari. Ég hef aldrei séð þetta veggfóður fyrr eða síðar. Það var með undarlegum formum. Ég byrjaði snemma að teikna, elsta myndin mín er sjálfsmynd frá því ég var eins og hálfs árs.“

Það er Alfreð Flóki sem hér segir frá fyrstu kynnum sínum af myndlist, en hér í stofu Flóka kennir ýmissa grasa. Á hillu eru undarleg listaverk úr litlum trjárótum, og Flóki segir mér að móðir sín hafi gert þau. Hér er og verk eftir Diter Rot á vegg og mikið af bókmenntum í hillum.

- „Ég varð snemma fyrir áhrifum úr bókum eins og Decameron og hef eiginlega aldrei losnað við þau“, segir Flóki.

„Hvernig voru fyrstu myndir þínar?“

- „Ég held að myndirnar mínar hafi í raun og veru lítið breyst. Ég á mikið af myndum frá því ég var barn, þetta eru eiginlega sömu kynjadýrin og ég er að mála í dag.“Flóki með sjálfsmynd, gerða 1957.„Hefur þá enginn málari eða kennari á þínum ferli haft verulega mótandi áhrif á þig?“

- „Jú einn, Jóhann Briem. Hann kenndi mér í gagnfræðaskóla. Hann er líklega eini lifandi listamaðurinn sem hefur haft verulega mótandi áhrif á mig. Ég byggi eiginlega mest á hans kennslu enn í dag. En auðvitað verð ég stöðugt betri tæknilega. Eins og ég hef margoft sagt verð ég æ betri og sú sýning sem ég vinn að hverju sinni er auðvitað sú besta.“„Ég er sannfærður um að þessi bíladýrkun er sexúel.“

„Hef ort síðan ég var 7 ára gamall“

„Ég er alltaf að mála sömu kynjadýrin.“Þú hefur mikið starfað í Danmörku sem teiknari og búið þar að miklu leyti? Finnst þér betra að vinna þar en hér?

- „Ja, danskt landslag hefur alltaf haft sérlega hvetjandi áhrif á mig, fyrir utan bjórinn og allt það. Nú, ég lærði í Danmörku og bjó þar, en ég hef alltaf komið hingað heim af og til og lít auðvitað alltaf á mig sem Íslending, sem er gestur í Danmörku en ekki öfugt.“

„Hvernig vinnur þú? Bíður þú eftir andanum, eða getur þú teiknað hvenær sem er? “

- „Ég er nú ennþá svo gamaldags, að ég verð að vera í réttu hugarástandi til þess að geta teiknað. Ég get ekki ákveðið hvenær ég ætla að teikna. En það er margt sem gefur mér „inspirasjón“, gönguferðir, vikublöð, tónlist, bækur, ljóð.“

„Hefur þú ort sjálfur?“

- „Já, heilmikið. Ég byrjaði að yrkja fyrir alvöru 7 ára gamall. Ég á mikið safn af ljóðum og sjálfsæfisögubrotum í prósa. Ég orti mjög undir áhrifum frá Decameron og Heptameron. Ég verð auðvitað allra karla elstur og vonast til þess að einhverjir óvinir mínir muni uppgötva þessi verk að mér látnum og gefa þau út, en ég hef ekki áform um að koma þeim út í lifanda lífi.“

„Ertu trúaður, Flóki?"

- „Ég held að aldrei hafi verið til góður listamaður sem gengur á tveimur fótum og efast eitt andartak um tilveru guðs.“

„Hvað hefurðu fengist við annað en að mála og yrkja?“

- „Ég vann á eyrinni í tvö sumur, en því trúir víst enginn. Það er nú samt satt. Svo var ég kaupamaður í sveit hjá ákaflega góðu fólki í mörg sumur. Síðan hef ég eiginlega ekki unnið ærlegt handtak, eins og sagt er.“

