Ásta Fanney Sigurðardóttir


Haraldur Jónsson

VASAVIÐTAL #3: HARALDUR JÓNSSON OG ÁSTA FANNEY Í SPJALLI


Haraldur Jónsson og Ásta Fanney hafa ruglað saman reitum að undanförnu – þau róa út á mið hins nálæga og fjarlæga, inn í mörgum miðjum umbreytinga og upplausnar. Nema orku, eima orku, teyma orku, sprengja orku… tungumálið afhjúpast í mjúkri hreyfingu og tóm nafnspjöld eru skilin eftir á skrifstofu glundroðans í eftirvæntingu nýrra tíma.

Klukkan 20.02 á íslenskum tíma, 30. ágúst. Blái vasinn hefur komið sér fyrir úti á svölunum, opnar skjalið og hinkrar eftir gestum.


Kristín Karólína: Hæ, Ásta gaman að sjá þig! (hún birtist online efst i hægra horni). Þetta er smá duló svona spjall – ég sé þig ekkert! og veit ekkert hvar þú ert, gætir alveg eins verið í Kína!

Ásta Fanney: Hæ :) ja flott duló, ætli Halli sé hérna einhvers staðar í laumi.

(Halli hefur birtist online svo best að vinda sér að efninu)

KK: Verið vellkomin í Bláa vasann og takk fyrir að gefa ykkur á tal við okkur.

Haraldur: Hæ og góða kvöldið!

KK: Það má greina ótal sameiginlega þræði í ykkar sköpun. Hvernig lágu leiðir ykkar saman, hvar kveiknaði tengingin?

Haraldur: Við höfum vitað af hvort öðru í nokkurn tíma. Ég man vel þegar ég sá bókina hennar Ástu sem kom út hjá Meðgönguljóðum. Sveinbjörg bókaútgefandi var að sauma hana með berum höndum í rafmagnslýstri stofunni heima hjá sér. Það var ógleymanleg sjón. Leiðir okkar lágu síðan saman fyrir alvöru á Zolta ráðstefnunni.

Ásta: Ja sko, við hittumst í fyrsta skiptið þegar ég var enn í Menntaskóla og var að reika um Reykjavík í plastbúning með Ástríði Tómasdóttur. Við vorum að gera textagjörninga útum allan bæ og Haraldur kom að okkur og spurði hvað væri á seyði. Manstu eftir því?

Haraldur: Já einmitt mig rámar í það. Voruð þið ekki að koma textum fyrir á gangstéttum og ljósastaurum í miðborginni? Við hittumst nálægt sjónum eða það var lúmsk rigning.

Ásta:: Ja nei það var 3 árum seinna. Þetta var fyrir löngu. Á Austurstræti, fyrir utan kebabstaðinn eða kannski var þar sjór. Þú varst með vatnsgreitt hárið. Eða kannski var það lúmska rigningin

Haraldur: Já nú man ég betur. Loftið var ekki salt heldur sætt og austurlensk krydd undir nasavængjunum

Ásta: Já, passar. Sætur sjór í úðaformi. Síðan tók Zolta við.

KK: Ég hitti Ástu í Berlín og áttum við spjall um allskonar, um mörk myndlistar og ljóðlistar… svo sagði hún mér frá fyrirbærinu Zolta. Þótti strax eitthvað spennand á ferð og með gúgli rakst ég á þessa tilvitnuni: „Confusion is our only hope in the act of understanding the chaos“ - Zolta. Eigum við að tala aðeins um ruglinginn – glundroðann í myndlist í dag.

Haraldur: Þessi réttur var á tímabili mjög vinsæll á matseðlinum hjá þeim. Já Zolta voru vatnaskil. Það myndaðist mjög sérstök stemning í Mengi og maður missti tímaskynið í öllum víddum. Já það er töluverður usli í loftinu og allt á floti. Spennandi tímar. Það er ýmislegt sem er að sækja í sig veðrið. Spurning hvar þetta endar.

