Jóhanna K. Sigurðardóttir


Páll Haukur Björnsson

VASAVIÐTAL #2: Jóhanna og Páll Haukur í spjalliJóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir (JKS) og Páll Haukur Björnsson (PHB) hittu Bláa vasann í spjalli á dögunum. Bláa vasinn (Guðlaug Mía (GME) og Kristín Karólína (KKH)) ræddi við vinina tvo sem útskrifuðust bæði úr LHÍ árið 2009 en héldu nokkrum árum seinna í sitthvora áttina, Jóhanna til Belgíu, þar sem hún nú býr og Páll Haukur til Los Angeles, en hann er nýfluttur aftur til Reykjavíkur.Út og aftur heim, og aftur út …


GME: Þið eruð bæði stödd á Íslandi þessa dagana ekki satt? En búið bæði erlendis?

JKS: Já ég er stödd á Íslandi og búin að vera hérna í eitt ár eftir að hafa búið í Belgíu í fjögur ár þar sem ég tók M.A og svo postgraduate prógram í HISK. En er einmitt núna þessa dagana að pakka saman aftur og á leið út til Belgíu þar sem ég ásamt, Baldvini Einarssyni, Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur, Helga Þórssyni og Valgerði Sigurðardóttur, var að stofa nýtt sýningarými: ABC Klubhuis í Antwerpen.

PHB: Ég hef búið í Los Angels síðustu 6 - 7 árin en er ný fluttur til Íslands aftur.

GME: Jóhanna, hvað fékk þig til að fara til Belgíu?

JKS: Páll Haukur þú veist að Antwerpen er framtíðin... Það sem fékk mig til að fara til Belgíu var bara innsæið - svona í alvörunni, þá vissi ég ekki neitt um Belgíu og hafði aldrei farið eða heyrt um en ég bara fann það á mér að þangað ætti ég að fara svo ég googlaði skóla og fann þann besta; KASK í Gent til að taka M.A og svo bara kom framhaldið til mín.

GME: En hvað segir þú Páll? Nýfluttur heim! Hvað var það sem dró þig upphaflega út? Og núna aftur heim?

PHB: Ég fór upprunalega út til L.A. í skóla. Fór eins og nokkrir aðrir íslenskir listamenn, í CalArts en endað svo fyrir tilstilli ýmissa tilviljana á að vera mun lengur en ég ætlaði. Skólinn var bara 2 ár og ég ætlaði að fara beint til Evrópu eftir að ég lauk námi en eitthvað hélt alltaf áfram að koma í veg fyrir að ég gæti farið þannig að ég ílengdist. Undir lokin var ég að vinna við bíómynda framleiðslu hjá Paul McCarthy og það eiginlega kláraði mig alveg af allri LA löngun... hahaha. Og þá var bara loksins kominn tími á að fara eitthvað annað og Ísland meikaði mest sens, alla vega svona áður en lengra væri haldið.

GME: Já get vel ímyndað mér það, hvað ertu búinn að vera lengi heima núna, ertu strax farinn að fara í Heiðmörk og tengja og svona? Þú ert úr Mosfellsbæ ekki satt? Náttúrubarn?

PHB: Haha já! Náttúran kallaði. Kalifornía er náttúrulega bara eyðimörk - náttúruleg eyðimörk - og það var þurrkur þar í ofanálag eiginlega allan tímann sem ég var þarna og ég upplifði eitthverja ótrúlega þrúgandi sorg í öllu vatnsleysinu. Þetta var mjög framandi eiginlega allan tímann. Ég fór í Lónsöræfi núna í sumar, svona spiritual ferð að finna náttúruna og það var mikil uppgötvun. Sá einhvern tímann viðtal við Ómar Ragnarson þar sem hann sagði að enginn Íslendingur gæti dáið fyrr en hann hefði staðið andspænis Tröllakrókum, sem er staður í Lónsöræfum, og ég verð að segja að ég er sammála honum. Það er eitthvað í gangi í þessari öfgafullu náttúru sem er mikils virði á eitthvern ómælanlegan hátt.

