Bergur Thomas Anderson

Skrunan sem varð að líkamaÉg skoða og skruna,
ég skruna og buna,
ég verð bunan,
myndaveitubunan mín.

Ég þrífst á eitthverju. Myndum, myndbrotum, hlutum úr lagi, textabútum. En einnig líkamsstellingum, táknmáli, svipbrigðum, stunum, andardráttum... Ég man best eftir því sem ég skil minnst. Ég hef yfirsýn á því sem brýtur upp. Ég las um daginn að aesthetic væri það sem býr til skynjanlegar rifur í efninu sem við skiljum. Eitthvað sem skilur eftir sig far .

Ég kortlegg.


Skjáir, fígúrur, dýr, filmur, hvarf, endurkoma – raunheimar, sýndarheimar, plast, ímyndir. Það er eitthvað í fari þessara mynda sem brjóta það upp hvernig ég skil heiminn. Ég kortlegg og bý til mínar eigin tímalínur og eigin samhengi. Myndaveitan ferðast á hraðara og hraðara tempói. Það er augljóst að ein mynd er aldrei nóg. Og að samhengi sé heldur ekki nóg. Myndir berast sem opin og óræð tákn, dulmál og tækifæri. Tækifæri sem opnast jafn hratt og þau lokast. Right click + Save image as... og ég verð partur af veitunni, ég skil hana jafn vel og mína eigin fréttaveitububblu vegna nálægðarinnar sem hver og einn þáttur hefur við hvorn annan. Nándin er byrjuð að skipta meira máli en tengingin. Ég tek þátt í nándinni með því að eigna mér þessar myndir, tileinka og notfæra mér þær.

Rifan á milli þeirra skapar nýjan líkama. Líkama sem er einstakur í margfeldi sínu. Ný mynd þýðir ný veita. Ný veita þýðir nýr lestur. Nýr lestur þýðir nýr búkur. Impressionismi gaf okkur innsýn í viðhorf listamannsins og viðfangsefni hans. Þar birtist í fyrsta sinn þetta eitthvað sem býr á milli listamanns og viðfangsefnis. Sameign, þriðji hluturinn, óræður en kræfur á athygli manns. Náið en óskilgreint. Far mynda er nærvera sem segir þér jafn mikið og þú getur ályktað.

Ég þrífst á förum, bitastæðum upplýsingum sem ég raða saman og finn í þeim heildarmynd. Heildarmynd sem ferðast á öðrum hraða eða birtist öðruvísi en ég áætlaði fyrst. Ég bý með þessari mynd. Við sköpum sameiginlega eign, raunverulegan líkama þess sem skynjar og það sem veitir skynjun – þriðji hluturinn. Sameiginlegur búkur sem við eigum saman, í sitthvoru lagi.Blái vasinn, 2017