Ásta:: Ja það veit enginn almennilega hvað Zolta er. Byrjaði sem ráðstefna um glundroðann. Og það er aldrei að vita hvar þetta endar.

Haraldur: Þetta er byrjunin á einhverju rosalegu. Ég var að tala við einn kollega okkar í morgun og hann segir að þessar vikurnar séu miklir umbreytingartímar. Hann tengir það við sólmyrkvann og nýja tunglið.

Ásta: Já, ég var áðan á Kringlukránni að tala við tvo heimspekinga. Þeir fóru að tala um Hegel og að það væri aldrei til nein byrjun á neinu því allt er viðbragð við einhverju. Kannski er þetta ekki byrjunin heldur aðeins viðbragð við einhverju sem við vitum ekki enn að er í raun rosalegt.

Haraldur: Engin spurning. Hin eilífa endurtekning hins sama sem er samt aldrei eins. Það sem er að gerast núna er vöðvabólga og líka ofnæmisviðbrögð sem verða svæsnari eftir því sem tíminn líður.

Ásta: Mótsögnin, hún er svo falleg.

Haraldur: Nákvæmlega. Núningurinn og hitinn sem myndast við hann. Þetta næfurþunna og fagra. Það er eitthvað uppi og líka niðri en það er hins vegar engin leið út. Það er ekkert úti.

Ásta: Við erum í eilífri kortlagningu völundarhúss sem er alltaf að breytast. Mótsögnin er líka hugarástand sem gerir manni kleift að lifa með kaosinu, í raun ákveðið æðruleysi og friður á sama tíma og það er endalaus erill.

Haraldur: Endalausir og margslungnir gangar en enginn þeirra er neyðarútgangur nema þeir séu það allir. Já æðruleysið heldur manni á floti. Svo maður nær andanum og blandast tíðarandanum sem efnisgerist í tilfinningum og í margar áttir í einu. Þetta er ekki lengur spurning um að tapa áttum enda eru miðjurnar jafnmargar okkur sjálfum.

Ásta: Já þó flotið sé reyndar bara spurning um sjónarhorn. Það er ekkert öruggt hvað er upp og hvað er niður, hvað er í kafi og hvað er á floti. En þetta er svo flott, að ná andanum, að hleypa sálinni aftur inn í líkamann með lofti.

KK: Svo er svo gott að liggja í flæðarmálinu... beggja heima megin.

Ásta: Mara í hálfu kafi á meðan mærin flökta og má sig sjálf út?

Haraldur: Það er alltaf örvandi að finna blautt bergmál af rauðblárri undiröldunni kitla iljarnar og mann sjálfan til aðgerða.


ZOLTA


KK: Eru skilgreiningar dragbítur í myndlistinni í dag og almennt í listum? Þurfum kannski nýtt orð yfir myndlist?

Ásta: Já Zolta. Það er nýja orðið. Skilgreiningin er bara misskilningur.

Haraldur: Þegar ég heyri skilgreiningar í listum er það mjög svipað og að lesa ferðabækling eða skoða matseðil. Það er ekki lengur tími til að dunda sér við það. Við erum lögð af stað, að nema lönd og njóta allra bragðanna. Zolta nær til dæmis mjög vel utan um þetta.

Ásta: Kannski tilraun til frelsunar eða landnáms.

KK: Já, kannski hafa þær bara verið að flækjast fyrir okkur öll þessi ár. Og þegar við erum laus við þær opnast á nýjar gáttir og hlutir verða metnir út frá því sem þeir eru en ekki formerkjum og heitum (líkt og þú getur pantað þér Spaghetti Bolognese á yfir þúsund veitingastöðum eða pantað þér ískaffi, en ekkert bragðast eins þú fékkst það áður og þú býsnast yfir því að þetta sé sko ekkert Spaghetti Bolognese eða ískaffi, bíddu ég er að missa þráðinn)… einhvernveginn eru öll þessi yfirheiti til trafala að upplifa það sem þú upplifir raunverulega, þú ert með viðmið og ferð ósjálfrátt í samanburð í stað þess að njóta og taka inn út frá þinni eigin upplifun. En svo er þátturinn að láta koma sér á óvart… hann spilar stóra rullu í ykkar sköpun! Þegar allt er floti kemur manni þá eitthvað á óvart.