JKS: Páll Haukur það er alveg satt að náttúran á Íslandi eða náttúruöflin eru einhvern veginn með manni og koma með út á eitthvern hátt - allavega þegar ég var úti þá fann ég hvernig mig þyrsti í bláan og fattaði svo að það væri þessi blámi sem maður hefur alist upp við hérna á Íslandi. Þannig að ég fann mig notandi bláan lit alveg óspart og líka þessa ljóðrænu sem honum fylgir.

PHB: Einmitt, blámi norðursins, ljóðabók eða þungarokkshljómsveit. Þetta er raunveruleg tilfinning, bláma-þorsti!

JKS: Hahah já satt - það er alvöru tilfinning… En svo núna þegar ég kom aftur heim til Íslands fór ég að nota meira grænan sem ég líka áttaði mig á að væri öfug þrá til Belgíu og sú tenging. Ert þú með eitthvað þannig Páll Haukur? Svona tenginu við L.A.?

PHB: Já algjörlega. Ég þrífst alveg í þessum íslenska, náttúru, lita og öfga-veðurs raunveruleika. Dreg mikið af löngun minni til að skapa úr nálægð við þessa náttúru. Hún er eitthvað svo skemmtilega apatísk í sínum smágerða tignarleika, miklu meira hressandi að vera í þannig níhilisma heldur en einhverjum art-biz-world leikriti.

JKS: Apatísk - hahah þarna komstu orðum að því vinur.

KKH: Já Ómar gamli góði veit hvað hann syngur! Það er líka magnað hvað listamenn, sí endurtekið, uppgötva þessa Íslands krafta eftir að hafa verið búsettir erlendis… sagan endurtekur sig… okkur þyrstir í blá-mann, grá-mann og hundinn Sám.

JKS: Já ég lenti í því að sökkva smá eftir að ég kom heim. Ég horfði á fjöllin og fann sorgina í að finna ekki þessa djúpu þrá sem ég hafði áður - sjokkeruð að finna ekki lengur fegurðina í fjöllunum… en það er sem betur fer komið aftur. En einungis vegna þess að ég áttaði mig á því að ég væri ekki alveg tilbúin í að koma aftur heim og þess vegna er ég aftur á leið út - kannski segir sagan að það taki 10 ár að jafna bilið?


Merking og myndbirting


GME: Segið mér nú, og lesendum Bláa vasans frá áherslum ykkar í eigin myndlist. Á milli ykkar tveggja eru þær ansi ólíkar, eða hvað?

PHB: Ég er alltaf að verða meira og meira sammála David Lynch þegar hann segir að hann tali með listinni og finnist það vera einhvers konar tvítekning að eiga svo að tala um tungumálið sem hann notaði til að tjá sig í fyrsta lagi. Á sama tíma finnst mér mjög gaman að tala um myndlist og gæti gert það út í hið óendanlega. Ég er búinn að hugsa mikið um hvernig maður býr til list sem lifir einhvern veginn handan myndbirtingarinnar (e. representation) en á sama tíma gerir einhvern veginn grein fyrir þeim merkingarfræðilegu kerfum sem liggja að baki myndbirtingunni… En ég verð að viðurkenna að því meira sem mér finnst ég ná að nálgast það viðfangsefni því meir finnst mér ég skilja að maður þarf einhvern veginn að yfirgefa eins konar mennsku eða merkingarfræðilegar hugmyndir um hvað það er að vera við! Ég held að ég og Jóhanna mætumst alveg þar einhverstaðar í spiritual nálgun kannski! Hvað segirðu Jóhanna? Er ég að bulla?

JKS: Nei ekkert bull hér á ferð. Ég held að þar sem við erum spiritual verur í eðli okkar og kannski sem myndlistamenn, klisja, opnari fyrir því að tungumál er bara eins og önnur hendin - hin er auðvitað önnur vitund og það þarf tvær til þess að dansa tangó eða eitthvað álíka - kannski tjáningardans eða…?

