Jón Gunnar Árnason

Afskiptaleysi er glæpurRætt við Jón Gunnar Árnason— Ég nota sexið nú kannski mest sem effekt. Við karlmennirnir setjum allt, sem er sexúelt frá sjónarmiði okkar, í sambandi við eitthvað mjúkt...Hann leit inn á blaðið til mín kvöld eitt í frostroki fyrr í vetur, grannur maður með síberska kuldahúfu og mjóa köngulóarleggi og gyllta umgerð um gljáamikil slönguaugu. Undir úlpunni bar hann nýsoðið bjúgsverð; ég smíða gjarnan talsvert af þessu í skammdeginu, sagði hann. Maðurinn er Jón Gunnar Árnason, myndasmiður og einn sá kunnast í hópnum Súm.

Við töluðum þá um skúlptúr sem hann er að gera um þessar mundir. — Þetta er gríðarmikið verk, heimspekileg póesía, allt í alúminíum, sagði Jón Gunnar.

— Þú manst eftir Hon, konulíkaninu tröllaukna sem þrír listamenn gerðu og sýnt var í Stokkhólmi. Því var ætlað að sýna konuna á táknrænan hátt, allt þetta sniðuga sem er innan í henni. Það var gengið innum klofið á henni, í maganum var kaffistofa, pósthús í hnénu. Ég er hinsvegar að búa til smáheim, einskonar eftirmynd heimsins sjálfs, getum við sagt.

Síðan leit ég inn til listamannsins á vinnustofu hans á Grettisgötunni. Þar spjölluðum við stundarkorn saman yfir hvítvínslögg meðan Jón dundaði við að skjóta niður með loftbyssu herðatré, sem hékk á veggnum í hinum enda herbergisins, fjarlægð sirka sex—sjö metrar. Hann missti ekki marks.

— Ég hef líka smíðað skammbyssu, sagði Jón Gunnar. — Fyrir löngu, þegar ég var átján ára. Það var ágætis vopn, sex skota og ekki stærri en svo að hægt var að fela hana í lófanum. Ég komst mikið í kynni við byssur þegar ég var strákur. Það var í síðari heimsstyrjöld og allir dagar voru byssur og ofbeldi.

— Hversvegna hefurðu svona gaman af hnífum og byssum? Ertu spenntur fyrir ofbeldi?

— Nei, andskotinn hafi það. Ofbeldishneigð kemur venjulega til af því að menn vilja láta sjást að þeir séu sterkir, og er vitni þess að vitið er lítið og veikt. Nei, það er orkan, sem ég sé í forminu. Það er mikil orka falin í hnífsforminu, fyrir utan það að þetta áhald er til margra hluta nytsamlegt. Það er hægt að skera með því brauð, ekkert síður en mann. Og til að orka sé í formum hlutanna þurfa formin að vera falleg og hlutirnir eru yfirleitt þægilegri í notkun því fallegri sem þeir eru. Enginn færi að smíða ferkantaðan kappakstursbíl eða hnöttótta þotu. Öll vopn hafa í sér falda orku, ekki endilega eyðingarorku, heldur orku formsins.

— Fyrir mínum sjónum er orkan í myndum þínum ekki hvað síst kynferðisleg.

— Ég nota sexið nú kannski mest sem effekt. Við karlmennirnir setjum allt, sem er sexúelt frá sjónarmiði okkar, í sambandi við eitthvað mjúkt, mjúka línu, viðkomu eða eitthvað þessháttar. Kannski nota ég þetta kynferðislega sem andstæðu, við hörku og eyðingarmátt.

Í framhaldi af þessu drap ég á eina myndina á sýningu Jóns Gunnars í Súm-galleríinu í vor leið. Hún er þrír armar úr svampgúmí og meðal þeirra broddur. Ég sagði eins og var að þessi mynd hefði virkað á mig sem opið konuskaut og jafnframt tjáning þess ofbeldisfulla og tillitslausa í kynhvötinni.