Haraldur: Skilgreiningar í listum eru í eðli sínu óttablandnar og leita í fast form ákveðins stigveldis. Þessi tilhneiging er víkjandi á tímum flökts og hinna fljótandi forma. Skilgreinandinn er dyravörðurinn. Hann er alla vegana ekki kokkurinn sem kemur okkur sífellt á óvart með kenjum sínum og óvæntum.

KK: Þið hafið bæði tekið þátt í ótal samstarfi við aðra listamenn – getið þið sagt okkur örlítið hvernig samvinnan virkar í samanburði við að vinna sóló.

(Nú um mundir stendur yfir sýning Leiðangurinn á Töfrafjallið í Nýlistasafninu sem Haraldur er þátttakandi í.)

Haraldur: Að vinna með öðrum listamönnum er merkileg reynsla. Þegar enginn er við stjórnvölinn. Maður gleymir sér og hugmyndir lifna auðveldar við og blómstra eða lognast samstundis út af ef þær ná ekki tengingu. Samvinna er dans í mjúku myrkri.

Ásta: Það er svo magnað að ná tengingu í samvinnu. Ég er oft að vinna með allskonar fólki en hjá sumu fólki finnur maður gátt sömu birtunnar, eins og vídd inn í annað ójarðneskt tungumál sem er bara til í samblöndun orku þessara einstaklinga. Það var svolítið þannig þegar við vorum að vinna að BLÓÐSÓL, þá vorum við bæði á iði, eins og við höfðum fundið nýja dýrategund.

Haraldur: Aðra birtutegund og hitaskala.

KK: Mér dettur í hug einhvers konar svörun eða viðbragð – að allt sé að leysast upp líkt fyrir 100 árum þegar DADA kom fram á sjónarsviðið, „eilíf endurkoma“ upplausnar? og hlutirnir teknir lengra og ný viðmið sett. Og í því samhengi var mér hugsað til Töfrafjallsins, þar var allt á floti og unnið úr tíma og nýjum hugmyndum.

Haraldur: Tími Töfrafjallsins er núna. Þegar iðnvæðing líkama og anda er í algleymingi og varla nein mörk lengur milli einkaheims og hins opinbera. Þegar Töfrafjallið birtist voru einmitt róttækar breytingar í gangi alveg eins og núna. Meira af því sama en samt annað.

Ásta: Þetta eru undarlegir tímar.

KK: Getið þið hjálpað mér í að festa fingur á þessar breytingar. Svona í grófum dráttum. Eru þetta að einhverju leyti sömu breytingar og áður undir öðrum formerkjum, jú eða viðbragð eins og heimspekingarnir á Kringlukránni höfðu orð á. Og þá, í þetta skipti – viðbragð við hverju?

Haraldur: Við finnum flest að tíminn og öll augnablikin eru orðin vel þrútin af stöðugri spennu og líka afgerandi málmþreytu. Í staðinn fyrir dökkhærðan öfgamann er kominn annar með gyllta lokka og hérna heima á eyjunni grasserar svæsinn sveppur í valdablokkinni. Það er stöðnun í loftinu og það gengur ekki lengur að nota gamla mælikvarða eða skynjara á ástandið. Alls kyns ný fjörefni myndast í þessum kringumstæðum og þau eru notuð á fjölbreyttan hátt í mismunandi skammtalækningum og forvitnum hreyfingum.

