Hildur Hákonardóttir

Íslensk sveitarómantík og kínversk menningHildur Hákonardóttir við þrjár teikningar sínar á sýningunni í Listmunahúsinu. Í verkunum notar listakonan kínverskt blek, kínverskan pensil og tileinkar sér kínverskar aðferðir við teikningu.Hildur Hákonardóttir myndlistarkona opnar á laugardag sýningu í Listmunahúsinu við Lækjargötu. Á sýningunni eru tæplega 30 verk, vefnaður, ljósmyndir og veggverk úr blönduðu efni, öll unnin á síðustu tveimur árum.

Stór heysáta trónir í öllu sínu veldi þegar komið er inn í sýningarsalinn Mensu-megin . „Já, þetta er sveitakonan í mér,“ segir Hildur brosandi, „ég flyt sveitina með mér í bæinn. En taðan er líka nútíma íslenskt reykelsi.“

Það vekur líka athygli að veflistaverkin á sýningunni eru undir sterkum kínverskum áhrifum.

- „Ég bjó í Vancouver í fyrra og þar var það ekki landslagið sem heillaði mig, eins og vanalega er hér heima, heldur fólk og það tók hug minn allan. Það er mikið af Kínverjum og Hong Kongbúum í borginni og þeir höfðu sterk áhrif á mig, þeir eiga svo gamla og merkilega menningu. Ég fór að reyna að tileinka mér teikningu þeirra og ég varð svo hrifin af stafagerð þeirra og hvernig þeir setja alltaf rauða merkið sitt á allt sem þeir gera sjálfir. Í teikningunum mínum á sýningunni nota ég t.d. mikið kínverskt blek sem er óskaplega gaman að vinna með. Og svo nota ég líka kínverskan pensil sem þeir eru meistarar í að beita. En svo nota ég líka aðra tækni við vefnaðinn. Fer að teikna í vefinn. Landslagsverkin mín hér á sýningunni eru unnin í evrópskri góbelíntækni en í vefinn sem ég óf í Vancouver teikna ég með þræðinum í kyrran bakgrunn. Það má eiginlega segja að munurinn á þessum vefjarlistaverkum sé sá að þegar ég vinn með evrópskri góbelíntækni er vefnaðurinn skyldari málverki en teppin frá Vancouver skyldari teikningu. Kínverjar vinna pappírinn sinn úr jurtum, við vinnum okkar pappír úr trjákvoðu en sjálfa hefði mig helst langað til að vinna pappír úr grasi, en ég veit nú ekki hvort það er mögulegt,“ segir Hildur og hlær.

Gras, já. Á sýningunni má líka sjá að gras er listakonunni hugleikið. Fyrir utan heysátuna sem minnst er á að framan, eru ljósmyndirnar á sýningunni tengdar grasi og reyndar náttúrunni sem slíkri.

- „Gras er mér óskaplega hugleikið,“ segir hún hugsi, „því þar eð ég bý í Flóanum þar sem eru mikil graslendi þá getur ekki farið öðruvísi en svo að maður verði fyrir áhrifum af graslendinu og náttúrunni í kringum sig.“ Og ljósmyndirnar á sýningunni eru tengdar grasinu, Ölfusá og tímanum.

-„Landið, birtan, tíminn og jörðin verða að svo sterkum öflum. Útlendingar sem komið hafa og heimsótt mig, hafa stundum spurt mig að því hvers vegna himininn væri svona stór í Ölfusinum, og ég hef átt í örðugleikum með að svara þeim því ég veit hvað mér hefur fundist en ekki getað komið því í orð. En ég held að á Íslandi og í Flóanum komist maður meira í snertingu við náttúruna og alheiminn.“

Þetta er þriðja einkasýning Hildar. Fyrstu einkasýningu sína hélt hún í Gallerí-SÚM árið 1972 en önnur sýningin var í bókasafni Selfoss árið 1974, en Hildur hefur tekið þátt í fjölda samsýninga.NT, 08.11.1985
Hlekkur á gagn