Leó Anton Árnason

Listin kemur frá sannleikanunn


Ég mála og skrifa til að losa um tilfinningar.
Ljón Norðursins með málverkasýningu á Hótel Borg


- Þetta kemur í köstum - þegar ég mála - og kostar miklar vökur og spennu. Ég er þá mjög þjakaður. Ég hef málað þessar myndir síðustu þrjá mánuði og hef haft ómetanlega aðstöðu fyrir mig, hef setið hér, með vatnslitina mína innan um fólk og hefur verið alveg yndislegt hér á Hótel Borg. Ég mála mikið hús og skip, það er rétt, það er sama mótíviðsem kemur fyrir aftur og aftur en er aldrei eins. Þetta mótív sækir mikið á, hús og skip. Mig langar líka svo mikið til að byggja, ég er byggingameistari að mennt og þess gætir í myndum mínum. Ég leitast við að skapa eins fallegt landslag og ég get, fyrir mig persónulega. Skapa nýjan heim. Ég á orðið marga heima, sem guð minn hefur hjálpað mér við. Því allt er hans. Ekkert er mitt. Listgáfan kemur frá guði og ég trúi sköpunarsögunni allri.

- En hvaðan koma skipin í myndum þínum?

- Skipið er knörr sannleikans sem kemur að landi eftir erfiða sjóferð. Húsin og skipin eru symból, trúarlegs eðlis. Augað sem er fyrir utan lífið og horfir ofan í allt er guðs augað. Ég nota alveg sérstakt litakort, bara grunnlitina fimm. Ég er líka að berjast við að skapa minn eigin heim.

- Og í nýju myndunum þínum er fólk í engu landslagi.

- Þetta fólk er þögult og athugandi. Ég nota samspil lífs og þagnar. Ég hef miklar áhyggjur af fólki og samúð með því. Þetta er svo napur heimur. Daprari en í gær. Þó lifði ég fyrra stríð. En dapurleikinn var öðru vísi þá. Fólk leitar að lífi sem það þráir að eignast, en allt er í auðn og fótfestuna vantar. Það vantar að guð komi inn á sviðið. Guð gaf þrjár línur. Lárétta, lóðrétta og sporöskjulagaða. En hringnum var stolið frá honum. Það var aldrei meiningin að setja hjólið inn í menninguna. En það er sem sagt andinn, efnið og línan. Andinn er efninu yfirsterkari, sbr. eftirfarandi:

Skuggsjá lífsins skiptist á
Skuggar myrkurs birtu fá
oft má ei á milli sjá
hvort aflið betur hefur
því hér er svikavefur
sem oft á millum verður svæft
þó tjónið allt sé ekki bætt
Á verðinum syndugur sefur
Andinn hefur svikið efnið
Maður og kona liggja dauðadrukkin
eftir vímuna
Andi einstaklingsins verður að
vera efninu yfirsterkari
ef vel á að fara
Annars er allt í bölvan og basli.

- Þú ert að gefa út þína fyrstu ljóðabók um leið og sýningin opnar.

- Já, ég taldi mig ekki tilbúinn til þess fyrr. Það kom allt í einu hjá mér að ég fór að yrkja. Eins og það hefði orðið sprenging. Ljóðið sækir á og ljóð er ekki fullgert fyrr en mynd er orðin til og öfugt. Ég mála og skrifa til að losa um tilfinningar. Þannig er hægt að losa sig úr hömlum. Ég er mikill tilfinningamaður. Við gerum allt of mikið af því að dylja tilfinningar okkar. Ég hef tekið þann pól í hæðina að fara út í einveruna, þar sem ég get látið tilfinningarnar ráða. Ég vil gleðjast með glöðum og hryggjast með hryggum. En ég hef oft lent í útistöðum, vegna þess að ég opna fyrir allar mínar tilfinningar og reyni að standa við þær. En ég er á réttri leið og veit að allir vilja mér vel.

- Hvernig er að halda sýningu?

- Það er bæði léttir og ekki. Mér finnst svo óskaplega erfitt að selja. Síðast þegar ég sýndi seldust myndirnar upp á örskömmum tíma. Það var á Mokka og sumir keyptu fimm myndir. En ég hef aldrei málað meira en nú. Lífskrafturinn hefur ekki dofnað, bara þróast. Ég lifi enn lifandi lífi. Dauðinn er bara hugtak sem kemur og fer án þess að maður verði var við það.

Áfram er haldið eins og ekkert
hafi í skorist
Dauðinn er klœddur í dökkan
búnin
Hann hægfara staulast um héruð
og lönd

Hann svífur yfir fjöll
og læðist meðfram strönd
Klökuð er hans skáldahönd
í nótt hann kom að aðal dyrum
Ótilkvaddur af hérvist sinni
Sá var saddur


Sýningin er tileinkuð foreldrum Leós og haldin í minningu þeirra. Hún verður opin í fjórar vikur. Ljónið sýnir 120 myndir, en 40 í senn og verður skipt um vikulega. Þá er einnig komin út ljóðabók hans, Grjótrunni hugans, í 21 eintaki.

-EKJ
Þjóðviljinn, 06.12.1987
Hlekkur á gagn