Kristján Guðmundsson

Rætt við Kristján GuðmundssonFyrir skömmu hélt Kristján Guðmundsson sýningu í Ásmundarsal. Af því tilefni lögðu Eggert Pétursson og Gunnar Harðarson fyrir hann nokkrar spurningar varðandi list hans og lífsskoðanir.

- Ólíkt mörgum háfleygum listamanninum byrjaðir þú á jörðu niðri og lærðir að fljúga. Var það kannski hugsað sem undirbúningur fyrir „listflugið“?

- Ætli það. Ég fór í flugskólann Þyt af því ég vissi ekki hvað ég átti af mér að gera á tímabili. En kannski er ekki svo slæmt fyrir mann að læra flugeðlisfræði eða siglingarfræði í staðinn fyrir módelteikningu, og svo stendur veðurfræðin náttúrlega alltaf fyrir sínu.

- En hvernig lentirðu í myndlistinni?

- Vinir mínir, Sigurður bróðir, Hreinn Friðfinnsson, Þórður Ben og fleiri voru í Handíðaskólanum um eða uppúr 1960 og voru að gefast upp á honum held ég og einhvern veginn datt ég inn í þetta líka, enda hafði ég í rauninni aldrei ætlað að verða flugmaður og lauk aldrei námi.

- Þú sýndir á Mokka 1968. Eitthvað um það að segja?

- Já, á Mokka hjá Guðmundi. Ég hef það að segja, að mér fannst það nokkuð vel heppnuð sýning - svona passlega gáfuleg og passlega heimskuleg. Annars ber vinur minn Jón Gunnar eiginlega ábyrgð á þessari fyrstu sýningu minni, því hann lét bóka mig þarna án þess að láta mig vita.

- Síðan er það Súm hópurinn?

- Já.

- Þú vilt kannski segja eitthvað um hann?

- Súm? Það er nafn á sýningu sem var haldin í Ásmundarsal 1965 og svo kom eitthvert fólk saman uppí Ásmundarsal aftur haustið 68, blandað lið, við þurftum að gera eitthvað og sumir höfðu meiri trú og aðrir minni trú á að eitthvað væri hægt að gera. Við áttum kannski ekkert sameiginlegt nema uppreisnarandann og hrakhólatilfinninguna, þetta endaði svo með því að við Þórður Ben vorum sendir út í bæ að leita að heppilegu húsnæði þar sem við gætum blásið út og verið alveg frjáls og þá fundum við þetta loft við Vatnsstíginn.

- Voru einhverjar ákveðnar og afmarkaðar línur í þessu samstarfi?

- Nei, þetta var allt mjög laustengt og fínt.Af sýningu Kristjáns Guðmundssonar í Gallerí Súm 1969.- Þú heldur fljótlega einkasýningu þar, er það ekki? Eftir að Gallerí Súm verður til?

- Já, um vorið eða sumarið 69.

- Gœtirðu kannski sagt okkur eitthvað frá henni? Bœkur, tómar flöskur, pokar, nótnablöð, föt, strauborð með hœnsna- skít og ljósi, - var þetta einhvers konar popp eða hvað?

- Ekki popp beint, kannski nær art povera, að nota það sem hendinni er næst. Já, það sem hendinni er næst líklega. Salatið og steinninn. Þetta dót hertist kannski á einum eða tveim stöðum uppí eitthvað sem gat staðið sem sjálfstætt verk, en svo rann það á rassinn á milli, var svona nokkurs konar umhverfisverk sem byggði mest á heildar áhrifum. Niðri í geymslu hjá mömmu fann ég t.d. tvo poka af gömlu fatadrasli og fannst tilvalið að sturta úr þeim þarna á mitt gólfið, svo fór ég og keypti þrjár sjálfsævisögur einhvers fólks, sem ég hafði aldrei heyrt getið og vissi engin deili á og vafði þessar bækur inn í tjöruband, læsti þeim án þess að lesa orð í þessu. Hengdi þær svo upp á vegg og þá virkuðu þær á mig eins og einhvers konar sprengjuhleðslur - heimur heillrar ævi læstur inni. Kannski til að undirstrika þessa tilfinningu var svo raðað tómum flöskum á gólfið fyrir neðan - því hvað er tómara og kraftlausara en tóm flaska?

- Hafðirðu kynnst svona hlutum í Evrópu?