PHB: Held að myndlist sé alltaf trúarlegs eðlis, óhjákvæmilega. Eitthvað svona spiritual tilkall til tilverunnar handan allrar merkingar. Er það of væmið?

JKS: Já, það er kannski viðkvæmt en í sjálfu sér svo augljóst að það eru ekki til orð yfir það eða þannig. En svo má líta á samfélagið sem hægri fót og vinstri… hvað væri vinstri þá…?

GME: Spennandi, Páll hefur þú komist að einhverri niðurstöðu? Hefur þú pælt í að vera með listmun í annarri vídd á sýningu? Annars held ég að þú hafir verið ansi naskur þarna í að finna tenginguna milli ykkar. Því þú Jóhanna vinnur mikið út frá tilfinningu og því sem erfitt getur verið að orða en það getur einmitt verið erfitt að orða myndlist. Það er svo eitthvað sem þú rannsakar Páll?

PHB: Ég geri myndlist sem er full af orðum en snýst ekki um orð í eiginlegum skilningi heldur kannski meira um landslag. Þessar þversagnakenndu langanir mínar eða tilætlanir eru algjör hausverkur sko… En ég trúi að það sé eitthvað þarna sem sé þess virði að eltast við. Það er eitthvað svo athyglisvert, ef maður leitast við að sjá það, hvernig það að búa til merkingu er fullkomlega lögbundið ferli, það að við búum til merkingu, en hvernig við komumst að þeim merkingarfræðilegu niðurstöðum sem við gerum er fullkomlega handahófskennt. Hvað þýðir það fyrir siðferði, fegurð, sannleika o.s.fv. að allir mögulegir hlutir gætu mögulega verið tengdir öllum öðrum mögulegum hlutum? Það er eitthvað mjög krítískt sem á sér stað á þessum gatnamótum þar sem hin merkingarfræðilega ákvörðun er tekin.

JKS: Ég einhvernveginn upplifi mig inní sérheimi tungumála í verkunum mínum, en tungumál er ekki orðið og tjáning er það ekki heldur - það má frekar tala um eitthvað fljótandi. Eins og hringjandi eða tíðni eða leitin að eitthverju sem ég skil ekki, eða þekki ekki og þar er einhver næring og endurnýjun. En svo ég dragi aðeins niður tóninn þá eru við líka með aldurskeið og þann líkamlega þátt einhvern veginn í svipuðu ferli í sköpunartilvistinni og við erum alltaf að bæta í pokann.

PHB: Já einmitt Jóhanna. Tilhvers að stoppa við eitthverja eina birtingarmynd þegar við vitum að hún er að fljóta eða renna inn eitthverja aðra endalaust og að eilífu? Slippin n´sliding. Þetta er svona metafórísk endaleysa eins og eins og eins og eins og eins og eins og eins og eins og dauði….. haha!

JKS: Já þannig er það Páll Haukur, við erum flæðið og þetta hvernig hver og einn vinnur er bara eins og við erum öll einstök. Eða ólík eða komum frá ólíkum grunni en ég verð að segja að ekki erum við öll fljótandi í ánni þó listamannatitillin sé til staðar - það kemur víst ekki með titlinum þó svo að sumir myndi óska sér þess.

KKH: Páll, þú hefur talað um að hlutirnir (sbr. hugtök, staðreyndir…) séu í raun merkingarlausir; en getur þú sagt okkur aðeins nánar frá því, og hvaða merkingu að skapa list hefur fyrir þér? Er það kannski á einhvern hátt þín (persónulega) leið til að skapa merkingu?

PHB: Já einmitt Kristín, mín afstaða er í raun ekki svo níhílísk eða ef hún er það þá er hún svona ‘positive nihilism’ í þeim skilningi að ég held að merking sé augljóslega ekki fólgin í hlutum heldur í samhengi.

