Jan Voss

JAN VOSS Á HJALTEYRI í JÚLÍ 1988Jan Voss á HjalteyriÞýski listamaðurinn Jan Voss hefur um árabil verið fastagestur á Íslandi, og haft mikið samneyti við íslenska listamenn bæði hér á landi og í Hollandi. Það var því korminn tími til að forvitnast aðeins um verk hans og feril.


- Þú fæddist við óvenjulegar aðstæður. Geturðu sagt mér frá því og líka frá barnæsku þinni?


- Ég fæddist á síðustu dögum stríðsins, í lok apríl 1945, í litlum bæ, ekki langt frá Hannover, sem heitir Hildesheim. Á íslensku útleggst Hildesheim sem vígvöllur eða eitthvað í þá áttina. Síðar sagði móðir mín mér frá því að þegar hún reis á fætur eftir að hún hafði fætt mig, blasti við henni utan gluggans útsýni er bar merki stríðsins: Fólk sem aðeins stundu fyrr hafði verið líflátið, hékk í trjánum. Gamli heimurinn var greinilega í molum. Það er mjög spennandi hugmynd að sjá sjálfan sig sem einn þeirra sem þurfa að byggja nýjan heim. Það rifjast upp fyrir mér atvik, sem er ein af mínum fyrstu minningum. Það hlýtur að hafa verið snemma vors 1948 er ég hafði flust með foreldrum mínum til Duisburg. Ég hef verið þriggja eða næstum þriggja ára. Hingað til hafði gjaldmiðillinn verið ríkismörk, en nú var verið að breyta yfir í þýska-markið. Móðir mín átti eftir að eyða nokkrum ríkismörkum sem voru að falla úr gildi og til þess fór hún með mig inní verslun, sem í minningunni var gríðarstór, líklegast vegna þess að ég var svo lítill. Í versluninni blöstu við tómar hillur. Móðir mín bað um kubba, sem hún ætlaði að gefa mér, svokallaða: „Bauklötzchen". Það eru svona mismunandi lagaðir trékubbar, sem börn léku sér að fyrir tíma „Legokubbanna". Börn gátu raðað þessum kubbum upp á mismunandi vegu í sínum húsagerðarleikjum. Ég hafði ekki mikinn skilning á þessu atviki þegar ég var þriggja ára, en síðar meir þegar þetta rifjaðist upp fyrir mér sá ég hvað hafði gerst. Nú finnst mér það athyglisvert að búðareigandinn bað einn afgreiðslumannanna að ná í sög fyrir sig og tók síðan sjálfur til við að saga hluta úr gömlu hillunum niður í búta, margvíslega lagaða trékubba sem móðir mín keypti fyrir gömlu mörkin.

Ég hafði gengið í skóla í fimm ár þegar faðir minn dó skyndilega. Faðir minn var málari og málaði abstrakt flatarmyndir. Hann var nú ekki lengur heima við, meðan móðir mín vann og það var ekki gott að lítill drengur væri skilinn aleinn heima án umsjár. Ég var því sendur í heimavistarskóla og eyddi þar næstu átta árum fram til tvítugs. Mér gekk erfiðlega í skóla og í fyrstu var það mikill léttir að hefja nám í listaskóla. Ég fór í Listaháskólann í Dússeldorf.

Nú komum við að því er ég fór að verða fullorðinn. Ég held ég hafi ekki haft beint hæfileika til að vinna á einhverju ákveðnu sviði. (Hæfileikaskortur sem ég er með árunum meir og meir ánægður með). Ég býst við að ég hafi verið mjög opinn í allar áttir, ég var bara opinn fyrir hugmyndum eða alls konar hlutum. Sá sem fyrstur varð til að hafa sterk áhrif á mig sem kennari í þessum skóla, og virtist ekki vera þar aðeins til að hirða launin sín heldur hafði í rauninni eitthvað að segja, var Dieter Roth. Ég held að hann hafi fyrst byrjað að kenna við skólann '67, en ég hóf mitt nám '66, held ég. Prófessorinn sem ég hafði verið hjá áður var orðinn þreyttur á mér og ég þreyttur á honum. Ég hafði unnið dálítið við grafík og hann stakk upp á því við mig að ég flytti mig yfir til nýja grafíkprófessorsins sem var að koma. Ég hafði aldrei heyrt Dieters getið. Ég komst í bekkinn hans og út frá því þróaðist margt. Það var Dieter sem kom mér til Íslands. Á þessum árum opnuðust augu mín fyrir mörgu. Ég fór að sjá möguleikana á því að skilja á skáldlegan hátt daglegar gjörðir mín sjálfs og annarra. Dieter skapaði stemmingu og andlegt andrúmsloft, þar sem hversdagslífið var ekki venjulegt lengur. Eitt af því sem hann gerði var að hann keypti offset-prentvél. Síðan keypti hann eldavél og fullt af súkkulaði sem hann lét okkur bræða og hella yfir alls konar hluti. Við höfðum alveg sérstaka skemmtan á þessum árum.