- Ég veit aldrei hvar ég kynnist beint hlutunum - hvar kenndirnar síast inn í mann. En að kynnast manni eins og Dieter Roth var mikil hvatning á þessum tíma. Hann kom okkur í samband við Evrópu og Ameríku í vissum skilningi, Fluxus, konkret poetry og allt það. Hann var brautryðjandi og hafði miklu að miðla ef móttökuskilyrðin voru fyrir hendi. Magnús Pálsson var líka orðinn algjör bestía í myndlist á þessum árum og hafði sín áhrif- var t.d. búinn að sýna sín „bestu" stykki í Ásmundarsal. Jóhann Eyfells fannst mér líka oft skemmtilega fanatískur í sínum verkum. Svo þegar menn vinna mikið saman eins og við gerðum, Þórður Ben, Jón Gunnar, Hreinn, Sigurður og fleiri, þá eru stöðugar þreifingar á kenndum í gangi og mikið hugmyndaspan. Þetta skeður alltaf eins. Svo hefur bara hver sinn sálarneista og menn fá mismunandi fluglag í þessu eins og öðru. Mér finnst ég t.d. fljúga eins og skarfur - yfirleitt lágt og beint, Siggi bróðir flýgur hinsvegar í ýmsum hæðum og glettnislega eins og hrafn finnst mér. En nú er ég víst kominn út í aðra sálma. Sko, - svona getur listblaður leitt mann út í fuglafræði líka - það er kannski ekki svo slæmt. Gamli dadaistinn Kurt Schwitters talaði t.d. reiprennandi fuglamál - mörg meira að segja.

- Ári seinna varstu með aðra sýningu og annan efnivið en á sama stað?

- Já, það var eiginlega skúlptúrsýning sem samanstóð af 26 keppum af súrum blóðmör. Í hvern kepp var stungið járnpinna með pappaspjaldi sem á var letruð tilvitnun eða einhvers konar gull kom eftir frægt fólk. Og ég man eftir nokkrum setningum úr þessari sýningu eins og t.d. „Ef nefið á Kleópötru hefði verið örlítið lengra væri veraldarsagan allt önnur", eitthvað í þessum dúr, þú veist. „Setjir þú örn í búr mun hann bíta grindurnar hvort sem þær eru úr járni eða gulli". Og ein sem ég man líka: „Það sem í fyrstu virðist enn svartari þoka, kann að reynast skuggi leiðarvísisins". Voðalega heimspekilegar og fallegar setningar. Keppina setti ég svo beint á gólfið til að lofa fólki að beygja sig svolítið niður til listarinnar.Ljóð. Úr Performables, Silver Press, Reykjavík/Amsterdam 1970.- Voru fleiri verk á þessari sýningu?

- Já, ég var líka með „Performables and other pieces". Það er multiple-verk eða fjölfeldi, trékassi með pappaspjöldum með mismunandi efni. Það verk varð til í Stykkishólmi, en þar var ég að vinna í ruggustólaverksmiðju um tíma. Við ætluðum að skrifa bók eða gera eitthvað saman þar, við Einar Guðmundsson. En svo skildu leiðir mjög fljótlega. Ég gerði mitt verk og hann sitt. Hann skrifaði „Harry the Caveman" og ég bjó til „Performables". Eiginlega er ekkert meir um það að segja.

- Performables, hvað merkir það?

- Eitthvað sem hæft er til flutnings, framkvæmanlegt eða eitthvað í þá áttina. Á hverju korti er smá ljóð eða leikþáttur. Eitt kallaði ég t.d. „Sugar event" og á miða, límdum á, stendur „Sugar" og síðan „Cover the word sugar with sugar". Einfalt og dálítið í anda George Brecht. Litla regnljóðið er kannski best af þessum hlutum.

- Svo fluttirðu til Hollands þetta sama haust, en þú hélst samt tengslum við galleríið og varst þar með einkasýningu aftur 1972. Ertu þá með moldarverkið?

- Já, bara það. Það hét „Þríhyrningur í ferningi" og var þríhyrningur af vígðri mold í ferningi af mold. Þetta er formleikur undir sjónmáli, þar sem þríhyrningurinn hefur orðið fyrir alveg ákveðnu kúltúrsmiti.Þríhyrningur í ferningi, Gallerí Súm 1979, ca. 400 x 400 cm.Blaðsíða úr bókinni Punktar, Silver Press, Reykjavík/Amsterdam 1972, 15 x 18 cm.- Þú varst líka að vinna í bókum á þessum tíma, ekki satt?

