Leifur Ýmir Eyjólfsson

Vasaviðtal #1: Leifur lætur gamminn geysa frá Berlín!


Leifur eru staddur í gestavinnustofu í Berlín og Blái vasinn í Belgíu (3 stór B hér á ferð) og því tilvalið að opna viðtalslið Bláa vasans á léttu spjalli við Leif – sem teiknað hefur ófá vasana – Kristín hóf spjall í gegnum skýin á google öld.Ljósmynd: Jamie CampellKristín: Við fréttum af þér í Berlín. Hvernig er það syndasela-bæli að fara með þig? Hvað er verið að bauka?

Leifur: Ég kann bara nokkuð vel við mig hérna í þessum menningarpytt, það eru allir svona frekar afslappaðir hérna, vinalegir og kurteisir. Ég geri nú ekkert mikið í einu hérna, (ég hef verið að dunda mér við að vera alltaf á íslenskum tíma og stilla aldrei vekjaraklukkuna.) Ég hef verið að æfa mig í því að gera eitt í einu. Einn dagur í einu, kannski eins og einn kebab á dag, einn. Æfa sig í því að vera einn. Ef ég fer útaf vinnustofunni þá er það stór ákvörðun. Ég þarf að finna lyklana og veskið og vera búinn að hlaða símann mjög vel og vandlega. Ég lenti í því um daginn vera alveg týndur og batteríslaus. Þá fór einhvern veginn allur dagurinn í það að vera villtur. Ég keypti mér svo skemmtilegt fyrirbæri um daginn eftir sem heitir Power Bank, orkubanki sem ég get verið með í vasanum. En svo hef ég ekkert nennt að vera með hann ég passa mig bara að hlaða símann. Svo er ég búinn að vera æfa mig í því nota google maps, það byrjaði svona frekar brösulega ég skildi ekkert hvert örin var að snúa og var alltaf að labba í vitlausa átt. Það endaði með því að ég var kominn eitthvað lengst uppí rassgat, gafst þá upp og tók leigubíl. Alltaf hressandi að gefast upp.


Nota ferðina á hælasokkum


Leifur: Svo þarf maður alltaf að vera nota ferðina. Þegar ég ætla út þá má ég í fyrsta lagi ekki vera búinn að ætla mér að gera of mikið. Ég ætlaði að fara um daginn á þrjú söfn sama dag það var alger vitleysa. Svo þarf ég að passa mig að vera alltaf með lyklana það er heilmikil vinna. Svo þegar ég fer út þá er það eins og labba niður Esjuna. Það er einhvernveginn alltaf að bætast við ný og ný hæð. Svo þegar ég er búinn að flokka allt ruslið sem hálfur dagurinn fer í þá þarf ég að nota ferðina og taka ruslið með mér. Svo skil ég ekkert í hvað á að fara í hvaða tunnu. Svo þegar þessu er lokið er ég orðinn alveg úrvinda og fer beint aftur upp á vinnustofuna. Þetta myndi flokkast sem nokkuð góður dagur. Þegar regluverkið er farið að gerast íþyngjandi í ruslaflokkuninni hef ég leitað á náðir rugludallsins. Sá dallur hefur frjálslegra yfirbragð og er stundum notaður spari sem hrákadallur.

Ferðin byrjaði með látum og mikið sem þurfti að fara skoða og upplifa. Það var eins og að labba á vegg þegar ég kom hérna í nýja ullafóðraða hnausþykka jakkanum mínum, ég ætlaði að taka lopapeysuna með þar sem ég fer yfirleitt aldrei neitt (án þess að hafa hana meðferðis). Ég svitnaði mikið. Ég var eiginlega búinn að gleyma því hvernig það er að vera í svona miklum hita. Þannig að ég þurfti að fara versla mér stuttbuxur, léttan bol og svona sokka sem eru frekar asnalegir og lágir. Held að þeir sé kallaðir hælsokkar. Stundum verður maður bara að kyngja stoltinu og ganga um í hælsokkum af praktískum ástæðum. Svo komu slatti af moskítóflugum sem höfðu einhvernveginn bara áhuga á því að bíta mig á því svæði sem venjulegur sokkur myndi hylja. (Svo var ég að heyra að moskítóflugur hafi sérstakt dálæti af liðamótum.) Þannig að ég er svona til skiptis í venjulegum og svo öklasokkum.

