Hildur Hákonardóttir

Eins og dyr sem opnastVefarinn, byltingarkonan og klausturgesturinn Hildur Hákonardóttir: tíminn skiptir mig mikluHildur við eitt nýrra verka sinna: listamaður þarf að vera spurull, ekki síst við sjálfan sig.Hildur Hákonardóttir hress og kát niður í Lækjargötu að setja upp sýningu sem verður opnuð í dag og eftir að ljósmyndarinn hefur platað hana í lótusstellingar framan við eitt verkanna er sest niður á Mensuna hliðina og við spjallað saman. Blaðamaður er nýkominn frá þeim Shultz, Geir og Steingrími í Ráðherrabústaðnum og þykir hagur sinn hafa hafa vænkast heldur við umskiptin. Viðtölum um ráðherra heimsóknir og eldsneytisskort og Hildur er ánægð með almenningsviðbrögð við alræmdum atburðum kringum brottför hins sovéska Sévardnadze: pólitík er eitt, gestrisni annað. Talið leiðist síðan að sjálfri henni og verkum hennar og það vekur athygli spyrjanda að atburðurinn Listmunahúsinu núna er bara þriðja einkasýning Hildar á ferli sem samt er orðinn langur og fjölbreyttur...

- Já, vefnaður verður ekki barinn upp á einni nóttu. Ég hélt fyrst sýningu 1972, en á þessum árum lenti ég á kafi í félagsmálum, varð skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans árið 1975 og hafði árin áður tekið þátt í mótun Rauðsokkahreyfingarinnar. Sú alda greip mig með sér. Síðan sótti í það horf að ég varð að gera upp við mig hvað ég ætlaði að vera, -og ég bregð á það ráð að draga mig út úr félagsmálum, og hætti skólastjórn og flutti út á land.

- En ég hef verið að þótt ég hafi ekki haldið einkasýningar. Ég hef átt verk á samsýningum, núna síðast á FORM-sýningunni í Norræna húsinu stórt verk sem tók mig heilt ár. Vefarar þurfa að halda vel á spöðunum til að safna oft í einkasýningar.

- Einmitt þess vegna var Textílfélagið stofnað, hópur þar sem hver styður annan og sýnir saman. Það hefur á hinn bóginn sýnt sig að textíl verk eru oft ósamstæð. Textíll er víðtækt hugtak og samsýningar af því tæi gefa ekki alltaf rétta mynd. Það hefur líka sýnt sig að aðrir myndlistarmenn taka textílfólki vel og við höfum átt greiðan aðgang að samsýningum með þeim.


Manstu eftir Gandhi


Af stuttu áhorfi finnst manni að verk þín nú séu ljóðrænni en áður og taki meira mið af náttúrunni. Er það rétt?

- Já. Ég held það sé enginn vafi á að það sé rétt. Þegar ég byrjaði að vefa gripu mig þær hræringar sem voru í landinu, og sérstaklega að konur voru að byrja að rísa upp. Margt sem ég gerði þá mótaðist af þeim hræringum. Ástæður fyrir að ég hætti að nota þjóðfélagsleg mótíf, mótíf sem snerta kvennabyltingu, eru kannski helst þær að það er ekki fyrir einn hóp að breyta öllu... Manstu eftir myndinni um Gandhi eftir Attenborugh? Þegar Indverjarnir voru að brjóta niður salteinokunina og vildu niðrað sjó og breskir hermenn stóðu vörð, - Gandhi sendir fyrst einn hóp, og sá hópur er barinn niður, og svo sendir hann annan, og þriðja, og einn enn, og aftur, og að lokum sáu bretarnir að þetta var vonlaust og gáfust upp... Þetta er líkt og í kvennabyltingunni, það verður alltaf nýr hópur að ganga fram, nýtt og nýtt fólk að takast á við þau sjónarmið og kringumstæður sem standa í vegi, aftur og aftur og aftur.

- Ég veit að ég er óskaplega mikið að hugsa um tímann, til dæmis um hvaða þátt tíminn á í þessari byltingu kvenna. Verkið sem ég var að tala um í Norræna húsinu snerist um tímann; tólf renningar þar sem birta og litir himins og jarðar blandast saman. Verkin sem ég sýni núna snúast líka mikið um tímann, sum út frá vangaveltum sem urðu til þegar ég var að reyna að skynja hvað mundi verða um þetta sem við konur tókumst á hendur upp úr 1970.

- Ég flutti út á land, og þegar maður er kominn í náin tengsl við náttúruna verður hún eins grípandi og þjóðfélagshræringarnar áður. Og þjóðfélagshræringarnar eru auðvitað hluti af náttúrunni, bara mannleg náttúra. Verkin hafa breyst. Þau virðast hafa breyst mikið, en sjálfri finnst mér ekki að ég hafi breyst mikið. Mér finnst þetta allt vera einn og sami heimurinn.

Þú ert ekki fyrir löngu komin frá Kanada og sýnist hafa breyst þar í kínverja! - Kínversk áhrif í vefnum og að auki teikningar upp á kínversku af munkum að borða hrísgrjón. Skýringar?

