Daði Guðbjörnsson

Eins konar barokk— setur svip sinn á myndir Daða Guðbjörnssonar sem nú sýnir í Gallerí BorgDaði Guðbjörnsson að ljúka undirbúningi fyrir sýninguna í Gallerí Borg.- „Jú, þetta er hluti af nýja málverkinu, en eru ekki allir orðnir leiðir á því? Þetta er einhvers konar barokkstíll,“ sagði Daði Guðbjörnsson sem í dag opnar sýningu í Gallerí Borg.

Verk Daða eru óneitanlega sérstæð. Sagt hefur verið að í list hans rekist saman ólíkustu gildi evrópskrar myndlistar í nútíð og fortíð. Þegar tíðindamenn DV bar að garði var hann að leggja síðustu hönd á mynd af klukku sem unnendur góðs súkkulaðis þekkja af umbúðum After eight. Daði dregur enga dul á samspil gamals og nýs í verkunum.

- „Nýja málverkið er að nokkru leyti afturhvarf til gamallar tækni. Myndefnið er gjarnan sótt til hversdagslegra hluta,“ segir Daði og leggur nú frá sér pensilinn. „Verkið verður þannig til að fyrst fæðist hugmynd að mótífi,“ segir Daði. „Síðan tekur við löngunin til að búa til úr því stefi eitthvað allt annað. Það má alveg eins líta á verkin sem afstrakt, mín vegna. Ég vil hins vegar ekki búa til eitthvað fyrir listfræðinga eina til að ráða í og skýra. Fólk verður að skynja myndirnar sjálft.“

Á það hefur verið bent að í verkum þínun beri mikið á áhrifum frá tónlist. Hvað viltu segja um það?

- „Það er mikið af tónlist í kringum mig. Auðvitað hef ég orðið fyrir áhrifum frá því.Ég verð líka fyrir áhrifum frá hlutum sem tengjast tónlist, t.d. gömlum hljóðfærum. Þetta er rétt eins og menningin í kringum okkur. Hún samanstendur af mörgum hlutum. Það hafa á síðari árum komið svo margar stefnur og gengið svo hratt yfir. Ég vona að það fargan sé búið og þetta tvístrist þannig að engin stefna verði ráðandi. Það á hver að leitast við að rækta garðinn sinn,“ segir Daði.

Og hvar hefur þú ræktað garðinn þinn?

- „Ég ferðast mikið og skoða. Ég var bara eitt ár í skóla hér heima, í nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans. Þar var ekki kennd nein málaratækni. Þess í stað var lögð áhersla á myndbyggingu og myndefni. Tæknin sem ég beiti er fengin með því að skoða verk gömlu meistaranna. Það er slæmt að ekki skuli vera til meira úrval hér af erlendum verkum. Annars eigum við mjög góða málara hér, t.d. Kjarval sem var eins og alfræðiorðabók í hvernig á að teikna.

Eftir námið hér fór ég til Hollands að læra grafík. Nú kenni ég grafík hér við Myndlista- og handíðaskólann. Það hefur verið óhemju vinsælt að nema myndlist í Hollandi. Það ætti þó ekki endilega að vera. Þar ríkir mikill menningarsósíalismi sem fer í taugarnar á mér. Ríkið kaupir mjög mikið af verkum. Innkaupastjórarnir verða að spá í persónulegar aðstæður listamannanna og halda stundum uppi mönnum sem ekki gætu annars komið sér á framfæri. Þetta var hugsað í upphafi til að koma mönnum yfir erfið ár en er komið út í öfgar. Hér á landi kaupir almenningur verk myndlistarmanna. Það er ekki algengt erlendis. Sérstaklega er grafíkin vinsæl enda eru þau verk ódýrari en málverk.“

Á sýningu Daða í Gallerí Borg er 21 verk, þar af 8 olíumálverk en hin eru grafíkmyndir. Sýningin hefst í dag kl. 14. og stendur til 16. september.

GK
DV, 05.09.1985
Hlekkur á gagn