Birgir Andrésson

Menningin er toppurinn á ölluBirgir Andrésson opnar sýningu á Sólon Íslandus í dag. Þóroddur Bjarnason ræddi við Birgi sem sagði honum sitthvað um íslenska menningu og tengsl hennar við verk hans.Birgir Andrésson myndlistarmaður.Ég held að ég sé að mörgu leyti samnefnari fyrir ástandið í íslenskri myndlist í dag. Ég hef fengið starfslaun og hef sýnt á stærstu myndlistarsýningu í heimi, Feneyjar-bienalnum, fyrir Íslands hönd, samt vita jafnvel fáir hér heima hvað ég er að gera og hver ég er. Nú er ég tiltölulega nýkominn af bíenalnum, skuldugur upp fyrir haus enda búinn að leggja mikið í þetta í von um að fá eitthvað út úr því á móti. Maður tekur peninginn og eyðir honum í að búa til meiri myndlist og svo vaknar maður upp við það einn daginn að það eru mjög fáir sem hafa áhuga á „alvöru“ myndlist á Íslandi," sagði Birgir Andrésson.

„Ég hef alltaf verið bjartsýnn maður og það er það sem hefur haldið mér gangandi. Ég hef rekið gallerí til að gefa ungu fólki tækifæri á að sýna myndlist og tekið ekkert fyrir og ég gaf verk til Sarajevo að ósk sýningarstjóra sem hreifst af sýningu minni í Feneyjum. Þetta er einmitt ástandið hér á landi, við erum sífellt að gefa og gefa.“

Birgir sagði að myndlistarmenn væru illa settir miðað við aðrar listgreinar að því leyti að oftast leigja þeir sali undir sýningar sínar og bjóða svo ókeypis aðgang. „Menn eru hræddir um að ef það kostar eitthvað smávegis inn þá vilji enginn koma og sjá," sagði Birgir. Hann sagði myndlistarmenn sjálfa að miklu leyti búna að koma sér í þessa aðstöðu og að þeir geti ekki snúið til baka sem einhver virkur áhrifahópur. „Það er hægt að skella skuldinni á skólakerfið eins og það leggur sig fyrir það hve myndlistaráhugi, myndnæmi og myndlistarþekking landans er takmörkuð. Mér finnst það alveg stórfurðulegt þegar maður talar við háskólamenntað fólk að margt af því hefur svipað næmi á myndlist og 11 ára börn“


Engin myndlist,engar kvikmyndir


Hann sagði að svo virðist sem menn átti sig ekki á þeim áhrifum sem myndlist hefur á aðrar listgreinar eins og kvikmyndir og samfélagið sjálft. „Menn virðast ekki sjá tenginguna þarna á milli en um leið og eitthvað gefur sig í þessari keðju þá hrynur allt. Ef öll myndlist hyrfi á Íslandi þá væri heldur engin kvikmyndagerð. Ef þú ræktar ekki þessa fleti þá verða þeir allir veikir og slappir. Þegar kemur að úthlutun peninga í listina þá er allt of mikið hugsað um að allir eigi að fá sneið af kökunni í staðinn fyrir að velja úr og gefa þeim sem teljast efnilegir góðan starfsgrundvöll til að þróa sína list og koma henni á framfæri. Peningarnir af velgengni slíks listamanns sem byggi hér á landi myndi skila sér margfalt til baka.“


Lopafánar


Á sýningunni verða blýantsteikningar af manngerðri íslenskri náttúru sem sýna uppgröft gamalla íslenskra bæjarrústa og um leið ákveðið skipulag. Hins vegar sýnir hann handprjónaða íslenska fána í sauðalitunum. „Ég hef komist að því að þegar maður hugsar um Ísland, íslenska menningu og menningararfleifð þá tekur fólk því alltaf sem maður sé með nostalgíu á heilanum en það er rangt því ef þú hugsar um Ísland þá byggist öll menning hér á arfleið. Það er alltaf talað um þessa gömlu menningu eins og íslendingasögurnar og torfbæina, það er aldrei talað um íslenska nútímamenningu. Mín myndlist er endurspeglun af þeirri veruleikasýn sem íslendingar búa yfir í dag gagnvart sjálfum sér. Íslendingar treysta sér varla til að vera með í nútímanum. Ég er ekki að segja að menn eigi að slíta sig frá arfinum en þeir verða að koma auga á hvernig hægt er að nýta hann með hjálp hugmyndaflugs og sköpunargáfu. Maður verður að þora að viðurkenna að maður sé nútímamaður sem byggir á íslenskum veruleika og reynir að komast örlítð út fyrir hann, til að sjá þessa gífurlegu nálægð sem er einkenni okkar. Nálægðin við fjölskylduna, arfleifðina, söguna og landið m.a.

Aðspurður sagði Birgir að það sem væri einkennandi fyrir íslenska nútímamenningu sé sjálfstæðisleysi og óöryggi.

- „Þú þarft ekki annað en að koma í heimsókn til fólks og þá verður það óöruggt með sjálft sig, veitingarnar og íbúðina. Menningin er toppurinn á öllu. Hún er litur samfélagsins og segir til um hverslags þjóð býr í viðkomandi landi. Menningin er það sem stendur upp úr þegar talað er um öll stórveldi í sögunni. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast í Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Þeir eru á fullu að leita að menningu sinni til að geta skilgreint sig sem þjóð.

Mörgum finnst sjálfsagt hallærislegt að sjá handprjónuð listaverk í sauðalitum en Birgir segir að það sé einmitt það sem hafi vakið athygli við verkið, þ.e. áræðnina við að leggja í að nota það efni. „Þetta er auðvitað bara efni sem ég nýti mér. Ef lopi er hallærislegur og lopafánarnir mínir þá er lopaframleiðslan okkar hallærisleg og íslensk menning þar af leiðandi líka." sagði Birgir Andrésson.

Morgunblaðið, 20.01.1996
Hlekkur á gagn