- Þessar myndir af munkunum eru gerðar á einum morgni í Búddaklaustri í Vancouver þar sem ég bjó síðastliðinn vetur. Þetta eru augnabliksmyndir, engin umhugsun: myndin bara fellur í pappírinn. Svona myndir skapa mótvægi við vefinn; það er ekki gott að vinna alltaf hægt. Einn af kennurum mínum í Edinborg, vefari, - hann var hraðakstursmaður til að vega upp á móti því hvað vefurinn gekk hægt; ók bílnum sínum á ofsahraða um þjóðvegina. Ég er ekki mikill bílstjóri, en ég þarf mótvægi við vefinn.


Allur þessi tími


- Í Vancouver þar sem við vorum í Kanada er stórt Kínahverfi, annað eða þriðja stærsta samsafn kínverja utan Kína, og ég heillaðist þarna af kínverskri myndlist og menningu. -Ég held að enginn verði ósnortinn sem kynnist kínverskri myndlist, - en það sem heillaði mig fyrst var letrið, kínverska myndmálið. Þetta er hvort tveggja, myndlist og stafróf, og það fer eftir þeim sem á horfir eða fjallar um hvort er ríkara í huganum. Ég var ekki í rónni fyrr en ég gat byrjað að skilja hvað lá að baki, byrjað að skynja myndina sem lá að baki tákninu. Það var eins og að sjá augnablik inní einhvern annan heim. Eins og dyr sem opnuðust örlítið og gaf sýn að þessari óendanlegu dýpt í kínverskri menningu; veitti aðgang að öllum þessum langa tíma sem hún á að baki.

- Búddaklaustrið sem ég var í byggðist á kínverskum búddisma svipuðum þeim sem Japanirjapanir tóku upp og breiddu um heiminn sem zen-búddisma. En kínverskur búddismi er ólíkur zenbúddismanum japanska, hann hefur orðið fyrir áhrifum af taó og ekki síður frá kínverskri þjóð- trú alls ekki óskyldri íslenskri þjóðtrú með allskyns kynjaverum.

- Eitt skrítið: Það þýddi aldrei að spyrja kínverjana. Þeir voru elskulegir við mig, en svöruðu ekki spurningum; það var eins og þeir skildu ekki spurningar, skildu ekki að fólk væri að spyrja. Ég fékk á tilfinninguna að þeir hefðu alla tíð alist upp við að gera það sem fyrir lá án þess að spyrja hvers vegna. Mér fannst ég ekki vera að spyrja neinna djúpra spurninga, - bara að læra tungumálið, - en eini kínverjinn sem ég hitti þarna og var opinn fyrir spurningum var kanadabúi í fjóra ættliði.

- Kínverjarnir á vesturströnd Ameríku eru að reyna að viðhalda gamalli menningu sinni hinum megin hafsins. Mér virtist að þeir ættu erfitt með að aðlaga hana nútímanum. Tilraunir sem ég sá í þá átt í formlistinni, myndlist og byggingarlist, fannst mér ekki markverðar. Það er kannski einmitt vegna þess að þeir spyrja sig ekki djúpra spurninga að þeim gengur illa aðlögun og nýsköpun. Þeir viðhalda menningu sinni en eru þess ekki megnugir að gefa henni líf svo hún geti haldið áfram að þróast. Þrátt fyrir þessa kyrrstöðu er menningin svo óendanlega rík að það er eins og það sé ilmur af henni.

- En listamaður þarf að vera spurull, ekki síst við sjálfan sig: Hvað er ég og hvað er ég að gera?

Og Ísland í ljósi kínverskra viðhorfa?

- Tíminn fer hægt og tíminn fer hratt, en stundum verður hið kyrra að víkja fyrir því sem þarf fram.

- Ég minnist þess þegar ég var skólastjóri í Myndlista- og handíðaskólanum. Þá var þar stofnuð Nýlistadeild, sem ég bað Magnús Pálsson að sjá um. Þetta var nokkuð umdeild ákvörðun. En mér fannst að það væri á ferðinni nýtt og lifandi afl hjá yngstu kynslóðinni, listræn orka liggur mér við að segja, sem þyrfti að fá farveg til að blómstra, - þótt sá farvegur félli ekki að klassískum leiðum og uppbyggingu annarra deilda í skólanum. - Það var eitthvað sem stóð og barði á dyrnar, og það að útrás fékkst eftir þessum farvegi held ég hafi markað djúp og merkileg spor, langt út fyrir myndlistina. - Ekki það að ég væri sjálf svo óskaplega gripin af þessu, - bara þessi tilfinning fyrir tíma, - þetta var að gerast, þurfti farveg. - Tíminn skiptir mig miklu í því sem ég hugsa og geri, - hvernig hann líður... Hann, ég segi hann; hann er veruleiki fyrir mér, veruleiki sem ég vinn úr.Mörður Árnason
Þjóðviljinn, 09.11.1985
Hlekkur á gagn