Ásta Ólafsdóttir

„Myndlistarmaðurinn er tengiliður"„Hér er svo mikið að gerast, eigum við ekki bara að finna okkur friðsælt skot einhvers staðar á kaffihúsi," sagði Ásta Ólafsdóttir þegar blaðamaður mætti niðri á Nýlistasafni til að eiga við hana tal um sýningu hennar. „Ég var að ljúka við að taka niður sýninguna en það er nú bara þannig að ef maður kemur hingað niður eftir er maður farinn að skúra eða mála áður en maður veit af. Nýlistasafnið er ekki stöndugt fyrirtæki og hér eru alltaf næg verkefni fyrir sjálfboðaliða.“Gersemi: Stór og þungur steinn. Undir hrjúfu yfirborði glittir í eðalsteininn. Ljósin í kring blikka, gætu táknað hátíðastemmningu, og draga má verkið á eftir sér.Eftir að hafa barist niður Laugaveginn með norðangarrann í fangið fundum við okkur friðsælt skot og gátum hafið spjallið. „Eiginlega langar mig ekkert til að tala um sýninguna sjálfa. Það er miklu skemmtilegra að tala bara um lífið og tilveruna,“ segir hún. En hún sleppur ekki; sýningin fyrst og svo getum við filósóferað á eftir. Talið berst að gagnrýni, var ekki ánægjulegt að fá svona góðar viðtökur gagnrýnenda? Ásta hlær. „Nú máttu ekki halda að ég sé svona góð með mig, en það að Bragi Ásgeirsson skuli í upphafi umfjöllunar sinnar um mína myndlist byrja á hugleiðingu um kalligrafi finnst mér afskaplega skemmtilegt. Eins er alveg rétt hjá Aðalsteini þegar hann segir að ég sé í essinu mínu þegar mér tekst að gera hið ósýnilega sýnilegt. Ég hef alltaf haft áhuga á menntun. Reyndar er ég menntaður barnakennari. Ég fór í Kennó áður en ég fékk verulegan áhuga á myndlistinni.“Stökur: Einstæð þrívíð form, engin tvö eins. Öll hanga þau i lausu loftiEn hvað kom þá til að þú fórst út í myndlistina?

„Líklega hef ég verið í of miklu návígi við Myndlista- og handíðaskólann því ég er alin upp í næsta nágrenni við skólann. Eftir Kennaraskólann fór ég til Frakklands og lagði stund á það sem þeir kölluðu menntunarvísindi og er nátengt uppeldisfræði. Ég las mikið um sálarfræði og hef reyndar alltaf haft mikinn áhuga á sálarfræði og menntun yfirleitt. Þegar ég kom heim frá Frakklandi tók ég inntökuprófið í Myndlista- og Handíðaskólann. Eiginlega ætlaði ég bara að sjá hvort þetta væru ranghugmyndir hjá mér, að ég gæti í raun og veru teiknað. En ég náði. Svo ég ákvað að sitja eitt ár. Þau urðu tvö og ég kláraði skólann. Eftir það var ég tvö ár hér heima, vann á sjónvarpinu á sumrin og við myndlist á veturna. Síðan lá leiðin til Hollands, til Maastricht, í akademíuna þar. Þetta er lítil borg, á stærð við Reykjavík. Maastricht er mjög gömul borg. Afskaplega róleg. Þar gerist ekkert hraðar en á göngurytma. Ég kann mjög vel við mig þarna því ég þarf mikla ró til að vinna. Á akademíunni var ég í tvö ár, fékk reyndar styrk í eitt ár. En ég hef nú ekki hugsað mér að vera þarna til eilífðar. En í framhaldi af því sem ég sagði áðan varðandi menntunina þá er sýningin menntun fyrir mér. Það sem gladdi mig mest var að mér fannst sýningin virka. Skilurðu, mér fannst það sem ég var að hugsa komast í gegn til áhorfandans. Verkin sköpuðu tengsl milli mín og áhorfandans. Og það hafði ekkert með það að gera hvort fólk var menntað í myndlist eða ekki. Það skiptir svo miklu máli að fólki líði vel þegar það gengur um salina og skoðar sýninguna.Innsett melódía: Hópar af léttum gagnsæjum formum mynda hring á gólfi. Ofan frá, úr miðju hringsins, heyrist hljóð eins og verið sé að höggva til steina. Lögun hinna þrívíðu forma er mismunandi og tilheyrir hvert form einni tónhæð og eru þannig eins konar þögult mót af hljómum.

Gallinn við galleríin er sá að fólk þorir ekki að skilja ekki. Því líður oft illa, kemur inn með vanmáttarkennd. - Hvað er ég að gera hér? Ég hef ekkert vit á þessu. En það er ekki það sem skiptir máli heldur hitt að hver og einn geti séð eitthvað út úr verkunum, eftir því hvernig þau höfða til hans. Maður verður að vera velkominn, fá að þegja – láta sér líða vel. Það skiptir til dæmis máli að það sé hljótt, loftið sé svalt og gott og að listamaðurinn sé viðstaddur. Einn daginn kom til dæmis dauðadrukkinn maður inn á sýninguna hjá mér. Hann sat lengi, horfði og hlustaði. Honum leið vel þarna inni og það gladdi mig.Mynd úr geimnum.Nú ertu með mismunandi verk á sýningunni og ert greinilega mjög upptekin af þrívídd, hljóði og hreyfingu. Ertu í mörgu?

