Haraldur Jónsson

Dagbók30.02.1994


Mjög snemma í morgun hitti ég manneskju sem var samtímis mér í síðasta landsprófinu og ég hef ekki séð mjög lengi en hún trúði mér samt fyrir því að augnalitur hennar breyttist eftir því hvernig skol hún setti í hárið á sér þó að hún hafi ekki trúað því sjálf fyrst þá færu augun á henni þannig séð í felulit skolsins og gjörsamlega ómögulegt væri að sjá mun á þeim og tiltölulega síðu hárinu samt á þetta ekkert skylt við litgreiningu vill hún meina og ég byrjaði strax að velta fyrir mér hvernig þessum hlutum er háttað í dýraríkinu og þá kom rjúpan í snjónum náttúrlega strax upp í hugann.


05.04.1994


Eftir töluverða útreikninga kemst hann að þeirri niðurstöðu að í heiminum séu til tvær tegundir af fólki; fólk sem fer í sturtu og það sem leggjast í bað.


22.05.1994


Ég var á leiðinni á pósthúsið í dag og sá þá mann út undan mér sem mér fannst ég kannast við. Þegar nær dró miðbænum rann upp fyrir mér að þetta var ekki hann heldur annar sem var nauðalíkur allt öðrum. Náunga sem ég umgekkst töluvert á tímabili; á Þýskalandsárunum. Það sem var einkennandi fyrir þann mann, var að hann reif alltaf merkimiðana jafnóðum af fötum sem hann keypti. Þegar ég gekk á hann og spurði um ástæðuna talaði hann venjulega út í eitt og sagðist ekki vilja vera í fötum sem búið væri að skrifa á. Hann hafði hins vegar ekkert á móti númerum.


18.06.1994


Þegar hann kom að bogalagðri brúnni sem liggur yfir tjörnina og skiptir henni samtímis í tvennt, nam hann staðar líkt og hann hefði gleymt einhverju. Hann byrjaði strax að leita djúpt og ákaft í vösunum og setti síðan upp svip sem var á vissan hátt fyrir utan orðin. Svipur sem liggur á milli tungumálanna.


23.08.1994


Kannski var það hvernig hún hélt á glasinu. Ég veit það ekki. En alla vega fannst mér þegar hún drakk það barmafullt af vatni að það, speglaði á vissan hátt hana sjálfa. Að í rauninni væri hún að drekka fljótandi spegil svona eldsnemma morguns.


11.10.1994


Hvernig sem annars er litið á það, virðist miklu meira mark vera tekið á dökkhærðum manneskjum heldur en ljóshærðum. Það hlýtur einfaldlega að felast í þeirri staðreynd að ómögulegt er að sjá hvar hársræturnar liggja á þeim fyrrnefndu. Svo maður tali ekki um augnbotnana.


22.10.1994


Hjónin í næsta húsi leggja mikla áherslu á að eignast sem flest afkvæmi. (Henni finnst einnig merkilegt hvernig líkaminn hitnar snögglega við getnað.) Þau eru þess fullviss að þannig séu meiri líkur á að fæða einstakling sem er hin fullkomna sameining þeirra beggja. Þegar fólk virðir fyrir sér það barn mun það sjá algerlega hann og síðan algerlega hana. Líkt og þegar maður horfir á þessar sérkennilegu hálfþrívíðu myndir sem sýna Krist og síðan Maríu þegar augunum er hnikað örlítið og maður kannast við úr Kolaportinu. Þegar heildin er ein en um leið tvískipt. Það sem einnig er merkilegt við augnaráð fjölskyldumeðlima er að það sver sig í ætt ákveðinnar dýrategundar.


25.10.1994


Í gærkvöldi fór ég einu sinni sem oftar í bíó. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Nema hvað. Ég komst alla vega að því að ástæða þess hversu ákveðið og hratt fólk trúir því sem það sér á kvikmyndatjaldi er sú, að hlutföll hvíta tjaldsins eru bókstaflega þau sömu og á dökkri skólatöflunni úr barnaskóla.


15.11.1994


Ég las í erlendu fræðiriti að vissir þjóðfélagshópar sem starfs síns vegna vinna á næturnar og sjá því sjaldan sólarljós breyti um litaraft. Þar sem þeir fara flestra sinna ferða í rafmagnsljósi eða um neonlýst hverfi verður húðin á þeim hálfgegnsæ og mjólkurhvít í ætt við marglyttu. Stundum alveg út í blátt.


01.12.1994


Stundum velti ég því alvarlega fyrir mér þegar allt er á sínum stað, hvort maður týni til að finna aftur og gleymi þannig að maður muni síðan eftir því.


03.12.1994


Í dag skildi ég allt í einu að þegar orð falla á fjöllum, og þess vegna heilu setningarnar, þá kafna þau og hverfa jafnóðum í mosanum sem liggur í allar áttir undan fótunum. Það er sennilega mjög svipað því og að segja eitthvað úti í geimnum.


15.12.1994


í dag skullu svo stórir dropar á jörðinni að ég hélt á tímabili að ég væri staddur í útlöndum. Samt tókst mér að smjúga á milli þeirra svo lítið bar á. Út um allt voru dauðir fuglar sem voru greinilega ekki vanir þessu og höfðu þess vegna rotast undir þessum risadropum. Gat ég rétt ímyndað mér.


18.12.1994


Hún er búin að velta útlitinu töluvert lengi fyrir sér þegar hún kemst að því að genin hljóta að fylgja tískunni. Eins og sést svo vel þegar maður ber saman andlitsdrætti í nútímaljósmyndum og á málverkum úr mannkynssögunni. Þegar hún hugsar um það. En auðvitað ekki fyrr.


31.12.1994


í dag er gamlársdagur. Af áður óþekktri ástæðu byrja ég allt í einu að telja vikurnar í árinu. Það er eins og mig gruni eitthvað, þó ég sé ekki alveg með á hreinu hvað það er. Ég veit að þær eru fimmtíu og tvær. Þegar ég margfalda þær með vikudögunum fæ ég samt út tölu sem er ekki opinber dagafjöldi ársins: 7 x 52 = 364 dagar. Það eru ekki 365 dagar, eins og ég hafði alltaf haldið. Rétt áður en síðasta sólin hverfur inn í hafsaugað rennur upp fyrir mér að það vantar einn dag í árið. Hvaða dagur var það? Hvernig getur einn sólarhring vantað í árkeðjuna án þess að hún slitni? En það hlýtur þá að gerast í kvöld.Bjartur og frú Emelía, 01.01.1995
Hlekkur á gagn