— Ég hef heyrt svipað víðar, svaraði Jón, — en hugsunin hjá mér er önnur hvað þessa mynd snertir. Þarna höfum við eitthvað, sem er mjúkt og þægilegt viðkomu og býður manni faðminn. Við getum sagt að þessi myndi tákni framtíðina, það sem hún býður okkur upp á. En í henni gæti verið falinn broddur. Saga sem ég las einusinni hefur kannski haft áhrif á mig í sambandi við þessa mynd. Ég verð semsé miklu fremur fyrir áhrifum af ritlist en myndlist. Sagan heitir Fahrenheit fjögur hundruð fimmtíu og eitt, gott ef hún var ekki eftir RFay Bradbury. Þar er lýst bjartari tækniframtíð mannkynsins, en þar var líka kvikindi sem var kallað Hounddog. Þetta var vél, róbot, og í hana var sett gataspjald með öllum mögulegum upplýsingum um hina og þessa menn. Og ef einhver þeirra gerði eitthvað af sér, þá tók vélin við sér, elti hann uppi og drap hann með eiturhroddi. Þetta var annars ósköp þægileg vél, enda ætluð til heimabrúks. Eigendur vélarinnar voru brunaliðsmenn, sem höfðu það verkefni að safna saman bókum og brenna þær — þetta gerist langt frammi í tíðinni, vitaskuld. Og Hounddog var varðhundur.

— Læturðu fremur stjórnast af tilfinningu, þegar þú gerir myndir þínar, en að þú skipuleggir þær nákvæmlega fyrirfram?

— Það er ýmist. Þessa mynd gerði ég beinlínis samkvæmt tilfinningu. En það gekk aldrei svo langt að hún tæki völdin af mér. En það gerði aftur á móti þessi svarta þarna, þegar ég var búinn með grindina og farinn að vinna með hana. Hún sagði: ég vil fá svartan lit. Ég vil ekki hafa þennan arm hérna, heldur þarna. Það var kannski sumt í þessu sem kom ekki heima við mitt formskyn, en það varð að hafa það. Hún tók af mér völdin, enda kallaði ég hana Egó.

Jón Gunnar stóð upp og benti á umrædda mynd, sem reis hér upp við einn veginn og ber nokkuð óhugnanlegan skrímslissvip, minnir einna helst á risakolkrabba, en hér stendur aukheldur hnífur framúr hverjum armi og í miðju glittir á auga stórt eins og skálarbotn. Raunar var myndin ekki nema svipur hjá sjón þá, þar sem mekanisminn í henni var ekki í gangi, en þegar hann er það flýtur rauð efja í eilífum straumi yfir augað.

— Grunnhugsunin í þessu, sagði Jón, — var sú, að þegar tækniþróunin er komin á hærra stig á jörðu hér, þá yrðu að vera orðnar til vélar, sem sjá fyrir öllum okkar þörfum. Stórar vélar, sem hugsa og vinna sjálfar án stjórnar og afskiptasemi manna, og framleiddu t.d. mat úr einhverjum lífrænum efnum. Og við ættum að þekkja mannskepnuna nógu vel til að vera vissir um að alltaf verða einhverjir einstaklingar, sem vilja éta meira en aðrir og væru vísir til að reyna að eyðileggja þessar vélar. Þær verða því að geta haft vit fyrir mönnunum, og þessvegna er Egó búinn hnífum til að verja fjöreggið, sem hann felur í sér. Ég er að reyna að benda fólki á út í hvað þessi tækni geti leitt okkur, heldur Jón Gunnar áfram.- Þessi mynd tók af mér völdin. Hún sagði: Ég vil fá svartan lit og þennan arm hérna, en ekki þarna. Enda kailaði ég hana Ego.

- ... við ættum að þekkja mannskepnuna nógu vel til að vita að alltaf verða til einhverjr sem vilja éta meira en aðrir... þessvegna er Egó búin hnífum til að verja fjöreggið...

— Margar af þessum maskínum mínum eru þannig að ég skil þær varla siálfur. Ég finn að það er eitthvað óhugnanlegt í þeim, og það er einmitt það sem ég vil láta fólk finna. Þetta eru einhver lífræn form sem eru með hnífum og oddum og þau hljóða, þau eru heit og titra. Það er eitthvað að gerjast þarna, í vélinni — tekníkinni í heiminum, sem við vitum bara ekki hvað er! Og hvað skeður? Ég hef ekkert lesið óhugnanlegra en greinina í Time um mengunina í heiminum. Ef fólk á ekki að taka afstöðu til þesskonar, til hvers þá? Ef svo fer fram sem nú horfir, verður ástandið þannig eftir fjörutíu ár að börnin okkar geta ekki labbað um Austurstrætið öðruvísi en að setja á sig gasgrímur og í kuldaúlpum, af því að efri lög loftsins verða svo mettuð gasi að sólargeislarnir komast ekki í gegn. Og svo halda listamenn að það sé tímabært að mála sætar abstraktmyndir.