KK: Mér er hugsað til nytsemdar og tilgangs í myndlist. Ásta þú talaðir eitt sinn að þú hefðir það að leiðarjósi að segja eitthvað „sem hjálpar fólki að vera til“ og Halli með verkum þínu viltu að fólk horfi inn á við, leitast eftir kenndum sem kvikna hjá áhorfandanum – „Maður líttu þér nær“, svo í samhengi við sjúkrabörurnar sem voru bornar inn á í Nýlistasafninu nú í síðustu viku (Leiðangurinn á Töfrafjallið). Teljið þið að myndlistin geti hjálpað til að leiða fólk á réttan kjöl – hún sé jafnvel þessi leiðarvísir sem við þurfum, svona áminning... vekja mann af doða?

Haraldur: Það er mikið talað um hlýnun jarðar. En það liggur þykkur ís leynt og ljóst yfir okkur öllum. Listin bræðir hann í gegn og í vökinni sem opnast getum við náð andanum. Verkið Skjól/Haven/Ausgang, sem er samsett úr sjúkrabörum og myndbandsverki er ágætis dæmi. Þar sjáum við sjúkraflutningamenn bera börur inn á safnið og skilja þær eftir á staðnum. Það er söguleg stund.

KK: Já, eins og myndhverfing... sjúkraflutningamennirnir kasta boltanum yfir til okkar, vísindin kasta boltanum yfir til (mynd)listarinnar…

Ásta: Listin frelsar. Það er svo gott fyrir manneskjuna að sjá sannleikann í einhverju formi, að mínu mati er myndlistin gott dæmi um það. Hún afhjúpar hulum af hlutum.

Haraldur: Þeir láta sig hverfa og skilja dyrnar eftir opnar.

(Rafhlöðu-ljós farnar að blikka og komið yfir miðnætti – látum hér staðar numið í bili)

//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//=//

(22 klukkutímum síðar...)


KK: Sæl aftur! Hér er milt veður og dulúðleg stemming í gyðingarhverfinu, þeir eru miklir næturhrafnar. Zabada nálgast.

Haraldur: Já góða kvöldið! Það er alltaf gaman að Gyðingnum. Antwerpen líka þessi mikla demantaborg.

KK: Meira að segja finnst mér gyðingarnir stundum ekki svo ósvipaðir listamönnum, alltaf að bauka eitthvað í leyni – leysa lífsgátuna… ( Já og Indverjarnir hafa víst tekið yfir demantabransann.)

Haraldur: Það eru orð að sönnu! Hvar er Ásta?

KK: Kringlukráin!

Ásta: Næturlitaðir blökuhrafnar minna svo sannarlega á listamenn að leysa lífsgátur.

Haraldur: Það vantar fleiri Gyðinga hérna í Reykjavík. Þá værum við Ásta að skeggræða við nokkra góða í skúmaskoti.

Ásta: Þarf manni að vaxa skegg til þess að skeggræða?

Haraldur: Já við værum öll með skegg. Eru rétttrúaðar Gyðingakonur annars ekki krúnurakaðar undir hárkollunni?

KK: Jú, giftar gyðingakonur. Maður myndi leggja margt á sig til að fá að vera bananafluga á vegg á þessum samkomum þeirra. Það er fengur í Antwerpen að hér er mikil fjölbreytni og hægt að stíga inn í marga menningarheima á nokkrum mínútum.

Haraldur: Eitthvað annað en hérna í einmenningunni, mónókúltúrnum. En við höfum sem betur fer Mandy og stemninguna við Ingólfstorg.

ÁSTARSORG


KK: Ef ef við snúum okkur aftur að myndlistinni í dag. Teljið þið að eigi sér stað samskonar flökt, glundroði annars staðar í (myndlistar)heiminum í dag. Nú vorum við öll 3 viðstödd á Feneyjartvíæringnum í vor, og Feneyjar vissulega á floti en mátti greina slíkt ástand í listinni þar? Námuð þið einhverja orkublöndu þar á bæ?... þýski skálinn kom sá og sigraði, eða hvað?