Það er að segja í þessari metafórísku samþættingu þegar eitt verður að öðru, þarna mitt á milli hlutar og hlutar, tilfinningar og tilfinningar. Að eitthverju leyti gerir þessi afstaða merkingu að umfram allt mennsku fyrirbæri og í framhaldinu að siðferðilegu fyrirbæri. Þetta er ekki svona fokk everything því það allt er merkingarlaust heldur meira svona fyrst við búum til merkingu, við erum merkingar-framleiðslu-vélarnar, þá erum við ábyrg fyrir þeirri merkingu. Þannig er ég spenntur fyrir ákveðnum pólskiptum sem eiga sér stað ef maður endurorðar spurninguna hvað merkir þetta þannig að hún hljómi hvernig hlaut þetta eitthverja merkingu til að byrja með eða eitthvað álíka. Það gefur okkur forsendur til að skoða hvernig það eru til mismunandi leiðir til að skilja og merkja.

Þannig er til dæmis auðvelt að sjá feðraveldið sem merkingarfræðilega tilhneigingu sem á sér í raun enga sérstaka birtingarmynd, eða það er að segja, birtingarmynd hennar er handahófskennd á meðan tilhneigingin sjálf, sem snýr að valdi og þekkingu, er lögbundin.

KKH: Jóhanna, þú virðist vera að kafa dýpra í listsköpun þinni, listhlutnum (object-inum) sjálfum, taka það efnislega lengra. Í sýningarskrártexta rakst ég á þessa tilvitun: "Introduction of Sculpture – When the depth of this is thought a little bit longer, it becomes endless at the moment we forgot what we were thinking about." Tíðnin í listhlutnum – einhvers konar Stimmung eins og Kandinsky orðaði það? Þið virðist bæði vera á góðri leið handan einhvers – á leið inn í svartnætti handan myndbirtingar eða hugsunnar.

JKS: Já Kristín þar er sko ekkert svartnætti, framundan þokunni birtist ljósið. En satt með þennan titil til dæmis sem þú varst að nefna þá áttaði ég mig á því að hugsunin um hlutinn væri í raun að draga úr honum á sama tíma - þannig að við viljum að hann stækki með því að hugsa um hann eða gefa honum skýringu en það sem í raun gerist er að hann fer minnkandi. Svo ég reyni að hugsa sem minnst og leyfa öðrum hlutum af mér, svo sem vinstri hendinni að fá að vera stjórnanda. Samanber ef hægri er hugsun er vinstri andinn. En svo þarf maður stundum, einhversstaðar í ferlinu að sleppa merkingunni og leyfa öðrum að komast að - setja smá traust á aðra og tilgang tilgangsins, eða tilgangsleysi.

GME: Jóhanna í verkum þínum eru textar oft eins og partur af eða framhald af verkum. Hvernig nálgast þú textann, eða vinnur hann? Skrifar þú hann samhliða því að vinna verkin, kemur hann eftir á eða jafnvel fyrst?

JKS: Textann nota ég einhvernveginn samhliða og sé hann alltaf tengdan verkinu, þó svo að hann sé ekki hluti af því sem format beint. Það sem ég er núna búin að átta mig á er að textinn er alltaf eins og sjónarhorn sem gefur ekki upp frá hvaða hlið hann er að horfa, hvar hann á að vera eða hvað hann er að leggja áherslu á í heildinni eða innsetningunni sjálfri.

Núna er ég farin að nota textann sem þátttakanda sem gefur object-unum eða einingunum smá frelsi; hlutverk, eins og þegar maður er á vinnustofunni þá er maður með eitthvað í höndunum sem maður er að búa til og fer að færa til og raða saman og á meðan myndast eitthvert hlutverk, jafnvel formleysa eða tenging á milli verkanna og mín og þá er hugurinn ekki að hugsa heldur hreyfa sig, svoleiðis verða textarnir svolítið til. Hmm kannski flókið…

GME: Ok, en bíddu, finnst þér þá textinn vera orðinn sjálfstæður? Kemur hann eins og utanaðkomandi til þín?