— Eða landslagsmyndir.

— Það er kannski sök sér. Þær sýna okkur allavega hvernig jörðin var. Og Jón Gunnar hlær ískrandi langt niðri í sér.

— Þér ofbýður tækniþróunin.

— Hún er alveg ofboðsleg. Tökum til dæmis laser-geislann, sem var á dagskrá í sjónvarpinu um daginn. Laser-geislinn er á hliðstæðu stigi í dag og flugið var fyrir fimmtíu árum síðan, eða ekki það. Og þróunin með hann gæti orðið helmingi hraðari en hún varð í fluginu. Til þess að gera okkur þennan samanburð betur ljósan gætum við hugsað okkur muninn á nýjustu þotunum núna og þessum rellum sem "Wright-bræður voru að hoppa á. Og nú þegar geta þeir notað þennan laser-geisla til að skera upp- Ef við notum tæknina skynsamlega, líður ekki á löngu áður en við getum hætt öllu púli, þurfum þá ekkert að gera nema að hugsa og leika okkur eða hvað annað sem við viljum. Við getum látið tæknina sjá fyrir öllu sem við þurfum fyrirhafnarlaust: fæði, húsnæði, hita, loftslagi, öllusaman. Þannig getur framtíðin orðið; ég veit það. En svo erum við svona æðislega heimsk og vitlaus að við erum að eyðileggja þessa litlu kúlu, sem við búum á. Það eru ekki nema sárafáar manneskjur í heiminum sem átta sig á að við eigum bara heima á pínulítilli kúlu.

— Ættu geimferðirnar ekki að örva eitthvað skilninginn í því efni?

— Það var ég að vona, en það hefur ekki komið í ljós ennþá.

— Heldurðu að mengunin drepi okkur?

— Hún gerir það áður en langt um líður, ef ekkert verður að gert. Meira að segja hér uppi á Íslandi verður ekki svo gengin fjara hvar sem er á landinu að maður reki ekki tærnar í plastik-brúsa utan af sparr eða einhverju slíku. Fjörurnar eru þaktar allskonar plastik-hlutum, sem ekki eyðast í náttúrunni. Við erum bókstaflega að eyðileggja jörðina okkar með tæknivæðingu. Í samanburði við þetta eru styrjaldir og svoleiðis brölt, jafn andstyggilegt og það er, ósköp smávægileg vandamál.

Talið berst nú um hríð að forsögu Jóns sem listamanns. Hann lærði járnsmíði, var tvö ár í Handíða- og Myndlistaskólanum og marga vetur við myndhöggsnám hjá Ásmundi Sveinssyni.

— Og þú hefur numið erlendis?

— Ég var í skóla í London. Það skeði þannig að hingað kom maður þaðan að utan og sá hvað ég var að gera. Ég var þá að undirbúa sýningu er þá var í uppsiglingu, 1965. Hann sá allt þetta dót, sem ég ætlaði að sýna, áður en ég setti það upp. Hann fékk áhuga og spurði hvort ég vildi koma til Englands í skóla, og ég sagði já. Ég fékk síðan boð frá þessum skóla um að vera þar í tvö ár, það sem þeir kalla postgraduate course. Í þessu fólst að ég kem inn í þennan skóla, ég geri það sem mig langar til, ég fæ allt efni frítt, frítt stúdió eða vinnupláss, og vinn svo þarna sem einskonar sambland af nemanda og kennara.

— Hvaða skóli var þetta?

— Hornsey College of Art í London. Hann er einn af þeim stærstu þar, en alls eru listaskólarnir um þrjú hundruð eða meira þar í landi. Í þessum skóla voru þá um átta hundruð nemendur, og þarna var allt kennt, allt frá því að gefa form bílum og skartgripum til þess að mála og gera skúlptúr. Ég var þarna í skúlpturdeild. Ég hafði minn vinnustað í miðjum stórum sal, og bæði kennarar og nemendur gátu komið hvenær sem var og fylgst með því sem ég var að gera. Auk þessa kenndi ég einn dag í viku á öðrum listaskóla þarna skammt frá. Ég var þarna á styrk frá British Council og einum vina minna hér heima sem var mér til ómetahlegrar hjálpar.

— Dugði það þér sem lifibrauð?