„0g nú ertu að fara að sýna hér heima?“

- „Já í Bogasalnum. Þetta eru allt ný verk og ákaflega góð. Eins og ég sagði verð ég stöðugt betri og betri. Hugmyndir mínar eru alltaf svipaðar, en tæknilega fer mér mikið fram. Þetta eru mikið minni teikningar. Svo tek ég þátt í mjög stórri alþjóðlegri sýningu í haust í Chicago en það eru súrrealistar frá öllum heiminum sem sýna þar. Ég er að hugsa um að fara vestur og heimsækja fólk sem ég þekki í Bandarikjunum í leiðinni. Ég neyðist víst til þess að fljúga. Ég er með afbrigðum flughræddur maður. Ég er hræddur við allt nútíma maskineri. Einhver hræðilegasti spádómur sem á mig hefur verið lagður er sá að ég muni eignast eigin bíl og gera við hann sjálfur. Mér finnst þetta eiginlega jafn ótrúlegt og að ég verði formaður Hvítasunnusafnaðarins. En þetta var mjög góð spákona.“

„Heldurðu að þú deyir, þegar þú sest upp i flugvél?“

- „Um leið og ég stíg upp í vélina sé ég fyrir mér flennistóra fyrirsögn í blaði og myndir og lista yfir áhöfn og farþega, sem létust í þessu umrædda flugslysi, sem ég er að fara að taka þátt í. En þegar vélin er komin á loft, slappa ég af og meðtek örlög mín. Þá er ég eins og búddamunkur og veit að ekki verður aftur snúið. Þá er ég ágætur.“„Ég er óskaplega flughræddur“

„ - Síðan hef ég eiginlega ekki unnið ærlegt handtak.“

„Ég hefði viljað vera uppi á dögum Neró, þegar menn höfðu annað og skemmtilegra við tímann að gera en að horfa á fótbolta.“

„Ég hef auðvitað yngst að útliti - en innrætið - “„Finnst þér betra að ferðast í lest?“

- „Mér finnst mjög rómantískt að ferðast með lest og lestarstöðvar eru einhverjir yndislegustu staðir sem ég veit.“

„Finnst þér þú hafa breyst sem persóna frá því að þú varst yngri?“

- „Helstu ellimörkin eru mórallinn. Hérna einu sinni lét ég mér ekkert fyrir brjósti brenna, en núna get ég ekki sagt styggðaryrði við einhvern bölvaðan dóna, án þess að fá óskaplegan móral. Annars er ég kannski ekki manna dómbærastur á þetta. Það er best að ég spyrji konuna mína.

— Ingibjörg, hef ég nokkuð breyst?“

Þegar Ingibjörg hefur hrist höfuðið heldur Flóki áfram:

-„Ég hef auðvitað yngst að útliti, en að innræti er ég alltaf sama skepnan. Ætli ég sé ekki alveg eins og ég var þegar ég var 12 ára hvað innrætið áhrærir.“

„Hvers saknarðu helst frá Íslandi, þegar þú ert erlendis?“

- „Ég var einmitt að hugsa um þetta um daginn. Ég gat eiginlega ekki gert það upp við mig. Ég sakna að minnsta kosti ekki kyrrðarinnar. Stórborgarhávaðinn fer mjög vel í mig. Það er þá helst að ég sakni vissra bakgarða og svo auðvitað fólks, sem maður hefur taugar til.“

„Hvað fer mest i taugarnar á þér?“

- „Bílar. Öll djöfulsins bíladýrkun fer afskaplega mikið i taugarnar á mér. Ég bíð eftir að sjá bílakentára á götunum, þú veist, bíll að neðan og maður að ofan. Þú getur þá ímyndað þér hvar púströrið verður. Ég er sannfærur um aðþessi bíladýrkun er sexúel. Hafi maður séð menn pússa og bóna bílana sína á sunnudögum og þekki maður eitthvað til pornografíu, þá sér maður samhengið.“

„Hvenær hefðirðu helst viljað vera uppi?“

- „Á tímum Nerós i Róm og tilheyra háaðlinum. Þá var lifið fjölskrúðugra en í dag og menn höfðu annað skemmtilegra við tímann að gera en að horfa á fótbolta.“

„Og svo endum við á einni sígildri, Flóki. Ertu ánægður með heiminn eins og hann er? “

- „Ekki aldeilis. Ég held að þetta mannkyn, sem þó hefur möguleika á að sprengja sig í loft upp, fá öllu ömurlegri endalok, þ.e. að drukkna í sinum eigin saur.“

Þ.S.
Þjóðviljinn, 24.07.1975
Hlekkur á gagn