JKS: Nei ekkert er sjálfstætt - hvert þarf á hvor öðru að halda - eins og líkaminn. Kannski skýrara að segja að ég sé tengiliðurinn…?

GME: Ahh einmitt, meistarinn þaðan sem allt þetta kemur, verkin og textinn öll partur af því sama?

JKS: Haha já er það ekki? Ég á svo erfitt með skilgreiningar, mér finnst þær bindandi og flækjast meira fyrir mér, hamlandi. En þegar verkin eru komin út af vinnustofunni og ég byrjuð að installa eða setja upp þá fer annað ferli í gang. Ég stend fyrir utan og horfi á heildina sem hyrning sem hefur svo margar hliðar og þá kemur þessi þekking sem maður hefur úr listasögunni og reynslu.

GME: Varðandi merkingu og þá merkingu sem áhorfendur leggja í verk ykkar langar mig að spyrja þig Páll, út í texta og texta sköpun. Þú hefur notað texta markvisst ekki satt, hvaða hlutverki gegnir hann fyrir þér í myndlistinni?

PHB: Í mínum huga eru orð og texti partur af landslagi, eða einskonar yfirskilvitlegur arkitektúr sem gerir grein fyrir hvernig við skiljum heiminn. Í verkunum reyni ég svolítið að leysa upp allt þekkingarfræðilegt gildi orðanna eða textabútanna sem ég nota og láta þá standa sjálfstæða sem einhverskonar ljóðlínur eða skúlptúra.

GME: Þannig að textar og orð eru nokkurskonar upphafspunktur? Hvað með hugtök og hugmyndir? Ég er að velta fyrir mér upphafsreitnum þínum að hugmyndum og ferli, sækir þú í orð, lestur?

PHB: Já algjörlega, ég sæki mikið í ljóð og skáldskap. Það er samt ekki fullkomlegt samhengi milli hugmynda og lesturs að því leyti að það sem ég les gerir ekki endilega grein fyrir því hver hugmyndin verður. Þetta er meira svona áhrif og hughrif og ómeðvitaðar tengingar. Þú veist, þetta sem er einhvern veginn að gerast á milli orðanna í ljóðunum. Ég sæki mikið þangað án þess að geta gert fullkomlega grein fyrir því. En svo er það mismunandi á milli verka. Sum þeirra eru kannski hugmyndafræðilega strangari en að mestu leyti fjalla þau ekki um neitt meira en landslag augnabliksins…

GME: Mhm, þið sækið bæði á þetta óræða svæði en á svo ólíkann hátt, alveg merkilegt! Páll útskýrðu aðeins fyrir lesendum okkar hvað þú átt við með landslag augnarbliksins?

PHB: Merking er einhvern veginn alveg jafn mikið flatarmál og bara jörðin undir fótum okkar. Einhverskonar yfirborð sem hefur áhrif á hvernig við hreyfum okkur í tíma og rúmi. Svona sálfræði sem gerir grein fyrir hvort við getum gert eitthvað eða ekki og í mínum huga er landslag eitthverskonar margvídda samsoðningur af þessu efnislega og merkingu og taugum og minningum og tilfinningum og allskonar draugum - alls konar svona þáttum sem eru aldrei kyrrir eða alveg eitthvað eitt heldur eru alltaf að umbreytast úr einu í annað. Það er þessi soðningur sem er í mínum huga landslag - fjallið er bara jörð. Meikar þetta eitthvern sens? Mig vantar emoji held ég, til að gera mig skiljanlegann! (Eldflaug) (epli).

GME: Þetta meikar sens! Jóhanna, í verkum þínum flakkar þú á milli hins tvívíða og þess þrívíða, á málverkum þínum má til dæmis greina skúlptúra, en svo býrðu líka til sjálfa skúlptúrana í þrívídd. Hvað ræður því hvernig þú vinnur? Af hverju verður eitt að málverki en annað að skúlptúr?