- Jú, Punktar og Niður voru fyrstu bækurnar sem ég lét prenta, komu báðar út 72. Punktar er hugsuð sem ljóðabók. Það voru ljósmyndaðir þrír punktar í ljóðasafni Halldórs Laxness - valdir af handahófi. Síðan voru þessir punktar stækkaðir upp svona þúsundfalt og þá gerðar nýjar blýklisjur eða hvað það nú heitir - svona fyrir gamaldags bókþrykk. Mig langaði að sjá hvað ég gæti borið minnst á borð en efnt þó til veislu í bókmenntalegum skilningi - ljóðrænar þagnir, - gjörið þið svo vel. Ég valdi Laxness vegna þess að hann var örugglega nógu sterkur, bæði til að næra og líka til að þola svona sníkjugróður.

- En Niður?

- Niður er skrásetning á hugtakinu „niður" í landfræðilegri merkingu. Ef þú ert úti í geimnum, þá er ekkert til sem heitir niður. Þar er bara að eða frá. Niður er frá hæsta fjallstindi til mesta sjávardýpis, og ef þú ferð lengra en það, þá ertu farinn að fara inn í jörðina. Mér finnst gaman að finna fyrir þessum vaxandi þrýstingi eftir því sem aftar dregur í þeirri bók. Það stendur til að endurútgefa hana í Þýskalandi á næstunni hjá sama forlagi og var með Once around the Sun.Kristján Guðmundsson: Once around the sun, Silver Press 1975-76, endurútgefin hjá Ottenhausen Verlag, Aachen, 1982, 28 x 28 cm. Fyrra bindi: Tíminn sem jörðin fer umhverfis sólu. Hver punktur í bindinu jafngildir einni sekúndu. Síðara bindi: Vegalengdin sem jörðin fer á einni sekúndu (einum punkti fyrra bindis). Allar línur bindisins samanlagðar jafngilda þeirri vegalengd. krg001h.jpg- Hvað um Or?

Hún varð til í Devon þegar við fjölskyldan fórum í sumarfrí til vina okkar þar. Þau buðu mér að gera bók því þau voru með litla prentsmiðju og útgáfustarfsemi þarna. En ég vissi ekki hvað ég ætti að gera, svo ég skrifaði hana bara á spönsku að mestu leyti - enda voru þetta mest mexíkanar. - Og bara eitt orð í bókinni. Þetta eina orð var nú reyndar enskt - en vöntunin í bókinni er öll á spönsku.Blaðsíða úr bókinni Circles. Stedelijk Museum Amsterdam, nóv. 1973/jan.1974, 21 x 21 cm.- Circles, hvernig varð hún til?

- Hún var gerð í staðinn fyrir katalog á sýningu sem ég var með í Amsterdam haustið 1973. Þrem mismunandi stórum steinvölum er kastað í vatn og hringarnir sem myndast ljósmyndaðir. Hver hringur er svo prentaður á blað sem er jafn þungt og steinninn sem olli honum. Þetta er nokkurs konar stefnumót orsaka og afleiðinga. Þessi bók finnst mér alltaf mjög tóm en þó vel hlaðin. Kannski akkúrat eins og ég vil hafa það. Tómt og hlaðið í senn. Ég gerði líka eitt stórmerkilegt verk að mér sjálfum fannst á þessum tíma, sem hefur líka að gera með þungagildi, en það er málverkið af eðlisþunga plánetunnar Jörð.Málverk af eðlisþunga plánetunnar Jörð (málning á járnplötu, 507,33 gr / 91760 mm3, 1972-73)- Geturðu lýst því?

- Já. Ég sá í vasabók að eðlisþungi jarðarinnar er 5,52 og hugsaði vá! Gaman væri nú að mála mynd sem hefði þessa sömu eðlisþyngd því þá væri ég búinn að mála öll lönd og höf í einni mynd - allt heila klabbið í gegn! Svo gerði ég þetta eftir bestu getu.

- Úr hverju er hún gerð?

- Hún er máluð með akrýllit á járnplötu. Járnið er með ca 7 í eðlisþunga og málningin um 1.5. Svo var þetta spurningin um að finna út hvað átti að setja mikla málningu á plötuna til að ná þessum sama eðliþunga í verkið sem eina heild, sem sagt 5,52. Mig hefur alltaf langað til þess að láta mæla þessa mynd en ekki komið því í verk - því það er skemmtilegra að hafa hana rétt stillta. Ef hún er of þung þarf að bæta á hana málningu en ef hún er of létt í eðlisþunga þá þarf að skrapa svolítið burt af málningu. Þetta er nú ekki beint rómantísk vinnuaðferð. En svo gaf ég konunni minni myndina og þá varð hún rómantísk, fyrir mér. Það er líklega mjög jarðbundin rómantík.

- Þú tekur hluti og dregur þá saman í eitthvað eitt?