— Það kom þarna allskonar fólk, ekki sízt til nemendanna er voru á post-graduate styrk, því að á þá var litið sem sjálfstæða listamenn. Það gerði að verkum að ég gat selt töluvert af því, sem ég gerði þarna og það hjálpaði mér. Þarna fann ég það virkilega, hvers virði það er fyrir listamann að hafa einhverja menntun og kynnast einhverju. Menntunin er að vísu ekki endilega fólgin í því að hlusta á prófessora eða skoða myndabækur eða annað slíkt, heldur engu síður í því að umgangast fólk, sem er að gera alvarlega hluti og hugsar alvarlega. Fólk sem er aðeins á eftir manni eða á undan í þroska og þróun. Maður kemst þarna í allskonar sambönd, fær allskonar tækifæri, vaknar til vitundar um umhverfi sitt; það er þetta, sem mikilvægast er við skóla og menntun.

— Svo við víkjum aðeins að Súm. Nú er svo að sjá að viðhorfin séu langt í frá þau sömu hjá ykkur öllum. Hvað er það einkum sem tengir ykkur saman?

— Það er satt, við erum nokkuð sundurleit. Ólafur Gíslason og Róska hafa til dæmis mjög harða pólitíska afstöðu, Kristján Guðmundsson aftur hreina estetík. En það sem við höfum öll sameiginlegt er að svonefnt sölusjónarmið er ekki til hjá okkur. Og við höfum komið fram með nýja hluti, t. d. fyrstu poppsýningu á íslandi, fyrstu rafknúnu verkin og ýmsar nýjar tilfinningar, sem aldrei hafa sést hér áður hafa verið kynntar af Súmfólki.- Þarna höfum við eitthvað sem er mjúkt og þægilegt viðkomu og býður manni faðminn...— Hvað leiddi til stofnunar Súm?

— Nú, við vorum þarna fjórir sem höfðum einhverja hugmynd um að sitthvað fleira væri að gerast í heiminum en það sem við sáum hér uppi á Íslandi. Við höfðum kynnst listamanni sem heitir diter rot. Hann hefur í mörg herrans ár verið algerlega útskúfaður af öllum íslenskum myndlistarmönnum nema fáeinum, sem ekkert eða lítið hafa getað gert fyrir hann. Við kynntumst honum og ég held að við höfum orðið fyrir mjög hollum áhrifum af honum, þannig að skilningur okkar og tilfinning fyrir því, sem er að gerast í kringum okkur, hafi breikkað. Útfrá þessu fórum við að finna með okkur samstöðu, og okkur datt í hug að halda sýningu. Við vorum fjórir, við Haukur Dór Sturluson, Sigurjón Jóhannsson og Hreinn Friðfinnsson.

— Hver er merking heitisins Súm?

— Við héldum okkar fyrstu samsýningu í Ásmundarsal 1965, Þá var Súm ekki orðið til sem félag, en við þurftum að kalla sýninguna eitthvað og þá varð þetta fyrir valinu. Sjálft heitið Súm þýðir nákvæmlega ekkert; það bara fór vel í munni. Við duttum niður á það er við vorum að fletta upp í mannkynssögu eftir Ásgeir Hjartarson og sáum þar getið þjóðar sem nefndist Súmerar. Þetta var heilmikil menningarþjóð og steyptu meðal annars úr eir; notuðu til þess aðferð, sem er í góðu gildi enn í dag. Hún er þannig að fyrst er búin til mynd úr vaxi, sett í sandmót, bráðnum eirnum hellt í hana og svo rennur bráðið vaxið út um göt á mótinu og eftir verður varanlegt listaverk. Það er því engin skömm að kenna sig við þessa náunga. En til að gera orðið þægilegra í munni, tókum við bara þrjá fyrstu stafina. En sem sagt; hugmyndalega áttum við sáralítið sameiginlegt. Nema hvað við vorum ekki að hugsa um að búa til hluti sem við gætum selt, heldur einungis eitthvað sjálfum okkur og öðrum til gamans, og að benda á einhverja ágalla eða sýna fram á eitthvað gott.

— Og nú eruð þið orðin allmörg?

— Við erum nú eitthvað um tuttugu stykki, og það eru ekki einungis myndlistarmenn, heldur og rithöfundar og kompónistar.

— Hvernig skýrir þú hugtakið listamaður?