JKS: Já, ég hef líka verið að spyrja mig að þessu undanfarið. Í upphafi sá ég mig sem málara og vildi bara teygja málverkið smá útúr rammanum, í M.A náminu fattaði ég að ég væri líka skúlptúristi og svo í HISK hugsaði ég að ég væri bara í grunninn ljóðskáld og hélt að það mundi frelsa mig frá öllum skilgreiningum. Í dag er ég einmitt að hugsa um málverkið og skúlptúrinn sem ég á erfitt með að taka í sundur því í málverkaferlinu þá er ég svo konsentreruð í að mynda jafnvægi sem verður að smá möntru og myndar það ákveðna togstreitu eða bardaga til að sigrast á. Með skúlptúra þá eru þeir líkamlegir eða þar er ég að vinna með aðrar stöðvar - hreyfingu og ekki takmörkun líkamans heldur eðlilega þekkingu og færni hans í að skera og móta. Þannig að já, þetta eru ólíkir þættir og má segja að málverkið sé hugurinn og skúlptúrinn er líkaminn. Textinn er svo andinn, kannski.

KKH: Já uppgötvunin er svo hressandi, maðurinn lendir ósjaldan í mótsögn í myndlist, vill fara einhvert, segja jafnvel skilið við eitthvað en verður skyndilega valdalaus, í hringiðu og er leiddur einhvert annað – eitthvað töfrandi í ferlinu sjálfu?


Tjáning og nálgun


GME: vindum okkur að öðrum þætti sköpunar ykkar sem þið eigið sameiginlegan; gjörninginn! Byrjum bara á byrjuninni, hvenær í ferlinu fóruð þið að fást við gjörninginn?

PHB: Svona 2006 held ég! Jóhanna?

JKS: Jú 2006 Páll Haukur, þú gerðir nú þrusu gott gjörningaverk þar sem þú skrifaði bréf til Bob Dylans og svo videóið þar sem þú situr allsber og ert að hlusta á CD player - það var mega flott.

PHB: Haha já einmitt. Já var að hlusta á The thrill is gone með Chet Baker. Þetta var svona bummers kántrí verk. Þetta var ótrúlega erfiður tími, haha.

JKS: Haha, já erfiðir tímar þegar maður er ungur.

GME: Hvað gerðist árið 2006 sem leiddi til þess að þið fóruð bæði að vinna með gjörningaformið?

JKS: Við vorum saman í gjörningaáfanga hjá Ragnari Kjartanssyni og Ásdísi Sif sem hafði alveg mikil áhrif á þeim tíma, þau voru svo opin og tengdu við okkur á sama grunni einhvern veginn. Við vorum líka á öðru ári í LHÍ og eldurinn var alveg brennandi!

PHB: Já, ég held að þessi gjörningatími hjá Ragga og Ásdísi hafi verið mjög áhrifamikill og haft áhrif á alla sem tóku þátt. Það var líka ennþá svolítið töff að gera gjörninga á þessum tíma. Maður fékk það á tilfinninguna að þetta væri svona miði fremst í röðina eða eitthvað álíka. Svo er bara búið að miðstéttarvæða og normalizera þetta í klessu og ekkert kúl að gera gjörninga lengur!

GME: En eftir þennan örlagaríka kúrs í LHÍ hafið þið fengist við formið, núna í áratug. Hvernig hefur sú þróun verið, og hvaða hlutverki gegnir gjörningurinn í listsköpun ykkar í dag, samanber í upphafi?

JKS: Ég er enginn gjörningalistamaður og hef satt að segja eignlega ekki gert neina gjörninga þannig, nema þá í það format sem ég byrjaði að vinna með núna árið 2015, þar sem ég flyt texta sem hreyfingu og samtal á milli skúlptúranna eða verkanna.

GME: Hvaða hlutverk hefur gjörningurinn þar? Til að upplýsa áhorfendur/útskýra? Eða til að bæta við/búa til nýjar tengingar?

JKS: Kannski er þetta ekki einu sinni gjörningur. Ég er að leitast við að finna nýjar hliðar eða sýna aðrar hliðar, leiðir, til að horfa á skúlptúrana eða hlutina. Ég upplifi mig ekki vera að flytja gjörning heldur meira eins og þýðandi eða flytjandi - kannski er þetta eitthvað í líkingu við composer - ég vil vera jafn góð og Morricone.

