Alfreð Flóki

Hér er hin eina sanna listahátíð
Hérna sit ég í hægindastól heima hjá Alfreð Flóka, læt fara vel um mig og ætla að taka viðtal við hann, þennan tiltölulega blíðlynda rómantíker, sem hálfur bærinn heldur að sé sadisti, á meðan hinn helmingurinn er sannfærður um að hann sé kynóramaður.

- „Sadismi?“ spyr Flóki. „Hvað mér finnst um sadisma?“

„Já“ , segi ég og ítreka spurninguna. „Þú heldur þó ekki að hann sé eins djöfullegur og fólk vill vera láta?

- „Þegar þu minnist á sadisma“, segir Flóki eftir nokkra stund,“ þá dettur mér auðvitað í hug Donatien-Alponso-Franvois de Sade, hinn guðdómlegi markgreifi eins og súrrealistarnir kölluðu hann. Virkilega hugljúfur barna- og unglingabókahöfundur. Bækur hans eins og t.d. Justine og 120 dagar i Sódómu ættu að vera skyldulesning fyrir fólk á fermingaraldri. De Sade var maðurinn, sem sá í gegnum hræsni og yfirdrepskap samtíðar sinnar. Fyrir þessa glöggsýni varð þessi frjálsborni andi að dvelja yfir 30 ár i fangelsum og á geðveikrahælum. Aðal forréttindi listamanns eru þau, að hann getur drýgt glæpi á pappírnum eða á léreftinu, sem hann annars yrði tukthúsaður fyrir. Lítum t.d.á áhuga ýmissa listamanna á mörgum píslarvottum kristninnar, samanber á heilugum Sebastian. Það er ekki dýrlingurinn, sem vakið hefur áhuga þeirra, heldur kvalirnar, sárin og blóðið.“Flóki upp við nýjasta og frumlegasta sköpunarverk sitt. Tvær tæringlsegar naktar stúlkur á leið til spurninga í snjókomu.Það er hlaupið tómahljóð í hvítvínsflöskuna. En eitthvað verða menn að drekka. Og því þá ekki kaffi? Það er að vísu engin sálarvökvi, en gerir sitt gagn. Það er annars undarlegt, hvað samtíð okkar hefur mikið dálæti á kaffi. Já vel á minnzt, samtíðin.

- „Já, samtíðin“ segir meistarinn og andlitsdrættirnir sýna rótgróinn hrylling og meðfæddan viðbjóð á því fyrirbæri. „Við lifum á tímum eindæma grimmdar, hrottaskapar , heimsku og múgmennsku. Í dag getur fólk ekki hugsað, glaðzt og jafnvel ekki eðlað sig nema í hóp. Samanber húmbúkk eins og kollektíve- og grúbbusex.“

Ætli grimmdin hafi nú ekki verið allbærileg í fyrri tíð, skýt ég inn í eins og fávís kona.

- „Jú, en það er stigsmunur á grimmd samtíðarinnar og fortíðarinnar, nefnilega sá, að í grimmd samtímans vantar alla póesíu, alla fegurð, allan individuelisma. Það er stigsmunur á því að kasta bombum á varnarlaust fólk, og að tappa blóði af feitum og sællegum bóndastelpum í Transilvaníu og baða sig í blóði þeirra, til að öðlast fegurð húðarinnar. Það gerði ein yndisfögur og blíðlynd aðalsmær í gamla daga. Yfir þessu er viss elegans, sem nútímamenn ekki skilja, heldur rugla því saman við mannvonzku.“

Einu sinni þegar Flóki var að opna sýningu í Bogasalnum, kallar hann til blaðamenn. Nema hvað einn þeirra hefur annað hvort ekki verið í nógu góðu skapi, eða þá að maðurinn hefur verið fífl, nema hvorutveggja til komi, sem auðvitað er líklegast. Að minnsta kosti birti hann svohljóðandi frétt í blaði sínu. „Alfreð Flóki opnar sýningu á klámmyndum i Bogasalnum“.

- „Fyrir mér er klám smáborgaraleg lygi og fölsun,“ segir Flóki, þegar þetta berst í tal. „Algjör andstæða-erótíkur, sem er fegurð og sannleikur.“

Svo er það mál útrætt.Til hvers er maðurinn að fela andlit sitt bak við þessa vél?Á undanförnum árum hefur Flóki verið með annan fótinn í kóngsins Kaupmannahöfn. Það er góður og gáfulegur staður, kannski dulítið kærulausari en önnur pláss, en það veitir þeim, sem þar dveljast, vissa vellíðan. Hins vegar hefur mér alltaf fundizt Reykjavík — eindæma leiðinleg, andlaus og yfirfull af fólki, sem óttast að nágranninn laumist inn i eldhús að nóttu til og steli úr ísskápnum. Flóki er mér að vísu ekki alveg sammála varðandi þetta atriði, en þegar ég bað hann að gera samanburð á Kaupmannahöfn og Reykjavík, varð honum að orði.

- „Reykjavík er mótuð af ofstækisfullum boðum og bönnum. Sjálfsagðir hlutir eins og bjór, hundahald og koníak með kaffinu eru forboðnir ávextir. Halda mætti að sumir menn hefðu aldrei komizt í snertingu við menningarstraum.“


Listahátíðin?


- „Ég er hin eina sanna listahátíð.“

Svona getur lítillæti hjartans tekið á sig furðulega og hógværa mynd í meðförum meistara Flóka. „Hver sé hans aðalinnblástursgjafi?"

- „Þó að hrifning mín á Renoir sé takmörkuð, þá tek ég samt undir orð hans, sem voru á þá leið, að ef ekki væru til stinn brjóst og ávalar mjaðmir, hefði hann aldrei lyft pensli.“ Skyldi Flóki trúa á sjálfan sig, andskotann eða jafnvel Sveinbjörn Beinteinsson? Nei, því að

-„Ég trúi á hina miklu móðurgyðju, gyðju ástar og fegurðar, sem er uppspretta alls, listar, hamingju og aflvaki allrar jákvæðrar sköpunar.“

PHL
Tíminn, 09.03.1974
Hlekkur á gagn