Hannes Lárusson

Sýknun andskotans1. Lagt til atlögu við himnuna á mörkunum með
blöðku, „banana“ eða kló.

2. Tjúguskegg hins skapandi manns séð sem jólatré
á hvolfi frá bæjardyrum hins venjulega manns
sem vantar þó ekki góðan vilja, og hvernig hægt
er að standa á því.

Frá broddum skeggs listamannsins að hárum hárflækjunnar kringum líffærakerfið um 70 cm neðar á meðal skrokk er að finna efnivið, úrvinnslu, fyrirheit og harmakvein allrar sögu hins skapandi manns þar til núna í dag. Milli tittlings sem stendur og heila sem hugsar hleypur sköpunarneistinn eins og eldibrandur uns hann frussast út um hjartað í fullgerðu verki. Sem er fyrst allt ein kvika, lyktarlaust, iðandi, glært, til þeirrar stundar að það fjarar uppi og þornar á strönd óundirbúins mannfélags.

Púlsinn milli tungu og heila verður tregur, tunguhaft gerir tunguna að samanherptri rúllupylsu, svo fólk hikar við að gapa.

Hér er enn aftur augsýnileg togstreitan milli drullumalls daglega lífsins, ekkert nema gera það og belgja sig út. Þetta sem skáldin semja ljóðin sín um. Það er að setja steina á drullukökurnar í staðinn fyrir hænsnaskít. Og hins gersamlega náttúrulausa veruleika sem skapandi heili reynir að þenja sig upp í. Hjartað er svo goðsagan um það, þegar þessir tveir pólar brenna saman, blossinn sjálfur. En þessi mynd er ennþá blaut. Sleip eins og sú setning sem verður til á leiðinni frá einni yfir að upphafi annarrar.

(Lista)sagan er þegar á er tekið fólgin í trausti, því að treysta, og óvissu, því að vera óviss, og hvellinum þegar þetta tvennt mætist, þegar skyttan fretar á bráðina, elskendur kyssast, stjarna hrapar, hjarta slær hraðar, gefst upp eða spýtir út úr sér spriklandi verki. Þá þegar það verður að eilífri fortíð.
Þetta er baráttan milli snapagengisins sem trúir, étur upp óhrætt og sleikir sig. Og þeirra sem eru fórnardýr nagandi trúleysis. Tittlingar og heilar. Að trúa á guð eða djöful­inn.

Djöfullinn er í tittlingnum en guð er í heilanum.

Allir vilja sannlega eiga sér sinn guð en fæðast með djöfulinn í sér. Listin er óvissa, nýkveikja, ófyrirsjáanleiki og án káms.

Hleypum út úr okkur djöflinum! Gerum list!

En ekkert kemur nema til komi járnvilji guðs til að verða djöfull og öfugt. Ekki fyrr en þeir skella saman á miðri leið kviknar listin og flögrar burt eins og fiðrildi til að verpa í næsta tré: Til þess að í loðnunni endurfæðist enn ný kvikan sem fær okkur til að renna niður tungunni og endurheimta fjörið með því að gubba henni aftur upp í bogalagaðri og regnbogalitaðri gusu af hræring dagsins. Í hljóðinu þegar hann fellur til jarðar verður þá til ofurlítill heimur sem lifir jafn lengi og galdur þess óms.

En handan við þessar andstæður - er eins og að spyrja, hvernig var fiðrildið á litinn. (Og þannig má elta spurninguna undan svarinu; „að til þess á hver maður að vera gegnsósa í sínum ham.“)

Við skulum hugsa okkur tvisvar um.

Regnbogi sést í gubbi andstæðna.

Hannes Lárusson
Nýlistasafnið, 1982
Upprunalegt gagn má finna á bókasafni Listasafns Íslands