GME: Og hvað með þig Páll Haukur?

PHB: Ég mundi segja að ég hafi aðeins róast í gjörningunum mínum. Ég fór yfir í að gera minna og minna innan gjörningsins þangað til þetta hefur eingöngu farið að snúast um að sjá og horfa. Áhugi minn á gjörningum fór líka fljótt að snúast um sjónarhorn þess sem var að gera gjörninginn þannig að ég fór meira og meira að reyna að skapa performatívar aðstæður fyrir áhorfendur til að taka þátt í og helst að upplifa algjörlega bara með sjálfum sér.

Ég hef alltaf haft minnstan áhuga á þessu gjörningarlistamaður/áhorfandi sambandi en meiri áhuga á þeim áhrifum sem það getur haft að vera settur í einhverskonar aðstæður. Þá snýst þetta ekki lengur um þessi samskipti að sýna sig og að sjá eitthvað, heldur verður að einhverskonar einrænni og persónulegir reynslu þess sem tekur þátt. Mér finnst alltaf frekar leiðinlegt að horfa á gjörninga sjálfur þannig að sú uppsetning heillaði aldrei mikið. Hahaha...

JKS: Já hér má líkja mér meira við kennarann sem er að presentera eitthvað óljóst og Pál Hauk eins og hann segir: "performatívar aðstæður fyrir áhorfendur til að taka þátt í og helst að upplifa algjörlega bara með sjálfum sér." Haha, kannski er ég control freak eða vill bæta eitthverju nýju við það sem maður upplifir fyrir framan sig og þar er frjálslega frásögnin mikilvæg.

GME: Mhm, en Páll, ertu enn að vinna að þessu? Að skapa aðstæður/upplifun fyrir áhorfandann?

PHB: Já svona þegar andinn kemur yfir mig. Hef gert þó nokkuð af gjörningum og aðstæðum sem eiga sér stað í bílum og er einmitt að reyna að þróa einn slíkan núna.

GME: Áhugavert, mig langar að spyrja þig Páll, sem aðallega hefur fengist við gjörninginn, og bjóst svona lengi í stórborginni L.A, hvaða þýðingu hefur listhluturinn sjálfur, object-inn fyrir þér? Er hægt að segja að þú sért fráhverfur honum? Þú talaðir í upphafi viðtalsins um að komast handan myndbirtingarinnar. Er það útgangspunkturinn? Eða hefur hann alltaf verið það? Hvaða merkingu/gildi hafa listmunir í þinni sköpun

PHB: Listhluturinn og sköpun hans er alveg stór þáttur í mínu ferli. Ég reyni að forðast að taka hann of alvarlega en á sama tíma þá er hann náttúrulega forsenda myndlistar sem fyrirbæris. Þetta er mjög svona mikið ástar/haturs samband og oft fæ ég það á tilfinninguna að réttast væri að segja skilið við hann; hlutinn. Hef þó ekki náð að öðlast það siðgæði sem þarf til að geta látið verða af sambandi mínu við hann. Það eru ennþá einhverjir töfrar eða tál í honum og ferlinu að búa hann til. Það er ekki að þetta snúist um einhverskonar tjáningu heldur meira að ég verð bara alltaf jafn hissa þegar þeir verða til, þessir hlutir, þessi verk. En já, þessi þráhyggja mín til að skapa verk sem eru á eitthvern hátt ofhlaðin merkingu en á sama tíma handan samhengis táknkerfisins sem stýrir myndbirtingunni er pínu flókið. Hef nýlega farið að finna til mikillar samkenndar með minimalistum síðustu aldar…

GME: Í upphafi ferils þíns voru verk þín oftar en ekki pólitísk svörun við umhverfi. Hvaða áhrif hafði það á þig og þína sköpun að flytja til LA þar sem þú varst gestur/aðkomumaður?