— Listamaðurinn er maður sem sér umhverfi sitt og tilveruna í miklu skýrara ljósi en allur almenningur, og gerir sér þar af leiðandi nokkra mynd af framtíðinni. Ýmsir, þar á meðal ríkjandi valdhafar móta smekk fólksins, og svo er það spurningin hvort listamaðurinn tekur undir þeirra smekk. Geri hann það, er hann hættur að segja nokkurn sannleika, þá er hann bara orðinn eins og hver annar, sem lætur blekkjast af ríkjandi sjónarmiði og slíkt leiðir til stöðnunar. Þessa afstöðu tóku rithöfundasamtökin í Tékkóslóvakíu nýlega, er þau lýstu yfir stuðningi við stefnu stjórnarinnar og ákváðu að reka þá meðlimi, sem ekki tækju undir það. Þannig spyrna þeir á móti allri framvindu. Hvað þetta snertir er lítill munur á tékkóslóvakískum listamönnum og íslenskum. Flestir íslenskir listamenn eru lítið annað en jámenn valdhafanna, þessara sömu valdhafa er hafa komið af stað þessu ofboðslega kapphlaupi um fölsk verðmæti, sem hér ætlar allt að æra. Allur þorri listamanna í dag tekur þátt í því; þeir bara mála sínar hlutlausu skreytingar fyrir stofur, eða skrifa hreppstjóraminningar. Arkitektar byggja hús, sem eru aðeins falleg að utan eða varla það og svo mætti lengi telja.

— Þú vilt meina að í þeirra augum sé listin til þess að. skreyta, en ekki skapa hluti sem hafa sjálfstæðan veruleika.

— Það sem þeir gera er fyrst og fremst miðað við það að það seljist. En auðvitað er þetta ekki algild regla. Það eru til menn sem gera þetta fyrir sjálfa sig, gera þetta í ótalmörg ár, uns þeim finnst þeir sjálfir vera búnir að fá nógu mikla svölun með þessu. Auðvitað eru menn að þessu meðfram til að svala sér, það gera allir listamenn. Ég svala mér við að benda á tímann sem við lifum á, með því að búa til agressíf og stingandi verk, sem leitt geta hugann að því að það sé eitthvað ljótt að ske í kringum okkur. Við svölum okkur allir á þessu. En svo er búinn til tískumarkaður og þá eru menn allt í einu orðnir háðir penirigasjónarmiðum.

Samanber að í mörg ár hefur það verið tíska hér að mála abstrakt-expressioniskar myndir, þær seljast. En erlendis hafa íslenskir málarar orðið sér til athlægis fyrir að varla er hægt að þekkja myndirnar þeirra sundur á sýningum, þær eru svo líkar hver annarri. Hér heima hafa þeir reynt að telja almenningi trú um að þetta sé hin eina sanna list, og svo eru til enn aðrir, sem halda því fram, að þeir séu listamenn bara ef þeir geta málað skikkanlegar landslagsmyndir og allur almenningur tekur undir og segir: sjáið þið hvað grasið og fjallið er eðlilegt, þetta er alveg eins og á Húsafelli, eða hvaðan sem fyrirmyndin er. Mér finnst við eiga góðan landslagsmálara, þar sem Kiarval er, en sá almenni skilningur fólks að allir séu listamenn, sem mála mynd af landslagi og stilla henni upp í rammagerðinni eða Morgunblaðsglugganum er eins fráleitur og að segja að allir hagyrðingarnir okkar séu skáld."Eins og út launsátri búast vélmennin til árásar, úr öllum áttum ota þau... hnífunum". Úr listdómi svissneska rithöfundarins René Scherrers um sýningu Jóns Gunnars í gallerí Súm— Líturðu þá svo á að kollegar þínir séu yfirleitt skúrkar eða hundingjar, nema hvorttveggja sé?

— Auðvitað eru á meðal myndlistarmanna margir heiðarlegir menn, en líka margir sem eru gersneyddir öllum heiðarleik. Þeir hafa einhverja hæfileika til að tjá sig í lit og formi, og þeir nota þá hæfileika eingöngu til að græða peninga. En þeir hugsa ekki um ástandið, sem veldur því að þeir tileinka sér þetta peningasjónarmið. Og af nútíma listamanni er það mikið ábyrgðarleysi. Listamenn eiga að vera kennarar, þeir hafa aðstöðuna, og allir eiga að taka afstöðu. Afskiptaleysi er glæpur að mínum dómi, raunar ekki annað en þátttaka í sjálfsmorðstilraun af hálfu mannkynsins.

Texti: Dagur Þorleifsson
Myndir: Sigurgeir Sigurjónsson og Oddur Ólafsson
Vikan, 14.05.1970
Hlekkur á gagn