Þetta voru uppgangstímar í Dusseldorf. Ég held að Beuys hafi boðið Dieter að kenna í Dusseldorf. En fljótlega urðu þeir á öndverðum meiði. Þeir toguðu ekki í sama spottann. Pólitískur metnaður Beuys var Dieter ekki að skapi. Hann yfirgaf skólann. En stuttu eftir það eða með honum komu Dorothy iannone, Robert Filliou og George Brecht. Takako Saito, Robin Page og Spörri voru oft þarna. Thomkins var einnig á sveimi. Þetta var kynslóð listamanna, fimmtán, tuttugu árum eldri en við vorum, sérlega framúrskarandi fólk, framúrskarandi listamenn. Í eitt eða tvö ár hafði ég vinnustofu ásamt með tveimur vinum mínum, Johannes Geuer og Emil Schult. Robert Filliou bjó einnig í sama húsi. Við höfðum mikið samneyti við hann og vorum í nánum tengslum við hugmyndaheim hans. Beint eða óbeint varð veran í listaskólanum einhvers virði með því að okkur byrjendunum var boðið upp á kynni við þennan hóp áhugaverðs fólks. Annars mætti segja að við höfum ekki lært mikið, ég kynni ekki enn að strekkja striga á blindramma ef ég hefði ekki lært það upp á eigin spýtur.

'71 þegar veru minni í listaskólanum var raunverulega lokið, þó ég væri skráður í tvö ár í viðbót, vissi ég blátt áfram ekki hvað ég ætti að gera. Að lifa lífinu, búa til list, græða peninga, stelpur, partí, hass og LSD, dálítið ruglingslegt, of margt að gerast á sama tíma. Og þá var það að Dieter kom með uppástungu: „Af hverju ferðu ekki til Íslands?" Það hljómaði frábærlega, og við fórum Emil Schult og ég. Á árunum áður höfðum viö báðir gert nokkrar bækur og við eyddum vikum saman á Grundarstígnum við að handgera „ A good old hat poetry book" í tíu eintökum og nokkur tölublöð af „Dröhnland News". Dieter hafði lánað okkur Moskvitchrúgbrauðið sitt til að ferðast um landið, og hinn samansoðni gallerístíll Súm í Reykjavík varð upphaf skilnings á landi og þjóð. Upp frá þessu fór ég að heimsækja Ísland oftast nær árlega, og stundum tvisvar á ári. Oft hef ég dvalið marga mánuði í senn. Ég hef ekki blandað miklu geði við Íslendinga, það sést á þvi að við tölum nú saman á ensku. Ég hef frekar fært mér í nyt það sem þetta land hefur uppá að bjóða með náttúru sinni og afskekktum stöðum eins og Flatey á Breiðafirði eða Hjalteyri. Að dvelja einhvers staðar einn og vinna að mínum verkum, að horfa út um gluggann og hlusta á hugsanir mínar, skrifa þær niður, eða rissa upp mynd af því hvernig hlutirnir virðast samsettir, það er það sem enn þann dag í dag er að gerast hjá mér. Í Flatey á áttunda áratugnum, og nú hér á Hjalteyri á níunda áratugnum.

Enn taka verk mín á sig mynd bóka frekar en málverka eða teikninga. Og jafnframt því að lifa af athöfnum mínum, hef ég á síðustu tuttugu árum leikið það hlutverk af fingrum fram að vera listamaður sem ekki er viðstaddur opnanir í galleríum þeirrar borgar sem hann er búsettur í. Það hæfir mér betur að vinna verk mín á fremur óháðan hátt utan snobbliðsins. Að mæta á mínar eigin opnanir og vina minna er mér nóg. Jæja, þetta er allt sem ég man núna úr fortíð minni, með hliðsjón af því að hafa oft dvalið á íslandi.Mynd: Þýðing úr „Án titils“, bók Einars Guðmundssonars- En þú býrð mestmegnis í Hollandi?