- Já, það er einhvers konar árátta, viss prímitífismi kannski. Ég fæ mest út úr einformungum, punkti eða línu. Einhverju hlöðnu, hlaðinni línu.Blaðsíða úr bókinni Drawings to Waterfalls, Bruxelles 1975, (kjölur vinstra megin), 15 x 18 cm.- Drawings to waterfalls, hvað um þá bók?

- Hún er gerð þannig að fyrst fann ég þrjá heppilega fossa á íslandskorti, teiknaði svo árnar að þeim - í gegn eins og krakkar gera stundum. Straumurinn kemur frá kili og fossarnir steypast allir út í sama punkti. Þeir sem eru mjög næmir segjast heyra daufan fossnið þarna við bókarkantinn. Mér finnst gott að láta svona eilífðarvélar eins og árstraum, snúning jarðar eða eitthvað í þá veru knýja verk, - gefa því inntak og potens í senn. Þó notaði ég þetta kannski meira áður, geri það ekki eins mikið núorðið. Gott dæmi um þessa viðleitni er bókin Once around the sun sem mun dingla umhverfis sólu með sitt tveggja tempo „beat" meðan nokkurt eintak er til af henni. Náttúru konseptualistar hafa fengist mikið við ýmiskonar beislun á svona frumkröftum. Bretinn Richard Long finnst mér vera einn helsti snillingurinn á því sviði. Ameríkanarnir ná þessu ekki alveg eins vel finnst mér.

- Svo er ein bók sem við höfum ekki minnst á, frá Frans Hals museum?

- Já, það er nokkurs konar katalógur. Ég hef aldrei verið sérlega spenntur fyrir henni. Hún er kannski of flöt, ég veit það ekki. Það sem ég vildi var að gefa bókinni sem formi alveg nýtt inntak. Ráðast á hana frá öllum hliðum og virkja hana á kræfari og beinskeyttari hátt en áður hafði tíðkast. Bæta í hana fýsískum gildum, þunga, hraða o.s.frv., beina henni í nýjan ljóðrænan farveg og fá þannig - einhvers konar „renaissance" í atómskáldskap. Þetta held ég sé inntakið í þessu bókastússi mínu.

- Hvenær ferðu að gera tímaverkin, jafntímalínurnar?Frá sýningu í Kunstmuseum, Luzern, 1975. Á myndinni má sjá (talið frá vinstri) Orsök og afleiðing, Yfirhljóðhraðateikningar og Registration Poem.- 74 eða þar um bil. En þessar hraðateikningar byrjuðu með því sem ég kallaði yfirhljóðhraðateikningar og voru gerðar hér með aðstoð vina minna uppí Leirdal sumarið 72. Þetta eru svona ca 30 sentimetra langar rákir eftir riffilkúlur sem var skotið og látnar sleikja pappírsarkir. Oftast splundraðist pappírinn gjörsamlega en það náðust tvær eða þrjár sæmilegar rákir út úr þessu, sem voru mest megnis brennt byssupúður. Þessar rákir urðu til á ca 1/1500 úr sekúndu, sem mér fannst óumræðilega fallegur tími. Þarna fannst mér ég loksins hafa eitthvað virkilega fínt í höndunum til að hampa framan í eilífðina. Og ná þannig eins miklu ójafnvægi og ég gat hugsað mér.

- En hver segirðu þá að hugmyndin sé með þessum jafntímalínum?

- Jafntímalínurnar eru miklu rólegra fyrirbrigði, enda notaði ég þær mest til að teikna einhvers konar tímajöfnur. Þær eru teiknaðar með sjálfblekungi á hálfgerðan þerripappír, annars er hægt að beita þeim á ýmsa vegu, það er t.d. hægt að teikna teningsmínútu á tvívíðan flöt með þessari tækni. Mér finnst alltaf eitthvað heillandi við það. Seinna fór ég svo meira út í tveggja hraða teikningar - vildi hafa þetta svolítið lausara og mýkra í sér. Það eina sem skeður þar er að hægari línurnar síga aðeins dýpra í flötinn og verða dekkri. Eftir það fór ég svo aftur að gera línur með föstum tíma og notaði þá einnar mínútu línur - stuttar og feitar. Með þeim teiknaði ég mest nokkurs konar landslagsmyndir eins og sólahringa, nætur og ýmiskonar þessháttar tímabil. Þessar línur eru í tíma, aðrar í rúmi.

- Nú virðist svona skýr hugsun um rúm og tíma einkenna flest þín verk. Hana er ekki að sjá víða í myndlist, a.m.k. ekki um þessar mundir?