PHB: Góð spurning. Það var svolítið skrítið að upplifa svona, hvað á maður að segja, hindrun að beinu aðgengi að pólitísku gildi. Það er að segja, sú pólitíska myndbirting sem maður féll undir hafði allt annað vægi skyndilega og þar af leiðandi mikið af því sem ég hafði verið að fást við. Þetta var eitthvað sem ég reyndi að sporna við en tókst aldrei almennilega að ná utan um. Það var bara eitthverskonar apatísk krafa í loftinu um að maður væri að gera eitthvað kúl, í besta falli að fást við eitthver frumspekileg vandamál - og mér fannst hvorugt þessara viðfangsefna það áhugaverð að ég nennti að spá í því. Er einmitt mikið búinn að vera að velta þessu fyrir mér núna þegar ég er kominn aftur til Íslands en þó ekki alveg sama Íslands og ég fór frá á sínum tíma.

GME: Já þetta er annað Ísland en það sem þú fórst frá, og þú búinn að þróast sem myndlistarmaður, hvað er á döfinni?

PHB: Ég er að vinna að nokkrum litlum sýningum sem dreifast yfir næsta árið eða svo, samhliða því sem ég er að kenna örlítið upp í Listaháskóla. Annars er ég að reyna að ná áttum, fá tilfinningu fyrir því hvað meikar sens að gera næst. Ég er nýbúinn að ljúka svona 3 ára plani, ef svo mætti kalla, og hafði lofað sjálfum mér að stoppa við eftir þann kafla og spá aðeins í hlutunum og reyna að átta mig á hvert straumurinn vill taka mig næst.


Tilgangurinn


GME: Nú höfum við farið ansi vítt og breitt. Getið þið sagt okkur hvaða áhrif L.A. og Belgía hafa haft á ykkur sem myndlistarmenn, sbr. að vera að vinna og hrærast í í íslensku samhengi. Einhver ný nálgun sem þið öðluðust frá því landslagi/samhengi sem þið fóruð inní?

PHB: Eins og ég minntist á hérna að ofan þá upplifði ég ákveðin pólskipti í pólitísku gildi mínu við það að flytja til L.A. og það hafði mikil áhrif á það sem ég var að gera. Ég var vanur að vinna mjög mikið inn í óhefðbundin rými og arkitektúr í samhengi við pólitíska afstöðu eigin líkama í samfélaginu, ef svo mætti að orðum komast, en týndi þeirri nálgun aðeins í risaborginni. Það varð held ég til þess að ég fór í raun að hugsa miklu meira um listhlutinn og listaverkið, fór í rauninni í fyrsta skipti að reka stúdíó þar sem ég bjó til verk sem voru kannski ekki í neinu samhengi við neitt, nema þetta stúdíó. Þannig kynntist ég líka aðeins peninga hliðinni á þessum bransa og það hefur allt verið ákveðin reynsla. Núna er ég einhverstaðar á milli þessara tveggja póla, stúdíósins og pólitíska samhengisins að reyna að fatta hvernig og hvort þessir hlutir passi saman.

JKS: Belgía hafði alveg stór áhrif á mig sem myndlistamann - en það sem hafði mestu áhrif á mig var arkitektúrinn, hvernig ólíkum tímabilum og formfræði var raðað saman.

GME: Við gætum eflaust haldið áfram inn í nóttina, svo til að slútta þessu kemur lokaspurningin sem er jafnframt sú erfiðasta! Eigið þið ykkur takmark í myndlistinni? Hver er tilgangurinn og að hverju stefnið þið? Og síðast en ekki síst; hver er drifkrafturinn?

PHB: Markmiðið er öll náttúran og drifkrafturinn er smægðin því hún gerir grein fyrir restinni.

JKS: Nei, ekkert takmark bara bein leið áfram. Tilgangurinn er að lifa, skapa, læra og njóta. Stefnan er svo alltaf næsta verk og drifkrafturinn er lífið.

Blái vasinn, 2017