Jan Voss

„Getur aldrei vitað hvert þú stefnir“Fjöllistamaðurinn Jan Voss hefur selt bækur í Amsterdam og róið út frá Hjalteyri

Ástand þess sem rær til sjós og þess sem skrifar er svipað. Þeir snúa bakinu að framtíðinni sem nálgast en horfa til baka á fortíðina sem fjarlægist, vinna sig í átt að óþekktum áfangastað. „Þetta er hið almenna ástand. Þér getur fundist þú vita hvaðan þú kemur en þú getur aldrei vitað hvert þú stefnir, eða hvert gjörðir þínar muni leiða þig,“ segir þýski fjöllistamaðurinn Jan Voss, en yfirlitssýning á verkum hans, Með bakið að framtíðinni, stendur nú yfir í Listasafni Akureyrar. Sjálfur þekkir hann hvort tveggja, hann hefur róið út frá Hjalteyri í Eyjafirði en að mestu leyti helgað sig sköpuninni, myndlist, teiknimyndasögugerð, bókaútgáfu og bókverkasölu.


Í yfirgefnum bóndabæjum í Flatey


Voss, sem er fæddur í Þýskalandi árið 1943, sá það ekki fyrir þegar hann steig fyrst á land á Íslandi – með bakið að framtíðinni – að rúmlega 40 árum síðar yrði hann með yfirgripsmikla yfirlitssýningu á verkum sínum hér. „Ég var að sinna verkefni fyrir kennara sem gat ekki mætt sjálfur. Mér var boðið hingað, flugið greitt og allt. Ég fékk kennslustarf hjá Myndlista-og handíðaskólanum, svo það leit út fyrir að það gæti borgað sig að koma hingað aftur,“ segir Voss.

„En seinna kom ég aftur, jafnvel án þess að búast við því að það borgaði sig, þá bjó ég bara í yfirgefnum bóndabæjum á Kjalarnesi, Flatey og víðar. Mér fannst landið yfirþyrmandi og mér fannst fjarlægðin frá Þýskalandi nauðsynleg til að ég gæti einbeitt mér,“ segir Voss. Í gegnum tíðina hefur hann fundið næði til að vinna að sköpun sinni hér á landi.Fjarlægð í nærverunni


„Alveg frá upphafi hef ég verið í nánum tengslum við íslenska listamenn, fyrst fólk í SÚM-hópnum og svo síðar Nýlistasafninu. Samt sem áður hef ég verið tiltölulega fjarlægur í nærveru minni. Ísland hefur ekki verið það svæði sem ég hef lagt mesta áherslu á, það var ekki það sem skipti máli – ég kom hingað fyrst og fremst til að vinna. Þegar mér var boðið að sýna á Listasafni Akureyrar langaði mig þess vegna að gera víðfeðma yfirlitssýningu. Mikið af verkunum í sýningunni voru sköpuð hér, flutt úr landi en snúa nú til baka,“ segir Voss, en tekur þó fram að sýningin sé almennari en svo að hún snúist einungis um Ísland: „Ætli það séu ekki í kringum tíu verk sem ég hefði aldrei getað skapað ef ekki væri fyrir Ísland sem land.“

Voss hefur þrátt fyrir tal um fjarlægð í nærverunni tekið þátt í þó nokkrum sýningum hér á landi í gegnum tíðina, og fyllti meðal annars rými gallerí SÚM við Vatnsstíg árið 1972 með yfir 120 teikningum sem áttu síðar eftir að nýtast honum í bókverk. Á sýningunni á Akureyrir ber hins vegar að líta verk í ólíkum miðlum: teikningar, vídeó, innsetningar og bókverk. „Ég hef alltaf forðast að negla mig niður í ákveðinn miðil. Ég vil halda þessu eins opnu og mögulegt er. Ég nota málverk sem einfalda leið til að setja upp tilraunaaðstæður, ég er frekar að búa til módel heldur en að stunda þá list að mála eða teikna. Ég nota málverkið til að sjá fyrir mér samband hluta og hvernig þeir gætu unnið saman.“ Þannig var róandi vélmennið í bátnum á listasafnsgólfinu fyrst til og sýnt sem tvívítt verk. Miðlarnir renna saman: hugmynd þróast í málverk í innsetningu úr texta í teikningu úr málverki og aftur í texta.
Áherslan á listamanninn andlistræn


Listaverkabækurnar, eða bókverkin, sem Voss skapar og selur í Boekie Woekie, goðsagnakenndri bókverkabúð í Amsterdam, er líklega skýrasta dæmið um það hvernig mörk miðlanna hverfa. En búðina rekur hann ekki einn og leggur áherslu á það: „Þú ættir kannski að nefna misskilning nútímans á listamanninum, jafnvel hér á Íslandi, sem felst í því að líta á hann sem einhvern egó-bardagamann, einhvern sem notar nafn sitt til að koma sér áfram. Þetta myndi ég segja að væri frekar andlistrænt viðhorf.“ Voss hefur áður velt fyrir sér hugmyndinni um vörumerki listamannsins, en á tímabili kallaði hann sig „Hinn unga Voss“ og gerði þannig grín að því hvernig listfræðingar eiga það til að skipta höfundaverki listamanns upp í tímabil.

Bókabúðin hefur hins vegar ávallt verið rekin sem samstarfsverkefni Jans, Henriëtte van Egten og Rúnu Þorkelsdóttur.

En af hverju þessi áhersla á sjálfsútgefnar listaverkabækur? „Hefðbundnar bókabúðir selja nær eingöngu bækur gefnar út af fyrirtækjum sem þurfa að græða pening til að lifa af, þess vegna straumlínulaga þau bækurnar á hátt sem miðar að því að gera þær söluvænlegar. En svo er gríðarlega mikð af fólki að gefa út á eigin vegum. Það er hefð fyrir þessu á Íslandi: það er oft lína sem gefur þetta til kynna fremst í bókunum. En þetta er lína sem fólk sér sjaldnast í dag. Þetta er gríðarlega stór grein menningarstarfs mannkynsins, sem er engu að síður nánast ósýnileg, svo mikið á jaðri samfélagsins að það mætti segja að hún sé ekki til,“ segir Voss.

Kristján Guðjónsson
DV, 31.03.2015
Hlekkur á gagn