- Já, já, síðan '75 eða '76 hef ég búið með hollenskri konu sem hefur þýtt það að ég hef sagt skilið við Þýskaland. (Samt hef ég enn íbúð í Berlín, þó ég sé þar sjaldan, en fyrir tíu árum síðan skipti ég um bækistöðvar í Þýskalandi frá Dusseldorf til Berlínar). Ég er miklu oftar í Amsterdam, og þar sem það er hefð fyrir því að íslenskir listamenn leggi leið sína til Amsterdam, hef ég um árabil fylgst með einni grein nýjustu eða yngstu listar íslands þar í borg. Eins og ég hef áður sagt fór ég að taka eftir nýrri íslenskri list í Reykjavík, snemma á áttunda áratugnum, og ég fylgist enn með þróun hennar, þegar ég er þar. Í sambandi við Holland hef ég ekki margt að segja. Ég held að það sé jafngott öðrum stöðum á meginlandinu. Það er að vísu indælt að allt er hægt að komast á hjóli, en það er viðbót. Ég ætti kannski að minnast á það að í þrjú ár hef ég starfrækt bókabúð í samvinnu við aðra listamenn, að hluta til íslenska. Sem dæmi um þessa samvinnu má nefna að í haust gefum við út skáldsöguna Sáðmenn eftir Steinar Sigurjónsson, og verður hún myndskreytt af listamönnum eins og Henriette van Egten, Douve Jan Bakker, Pieter Holstein og Kristjáni Guðmundssyni. Bókabúðin hefur eingöngu það markmið að sýna og selja okkar eigin bækur, bækur sem líklegast má best lýsa sem bóklist. Upplög margra bóka minna höfðu legið árum saman í pappakössum niðri í kjallara, og fyrst núna þegar þær eru komnar í bókahillurnar hjá okkur, finnst mér að útgáfu þeirra sé lokið.


- Bókagerð, prentun og málverk?


- Áhugi minn á bókagerð hófst með því að frekar snemma fór mér að skiljast að ein mynd er aldrei nóg. Ein mynd sýnir engan sannleik heldur er það röð mynda, eða í raun og veru allar myndirnar. Ein mynd getur varla verið nóg, það er alltaf mynd á vinstri hönd og á hægri hönd. Þetta er óendanlegt, það er ein risastór heildarmynd. En til að nálgast sannleikann verður að leysa hann í sundur í myndraðir.

Þetta skýrir strax aðeins viðhorf mitt til málverksins. í málverkum er yfirleitt máluð ein mynd af einu atriði eða svo. Þetta leiðir til sköpunar málverka sem á skín ljós einhvers konar upphafningar. Þegar þeir sem málverkið líta verða varir við þetta ljós er líklegt að þeir láti blekkjast og krjúpi á kné fyrir framan það. Þeir munu kannski segjast gera það í virðingu fyrir handverkinu, eða mikilfengleik hugmyndar málarans. Ég get ekki hrifist af þessari einnar myndar hugmynd, hún setur slagsíðu á áhorfendur, ég vil að verk mín séu skoðuð af fólki sem stendur upprétt.

Sjálfsagt eins og aðrir sem fást við bókagerð, hef ég reynt að það er ekki auðveld leið til að afla sér lífsviðurværis, málverk eru miklu betur til þess fallin. En ég held að málverkin mín séu ekki raunveruleg „málverk". Mér finnst tilefni til að mála mynd ef myndefnið er á einhvern hátt tvöfalt. Ef mynd inniheldur að minnsta kosti andstæðu sína. Oft er það í tengslum við tungumál, tvöfalda merkingu, merkingu orða sem sett er fram á myndrænan hátt, í mótsögn, skarast eða gera hvort annað fáránlegt. Og ef ég finn þannig myndefni er líklegt að ég geri úr því „málverk", því það virðist auðveldasta leiðin til að sýna þess konar tilfallandi samstæðu. Og ég skeyti lítt um að beita miklum tæknibrellum við þetta. Ég gef þeim sem vilja klappa fyrir handverkinu eins litla möguleika og hægt er, en ég ásaka mig fyrir að leika mér í alvöruleysi með hugmyndir.

Og í bókum með mörgum blaðsíðum er að sjálfsögðu tækifæri til að sýna ekki bara eina mynd, heldur margar sem tengjast með því að hafa greinilega meira eða minna með hvor aðra að gera. Til að byrja með voru bækur mínar teiknaðar myndasögur, sem voru endurskapaðar í prentuninni. Í Berlín og áður í Dússeldorf fór ég að líta yfir öxl prentaranna og skilja hvað þeir voru að gera. Ég hafði þegar kynnst offsetvélinni '67 eða '68, og á áttunda áratugnum varð hún mér enn mikilvægari. Nú á ég sjálfur offsetvél og vinur minn í Amsterdam á tvær aðrar, sem eru mjög stórar og ég hef aðgang að. Að fást við bókagerð hefur þróast út í það að nota offsetvélina eins og, segjum, málari notar pensil. Við erum ekki lengur að gera eftirmyndir, myndunum sem við gerum er ekki ætlað að líta út eins og fyrirmyndirnar, heldur er prentaða myndin orðin einstök. Við notum ekki lengur ljósmyndatæknileg millistig. Heimur atvinnumennskunnar hefur raunverulega rænt offsetgreininni og sett sér sínar eigin fagurfræðilegu reglur. Það er meiri gljái á Bensinum sem er á pappírnum, en skín af honum úti á vegunum. Fyrir mér er það mikill léttir að sjá, að með sama tækjakosti og þessum reglum er viðhaldið, er hægt að vinna andstætt, snúa reglunum við. Það er hægt að komast að fleiri niðurstöðum sem verða til léttis, til dæmis að það er hægt að hrella velmeinandi, sósíaldemókratíska bókaverði með því að prenta upplag bókar þar sem ekkert eintak er samskonar.