Haraldur: Já, Anna Imhof í þýska skálanum er gott dæmi um áhugavert orkusvið. Þar blönduðust mörg hughrif og áhrif hressilega saman, á mjög evrópskan máta samt. Það var töluvert flökt í gangi í tjáningarformum og eins léttur usli í þeim sem komu fram. Það voru mörg dulkóðuð skilaboð á sveimi í þessum skála. Ég er reyndar á því að það sé ákveðið einkenni á okkar tímum, þessi eimaða og oft á tíðum beinskeytta og dulúðlega stemning. Hún getur vissulega verið loftkennd en orkusviðið er máttugt.

Ásta: Þessu dularfulla stemning varpar líka ljósi á eitthvað sem er ekki alveg hægt að sjá, ekki alveg hægt að tala um.

KK: Eru þessir umbreytingatímar brothættir? gætu þeir leitt okkur eitthvað annað en við viljum raunverulega fara, markaðsöflin og bófarnir hugsa sér gott til glóðarinnar… koma og hremma þessa orku.

Ásta: Það er svo mögnuð orka í umbreytingunni. Þó hún sé brothætt og hættuleg er alltaf hægt snúa henni. Líkt og í ástarsorg, þar myndast svakaleg orka sem er tilvalin að nýta til breytingar, svona aðstæður eins og þessar hafa í för með sér

Haraldur: Kannski ekki ósvipað og með tungumálið. Við öndum að okkur súrefni og öndum frá okkur KÖFNUNAREFNI. Kúnstin er að tala og anda frá sér súrefni á sama tíma. Markaðsöflin reyna samstundis að umbreyta því í köfnunarefni. Já það má örugglega lýsa heila blokk með orkunni frá einni ástarsorg.

KK: Kannski er þetta þá smá sorgarástand en um leið mjög spennandi… maður sá nokkra fella tár í þýska skálanum og jafnvel gráta… hreinsunargráti.

Haraldur: Algjörlega. Sorg og sorgarviðbrögð. Áfallahjálp og neyðarköll. Svona May-day stemning. Það er lýsandi fyrir ástandið. Maður fann greinilega hvernig tárið bólgnaði innan i manni í þýska skálanum.

Ásta: Maður er neyddur til þess að horfa á það sem er í gangi, leyfa sér og sleppa. En það er líka það sem flæðið gerir, að vera í flæði í lífinu og í sköpun og ekki þvinga neitt eða streitast á móti breytingum.

Haraldur: Þetta er allt í beinni og ómögulegt að líta undan. Enda engin ástæða til.

VASALJÓSIÐ


Ásta: Alltaf live. Þú ert ekki leikstjórinn í þínu lífi eins og Landsbankinn sagði, þú fæðist í hlutverk og þarft síðan að finna út hvað það er. Ef maður reynir að stjórna of miklu og ákveða framtíðina of mikið þá hverfur flæðið

Haraldur: Þú færð vísbendingar við hvert fótmál.

Ásta: Við erum öll „blindfolded“ í völundarhúsi að þreifa okkur áfram

KK: Áfall (sorg) – uppgjör – batahorfur. Er Hegel á Kringlukránni? Aðeins að ykkur aftur og Blóðsól í Hafnarborg. Ég sjálf sá ekki þá uppákomu, getið þið sagt okkur frá því sem gerðist; vinnuferlinu og hvar hugmyndin kviknaði.

Haraldur: Við vorum bæði með verk á sýningu sem hét Bókstaflega og fjallaði á sögulegan hátt um orð og konkret texta í myndlist. Mjög flott sýning. Sýningarstjórinn bauð okkur að vera með gjörning á opnuninni. Það var auðvitað engin spurning og við kynntum hann á opnuninni. BLÓÐSÓL átti sér síðan stað á sérstöku kvöldi seinna á sýningartímanum.

Ásta: Við vinnum bæði mikið með texta og það sammengi sem liggur milli orða og annarra hluta.

