Eirún Sigurðardóttir

FJALLKONUERINDIHarbinger 17. júní 2017


Stofnendur, stjórnendur, listafólk og aðrir gestir.

Við erum hér saman komin í dag til þess að fagna, ekki bara þjóðhátíðardeginum heldur einnig til þess að fagna þriggja ára gömlu landnámi. Landnámi myndlistarinnar hér að Freyjugötu 1.

Það er á dögum sem þessum sem að fjallkonan tyllir sér á stein, fær sér smók og hvílir lúin bein, ekki alveg ein. Því að þessa víðfeðmu basaltbungu, sem vér nú stöndum á, byggir alls konar fólk. Fólk sem á hér djúpar rætur og annað sem á sér grynnri en öll eigum við hér einhverja bólfestu.

Rætur þessa landnáms hér að Freyjugötu 1, eru ekki svo ýkja langar en þær eru óendanlega mikilvægar fyrir landnemana og þá sem hafa plægt hér akurinn og alla þá sem hafa nærst á þeirri uppskeru sem hér hefur verið á borð borin.

Og, einsog allir vel upp aldir einstaklingar vita, þá á alltaf að smakka matinn annars er ekki hægt að vita hvað manni finnst gott eða hvað manni finnst vont, en með því að smakka, horfa og njóta, fá bragðlaukarnir möguleika á að þroskast og smekkurinn að breytast.

Það er því ekki úr vegi að geta þess að hér að Freyjugötu 1 var fiskbúð til margra ára: Gellur, ýsa, þorskur, rúgbrauð, fiskibollur og heimaprjónaðir vettlingar, þar til MYNDLISTIN tók við af fisknum. En það er margt líkt með matarsmekk og smekk á myndlist, það verður EINHÆFT til lengdar að borða einungis ýsu, og smekkurinn breytist eftir því sem að sjóndeildarhringurinn stækkar, og fólk prófar meira og sér meira, upplifir meira.

Og þá komum við aftur að afmælisbarninu, landnemanum, Harbinger, en nafn þess felur í sér það sem koma skal, það sem er undanfari einhvers, sem við vitum ekki endilega hvað er, fyrr en við getum litið um öxl. Og þegar kona, fjallkona, lítur um öxl er margt að sjá og margir ólíkir sýningarstaðir sem hafa skotið upp kollinum og opnað krónu sína fyrir samtímanum, mörg eilífðar smáblóm með titrandi tár sem tilbiðja guð sinn og deyja.

En þetta afmælisbarn er ekki dáið, það mun lifa. Lifa um lengri eða skemmri tíma, það skiptir ekki öllu máli á meðan það er lifandi, nærir og er nært.

En hvað er það sem nærir svona smáblómi? Standandi hér við rætur Freyjugötu, liggur svarið í augum uppi. Það er ástin, því einsog við öll vitum þá er Freyja gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Það eru ástin og trúin á myndlistina sem helda smáblómi á borð við Harbinger á lífi.

Þessi trú á listina er eitthvað sem við, sem hérna erum, eigum öll sameiginlegt. Við lítum ekki á Harbinger sem blómaskreytingu heldur eina af þeim mikilvægu gróðurtegundum sem gerir þessa basaltbungu okkar þess virði að búa hér, gerir hana lífvænlegri.

Og á meðan við höldum trúnni á myndlistina og höldum áfram okkar brasi í hennar nafni þrátt fyrir allt og allt, þá stundum við menningarlíf, sem á vissan hátt mætti flokka meðal trúarbragða. Harbinger væri þá eitt af hofunum, og við hluti safnaðarins. safnaðar sem sækist eftir því að upplifa eitthvað nýtt, eitthvað sem við vitum ekki alveg hvað er.

Ég verð reyndar að viðurkenna að myndlistin veldur mér oft vonbrigðum, bæði mín myndlist og annarra, en þegar hún snertir mig fyllist ég einhverju ólýsanlegu, einhverju sem ég er sjúk í að upplifa sem oftast. Að 1+1 verði 3 og helst eitthvað miklu meira en það. Það er þá sem að ég sé ljósið, þegar myndlistin nær að fara með mig á óþekktar slóðir, lætur mig fara fram úr mér. Gefur mér nýja hugsun, nýtt efnahvarf. En til þess þarf ég oft að fara langar leiðir og leggja mikið á mig, kannski einsog barbapabbi þegar hann fór út um allan heim í leit að lífsförunaut, sem var síðan bara að vaxa í garðinum heima hjá honum.

Ólíkt mörgum trúarbrögðunum þá veitir trúin á myndlistina sjaldnast nokkur svör og það er mjög erfitt að leggja líf sitt í hendur henni, trúa því að hún muni vaka yfir manni og passa upp á mann, hvað þá að hún tryggi manni líf eftir dauðann. Því að Myndlistin ruglar í manni og hrærir og lætur mann gera alls konar hluti til þess að kanna ólík mörk, hugmyndir og aðferðir. Detta og standa upp aftur.

Að ferðast með henni í gegnum lífið veldur óvissu, en það er einmitt í óvissunni sem að eitthvað nýtt getur gerst. Einhver ný túlkun, ný sýn, ný skynjun þó að allt séu þetta nú mismunandi kokteilar úr sama efniviðnum, og fátt nýtt undir sólinni einsog leiðindapúkarnir segja, því að við manneskjurnar getum stundað ýmis efnahvörf og túlkanir en það er eftir allt saman náttúran, Fjallkonan, sem í grunninn gefur okkur allt sem við höfum úr að moða, þó að það sé okkar að púsla því saman og njóta á óendanlega ólíka vegu.

Skál fyrir gagnrýnu og skapandi fólki.
Skál fyrir menningarlífi.
Skál fyrir náttúrunni.
Harbinger, 17. júní, 2017
Upprunalegt gagn er í fórum myndlistarmanns.