Möguleikarnir með offsetvélinni eru í raun mjög opnir og sveigjanlegir. Offsetvélin er næstum algerlega í höndum atvinnumanna, sem allir keppast við þá list að gera sem nákvæmasta eftirmynd vegna þess að líklegast halda þeir að það séu kröfur viðskiptavinanna. En í höndum listamanna býður offsetvélin uppá að vera rannsökuð sem skapandi tæki.Seekuh(nde), mótív frá 1979Úr bókinni "Change"- Orðaleikir?


- Ég get sagt með vissu að leikur að orðum hefur greinilega hlutverki að gegna. Sem Þjóðverji í Hollandi og á Íslandi, frekar en í Þýskalandi, hendir það mig oft að skilja ekki eitthvað, eða þá að ég held að ég hafi skilið, en geri það ekki. Eins og öll orð framkalla mynd í huganum, gera misskilin orð það líka. Þau vekja mynd sem kannski er sérkennileg. Til dæmis þegar þú skilur ekki orðið „misunderstanding" gæti það fyrsta sem þér dytti í hug verið ung, falleg kona, sem héti „Understanding", „Miss Understanding". Á þennan hátt má þróa sjónrænt ímyndunarafl sem byggt er á orðum. Sjónræn ímyndun sem orð eru kveikjan að er oft á tíðum grunnurinn að myndgerð minni. Ég held að þetta hafi komið því óorði á mig að vera léttvægur, gera verk sem á vissan hátt eru ómerkileg og í besta eða versta falli aðeins brandaragerð. En mér finnst þetta í raun ekki svo fyndið. Fyrir mér er þetta tilraun til að rannsaka mismunandi leiðir þess að eitthvað misheppnast, að eitthvað virkar ekki eins og það ætti að gera. Það er þessi þáttur lífsins sem mér finnst lang áhugaverðastur.

Viðhorf mitt til notkunar lita og pensla, er sterklega undir áhrifum frá því sem ég sé gerast í listinni í kringum mig. Þegar það hefur verið hátíska á síðast liðnum tíu árum að mála, hafa þá ekki nógu margir séð um það verk, svo það var í raun ekki nauðsynlegt að ég legði þeirri grein lið? Uppgangur málverksins gaf mér aðeins tíma til að reyna aðrar leiðir. Það er ekki til neins ef allir toga í sama spottann.

Eins og ég sagði áður fannst mér ég ekki vera hæfileikaríkur á neinn sérstakan hátt. Ég er ekki hæfileikaríkur teiknari, ég er ekki augljóslega leikinn málari. En það hefur alltaf haldið mér uppteknum að bjóða þessum athöfnum byrginn, aðeins vegna þess að vangeta er eitthvað til að vinna úr, öfugt við fánýtan rembing færninnar. Samt get ég miklu meira þegar ég teikna, en þegar ég mála. Mér finnst málverk vera frumstæðasta listformið, maður makar einhverri litaðri drullu. Fyrir mér felst í teikningu það að skipuleggja flöt til hlítar, koma fyrir styrkri samofinni heild. (Mikill hluti málverka í dag finnst mér frekar vera ákveðin gerð teikninga, mín málverk eru þar meðtalin). Fyrir mér eru bækur prentaðar af listamönnum þróaðasta leiðin til að framkalla myndir í huganum: Tími, rými og hreyfing eru tengd saman í heildarmynd margfaldra flata og auka þannig fjölbreytnina. Og sem áhorfandi að verkum annarra, finnst mér það mikilsvert hve mikið af innihaldinu kemst til skila.Síða úr „Umschlag“ 1978- Mig langar að spyrja þig um innihald verka þinna?


- Mér er erfitt eða ómögulegt að svara þessari spurningu. Það er undir öðrum komið hvað þeir finna í verkum mínum. En það er líklegast ekki alltaf rétt að innihald listaverka verði forvitnilegra eftir því sem vínið sem veitt er á opnuninni er meira og í hærri gæðaflokki. Ég er líka í vafa um að verk mín hafi mikið með tísku að gera, létt skraf eða ef út í það er farið: stór orð. Varðandi mínar myndir þá vil ég að fólk lesi þær. Sumir lesendur eru það langt komnir að þeir geta líka lesið það sem mér láðist að bæta inní þær. Samt hlýtur það að vera lesandans að túlka það sem hann les.Eggert Pétursson tók saman

Teningur, 01.01.1989
Hlekkur á gagn