Haraldur: Þetta var flétta margra mengja sem spunnust milli okkar í undirbúningnum. Áhorfendur voru líka ríkur þáttur af heildarmyndinni, þeir tóku þátt og skiluðu sínu.

Ásta: Að vera myndlistarmaður er svolítið eins og að vera spæjari. Þarna vorum við að leysa einhverja ráðgátu. Eða þá að við vorum komin með svarið, svarið var BLÓÐSÓL en við fikruðum okkur afturábak við að finna hver ráðgátan væri. Fundirnir okkar urðu að eins konar seremóníu eða víddarflakki.

Haraldur: Það opnaðist fyrir ótrúlegustu hluti þegar við funduðum svona í öðru ljósi. Þegar okkur áskotnaðist síðan lögguvasaljósið var ekki aftur snúið. Það var engin undankomuleið undan ágengum geislanum.

Ásta: Við fórum að hugsa hvernig konkretljóðið ætti heima í gjörningi og reyndum að kortleggja mörkin. En ekki bara mörk og mengi konkretljóða, myndlistar og gjörninga heldur líka allt sem tengist uppákomum og orðum, hreyfingum og tungumál líkamans, orðin í höndunum, reyndum að rýna milli lína. Þetta er svipað og þessi dulda stemning sem við töluðum um áðan. Jaðaratriðin sjást ekki nema að ljósin séu slökkt og þeim er lýst upp með lögguvasaljósi. Málið er upplýst. Dansinn í handahreyfingum í miðju samtali er í raun dulkóðað ljóð.

Haraldur: Svipbrigði andlitsins og hreyfingar handanna eiga rætur sínar í sama staðnum sem aldrei er hægt að sjá með berum augum. Við vildum flétta saman ólíkum þáttum með innsæið að leiðarljósi án þess að vita hvert það myndi leiða okkur.BAKSÝNISSPEGILLINN


KK: Jahá, vísbendingar við hver fótmál. Ráðgátur og allskyns orð, hlutir í myrkrinu. Í gærnótt, daginn fyrir samtalið kom rödd til mín í svefni(draumi) og sagði: „Baksýnisspegillinn! mundu að spyrja þau um baksýnisspegilinn“... Baksýnisspegillinn endurtók röddin. Þetta var skrýtin reynsla. Langaði að leysa gátuna í einum hvelli í svefnrofanum – en fann ekki glósubókina í myrkrinu.

Ásta: En undarlegt, af því ég skrifaði ljóð um baksýnisspegilinn í gær/fyrradag! „við breyttum baksýnisspeglinum í tré til þess að geta lifað grunlaus“ Baksýnisspegillinn er svo hættulegur. Þetta er mjög merkilegt, að þér skuli dreyma þetta. Þetta ljóð er hluti af ljóðabók sem ég er að skrifa, hún heitir Hýena sem heitir gærdagur og fjallar að miklu leyti um þennan baksýnisspegil. Það er mjög mikilvægt að vita söguna og hvað gerðist í fortíðinni en að sama skapi banvænt að einblína mikið á fortíðina. Ef maður starir of lengi er það eins og að splúndra glerglasi með augunum, næstum ómögulegt að líma það aftur saman.

KK: Þetta er furðulegt, ég var ekki viss hvort það væri viðeigandi að segja frá draumi... en var með hann stöðugt bak við eyrað. Og þegar Halli fór að tala um vísbendingar í hverju fótmáli, gat ég ekki setið á mér… svo fyrr í dag rakst ég á baksýnisspegil (af bíl) hér heima. Um það leyti sem ég flutti inn í þessa íbúð hér í Antwerpen var gömul kona hér neðar í götunni að gefa eigur sínar og þá lenti þessi baksýnisspegill í mínum höndum. Ég hef ekki gefið honum mikinn gaum en hefur nú fengið þetta lykilhlutverk.