„Ég nota blandaða tækni og mismunandi miðla. Það sem ég geri er eiginlega meira huglægt. Eg veit eiginlega ekki af hverju ég geri það sem ég geri. Þegar ég mála er ég frekar að prófa liti og form. Mér finnst töfrandi að mála. Þá er eins og tengist saman það sem gerist fyrir utan mann og það sem gerist innra með manni. Ég vil gjarnan erta skyntaugarnar á þægilegan hátt. Mest gaman finnst mér að það sé hreyfing eða breyting í verkinu. Einhverju sinni fór ég að velta því fyrir mér hvernig hljóð litu út. Hvernig er hægt að gera hljóð sjáanleg? Svo var það allt í einu að ég sá þetta svo skýrt, skynjaði að svona litu 'þau út. Líklega gerðist það rétt áður en ég fór að sofa á kvöldin, þegar allt var fallið í ró. Þetta verk reyndist mér erfitt. Ég hafði aldrei fengist við svona efni áður. Þetta eju skálduð form eftir tilfinningu. Ári eftir að ég gerði þessa skúlptúra sá ég í bók að til eru mörg þúsund ára gamlar teikningar af hljóði og þau voru nákvæmlega svona gagnsæ.“Mynd af atburði.Þú hefur líka unnið með myndbönd?

„Já, en ekki eins mikið og ég vildi og það síðasta af vanefnum. Það er þannig með vídeóið að hver manneskja sér í því það sem hún er að fást við í sjálfri sér hverju sinni. Það má segja að það sé nokkurs konar spegill á sálarlífið. Ég hef gert það að reglu að gera ekki list úr vondum tilfinningum. Ég er ekki sátt við að listamenn geri góðum og vondum tilfinningum jafnhátt undir höfði. Ég trúi því að hver maður sé í eðli sínu gullgerðarmanneskja og geti inni í sér breytt illu í gott. Af hverju þarf að tjá slæmar tilfinningar? Af hverju sparkar þá fólk ekki bara hvert í annað úti á götu? Við höfum næg tækifæri til að láta okkur líða vel. Hver manneskja þarf að finna og yrkja sína góðu kosti. Mér finnst mínum tíma, sem þátttakandi í þessum heimi, best varið með því að byggja upp, stuðla að fallegra mannlífi. Það er ósk mín og tilgangur með verkum mínum að ég sé með þeim að bjóða fólki upp á stund þar sem verkin veki upp eitthvað gott.“Myndband: Sagan gerist í hugarheimi drengs. Hreyfing, nálægð, fjarlægð og sú spurning hvernig og hvort megi stöðva þessa hringrás er þema verksins.Ertu þá alltaf að tjá eitthvað fallegt?

„Tilfinningaskali manneskjunnar er svo breiður. Lífið er erfitt og samkeppnin svo hörð. Þegar maður kemur inn á myndlistarsýningu og sér eitthvert verk sem tengist hans eigin tilfinningum þá eru það eiginega ósjálfráð viðbrögð að hann hugsar sem svo : Mikið er þetta góð mynd . Því í myndinni sér hann eitthvað sem hann kannast við, hvort sem það er fallegt eða ljótt , aggresívt eða depresívt. Góðu tilfinningarnar eru svo miklu einfaldari. En það er líka miklu erfiðara að tjá vellíðan því það fær alltaf miklu meiri gagnrýni . Sú tilfinning þarf að vera svo sönn til hún flokkist ekki undir væmni . Ég vil að þeim sem horfa á verk mín líði vel því þroski á sér aðeins stað í gegnum vellíðan Ég tel það skyldu hvers manns að verk hans stuðli að jákvæðum þroska. Menn þurfa ekki að búa til ljóta hluti.“Ásta Ólafsdóttir myndlistarkona.Nú hefur þú fengist við annað en myndlist . Þú hefur líka skrifað bækur.

„Já,eiginlega er ég mest hlessa sjálf. En ég hef skrifað tvær bækur, eina á íslensku og aðra á ensku. Íslenska bókin heitir Þögnin sem stefndi í nýja átt . Hún er einungis stakar setningar, svona frekar langsóttar hugleiðingar. En þetta með myndlistina,“ segir Ásta hugsi, „henni hættir til að verð svo egósentrísk, ég skil eiginlega ekki af hverju hún er svona sér. Myndlistin brýtur niður alla ramma. Í raun er hún ekkert annað en samband manns við eitthvað ósýnilegt og ég reyni að gera það sýnilegt eða heyranlegt. Þetta gildir um svo margt. Taktu til dæmis nútímatónlist. Hún er ekkert annað en samband hljóða. Tökum sem dæmi fiðlu og bor. Nútímatónskáldið sameinar þetta með sambandi sínu við hvort tveggja. Myndlistarmaðurinn er einmitt þetta, eins konar samtenging.“

Text: Unnur Úlfarsdóttir
Myndir: Helgi Friðjónsson og fleiri
Vikan, 23.10.1986
Hlekkur á gagn