- Það má vera að ég nálgist hlutina frá öðru horni og beiti annarri tækni en almennt gerist, en það eru flestir listamenn meira og minna að fást við rúm og tíma í einhverri mynd enda ekki tii neitt utan þessa fyrirbrigðis í rauninni. Hvað er það sem liggur utan rúms og tíma, draumarnir? Guð? Ég veit það ekki. En sjáðu til dæmis negatífur og pósitífur Magnúsar Pálssonar og tilfærslur hans á rými þar sem hann lætur gifsklumpa virka langar leiðir út frá sér á ýmsa vegu. Eða tímaskildi Jóhanns Eyfells svo ég taki tvö nærtæk dæmi. Núna í seinni tíð eru ungir listamenn kannski ekki að vinna beint með þetta - en þetta kemur alltaf upp aftur og aftur í einhverri mynd.Verk fyrir hægan og hraðan blástur. 1971. Blása upp sápukúlu / Blása í flautu.

- Varstu eitthvað í skúlptúr þegar þú bjóst í Amsterdam?

- Nei, ég hafði enga aðstöðu til þess og hugsaði eiginlega ekkert um skúlptúr. Samhliða þessum teikningum, sem við vorum að tala um áðan, gerði ég seríu af myndum sem ég kallaði Orsök og Afleiðing. Það eru abstrakt verk sem koma ekkert inná tíma - eru allt annars konar aðferðarstúdía. Eins fékkst ég soldið við að blása upp og sprengja bréfpoka á þessum árum, klippti svo út rifurnar og þá fannst mér ég vera með hvellinn í höndunum. - Gerði nokkrar svona hvell-collage myndir. Svo málaði ég landslagsmyndir líka, og geri enn, alltaf annað slagið. Mér finnst svo gott að ögra sjálfum mér og vinum mínum með þessu.Verk á sýningunni Bein í köldum ofni, Sweaborg í Finnlandi 1986. Á veggnum má sjá verkið Lengsta nótt á Íslandi (olía á léreft 1981), en á gólfinu eru Náttsteinn (granít 1986) og Hægar/Hraðar (grjótmöl 1984).

- Hvað er myndlistin þér innst inni? Tengist hún því sem er handan rúms og tíma?

- Einhver nauðsyn til að lifa, býst ég við. En ég hef aldrei tekið myndlist sem átrúnað, hef aldrei náð svo langt og langar heldur ekki til þess. Helsti kosturinn við list finnst mér vera hvað hún er hug hreinsandi. Hún er eins og tæki til að eyða meinlokum og ryðja burt þessum skoðanahaug sem við erum sífellt að drattast með. Svo býr hún yfir þessum dásamlega hæfileika að vega stöðugt að sjálfri sér. Mín vegna má hún svo bara halda áfram að vera eins og hvítvoðungurinn sem grætur, hjalar og skítur í sig, án þess að hafa nokkrar áhyggjur af afleiðingunum - þar er hún líka kannski næst Guði.Frá sýningu Kristjáns í Ásmundarsal í mars 1987. Á veggjunum eru verk án titils (blýantsteikningar á pappa, 1986-87) en á gólfinu Gráðubogi (járn, 1987), Náttsteinn (granít 1986) og Innsigli (terrazzo 1986-87)

Án titils. Blýantsteikning á pappa, 1986, 1,8 x 14,5 x 44,8 cm.

- Gœtirðu sagt eitthvað að lokum um sýninguna sem þú varst með í Ásmundarsal um daginn?

- Hún fór vel í þessum sal, fannst mér. Enda sá Ásmundur um lofthæðina og dagsbirtuna, sem er í fínu lagi þarna. Um sýninguna að öðru leyti hef ég fátt að segja - hún skýrði sig sjálf vona ég. Þetta er einhvers konar millispil sem ég veit ekki hvert leiðir, ég er að reyna að losa mig við eitthvað. Nú langar mig mest til að gera bara eitthvað lítið og grátt sem hefur bara með tilfinningu að gera, eitthvað sem er soldið veikt í sjálfu sér kannski, - einmitt já, - nægilega veikt til að úthýsa einhverju af þessari köldu rökhyggju sem mér finnst vera svo sligandi. Það er erfitt að losa sig við hana, en ég ætla samt að halda áfram að reyna.Án titils, 1987. Blýantsteikning á pappa. 1,8 x 18 x 135 cm.

Gráðubogi, 1987. Járn. 12 x 44,3 x 72 cm.Teningur, 01.05.1987
Hlekkur á gagn