Haraldur: Vá! Ég er líka með einn baksýnisspegil fyrir ofan gluggann á vinnustofunni minni. Hann er aðeins öðruvísi, í breiðtjaldsformi, sinemaskóp. Líkt og orgelleikarar eru með á orgelinu í kirkjum til að sjá hvað er að gerast niðri á altarinu.

Það er líka auðveldlega hægt að breytast í saltstólpa. Já þetta er stórmerkilegt! Þegar ég var að fljúga frá Skotlandi um síðustu helgi sat flugfreyja beint á móti okkur í flugtakinu. Hún sneri baki í stefnu flugvélarinnar og augnaráð hennar kom mér til að hugsa um engilinn góða, Angelus novus, sem Paul Klee málaði og fangaði Walter Benjamin allt lífið á enda. Þessi engill snýr líka bakinu í framtíðina og horfir á rústirnar sem hlaðast upp í fortíðinni fyrir framan augu hans. Hann getur ekki snúið sér við vegna þess að vindar framtíðarinnar blása svo sterkt í bak hans. Skrjáfið í fjólubláum flugfreyjubúningnum var bara til að auka heildaráhrifin af þessari ágengu mynd. Þarna liggur hann einmitt líka, baksýnisspegillinn, dulkóðaður í bak og fyrir.

Ásta: BLÓÐSÓL faldi baksýnisspegil. Er það ekki Haraldur? Vasaljós í gegnum skinn svo allir sáu ljósið blóðgult inní sér við hvísl aftanverðu.

Haraldur: Þokkalega. Það mynduðust löng speglagöng inn í höfuð viðstaddra þegar völvan þín flutti þuluna inn í hnakka þeirra og BLÓÐSÓLIN lýsti um leið gegnum augnlokin eitt af öðru.

KK: Engillinn Angelus novus er líka búin að vera mér ofarlega í huga… þetta er allt að renna saman.

Ásta: Baksýnisspeglar hafa líka svo undarlegt sjónarhorn, það er bara brotabrot sem þú færð að sjá og allt er háð því hvernig þú snýrð, í raun hvert þitt „raunverulega“ sjónarhorn er. Maður sér fortíðina eftir því hvernig augum maður lítur á tilveruna hverju sinni.

KK: Spegillinn er stjörnuhiminninn... Vasaljós og bláir vasar að vasast um í myrkrinu. Svo las ég í gær að Walter Benjamin hafi verið að leita af nýju orði fyrir myndlist… allavega eitthvað á þá leið. Er flækjustigið að verða of mikið?

Haraldur: Já það má alveg segja það.

Ásta : Það er komið alveg hárrétt flækjustig, þá má setja öll eggin ofan í pottinn og bíða svo bara.

Haraldur: Meðan þau malla í rólegheitunum. Sushiið sýður sig heldur ekki sjálft

Ásta: Ekki spíra kartöflurnar á meðan þær skrælast.

Haraldur: Það væri nú saga til næsta bæjar.

Ásta: Já eða nábrók til næsta manns

Haraldur: Vasaljós og bláir vasar að vasast um í myrkrinu eru frábær lokaorð. Hvað segið þið?

KK: Rétt í þessu eru gyðingarnir hér í götunni farnir að biðja til tunglsins, það er akkúrat hálft nú í kvöld. Þeir báðu fyrir velferð kóngsins svo allir gætu lifað í sátt á samlyndi, annars værirðu dauðinn vís. Þeir röðuðu sér upp í beina línu og beygðu sig fram og aftur og bentu upp í himingeiminn... Einn gaf sig á tal við Ófeig og sagði allt væri kóðað í tölur! Góða nótt vinir.

Ásta: Heyrðu mig, en undarlegt, kóðun talna er einmitt líka í sama ljóði og baksýnispegillinn. Þetta er mjög dularfullt.

Haraldur: Við erum greinilega komin inn á sömu hárfínu rásina.

Blái vasinn, 2017