Kristín: Þetta hljómar allt kunnulega… síminn dauður og power bank týnt og tröllum gefið, æfing í einverunni, hugsa um eitt í einu svo allt fari ekki í einn graut sem hleypur í kekki.. já, ég lenti meira að segja sjálf í því um daginn að vera í ullasokkum í hitabylgju í Berlín, þar sem allir hinir sokkarnir voru óhreinir og lét til leiðast að kaupa mér þessa hælasokka í næstu sjoppu – bíddu heita þeir ekki öklasokkar… ferlega óþægilegir

(Þeir heita sennilega ökklasokkar en leka svona soldið niður á hælinn.)

En hvernig er stemmingin á vinnustofunni? Stórborgir eru frekar og miklar orkusugur… en maður getur þó allavega unnið úr mannlífinu og öllu draslinu sem á vegi manns verður… svo er maður alltaf að komast að einhverju nýju um sjálfan sig. Ekki satt?

Leifur: Ég á mér hobbý sem er að Sport-setjast niður á einhvern bekk. Velta þessu fyrir mér og skoða hvað aðrir eru að bauka. Ég átti mjög skemmtilegt móment um daginn þegar ég aðstoðaði hjón frá Nígeríu með snjallsímanum mínum og gat vísað þeim til vegar. Í gær gat ég lánað ungum manni frá Sómalíu fyrir bjór og sígarettum. Hann var flóttamaður, kunni ágætlega við sig og var nokkuð hress miðað við aðstæður. Ég hef sérstaka ánægju af því að Sport-sitja á bekk á sunnudögum á skranmarkaðnum sem er hérna rétt hjá.Þennan dag var Leifur ekki í hælasokkumJá stórborgir hafa þann tendense, ég byrjaði á því fyrstu vikurnar að æða út um allt. Það er alltaf fyrsta hugmyndin að reyna gleypa borgina. Ég klúðraði þessu einu sinni þegar ég var í París þá fór ég sama dag á Pompidou og Louvre. Ég var lengi að jafna mig á því á sálrænt og svo nokkra daga líkamlega vegna nuddsárs. Eftir það ævintýri fer ég aldrei illa skeindur á listasöfn.


Kebabinn og undirmeðvitundin


Leifur: Síðustu viku og daga hef ég verið að einbeita mér einfaldlega að hverfinu sem ég er í Friedrichshain, það er svona þægilegra. Það er Kebabstaður við hliðina á útidyrahurðinni sem ég hef verið að fara á hann en svo var ég kominn með leið á honum þannig að ég fór að labba soldið yfir götuna á hinn staðinn, Best of Kebab. Eftir á að hyggja var það ákveðinn æðibunugangur. En svo er þetta allt sami kebabinn.

Jú maður er eitthvað að vinna í þessu sem ég veit þó ekki alveg hvað það er sem ég er að vinna í. Það er sennilega galdurinn við það að fara í gestavinnustofu. Maður er að taka eitthvað inn til að stríða undirmeðvitundinni. Það verður sennilega nóg að gera hjá henni.

Sennilega er ég að komast að einhverju nýju en mér finnst ágætt að hugsa um þetta sem æfingu. Maður kemst ekkert langt frá sjálfum sér. Það var einn góður maður sem sagði mér það að maður sé bara eitthvað að æfa sig. Undanfarið hefur mér verið mjög hugleikið: Hvað þarf ég og hvað vil ég. Það getur orðið frekar þreytandi æfing til lengdar þannig að ég reyni að gera bara eitthvað.

Kristín: Já undirmeðvitundin vinnur vel og lengi… hún er veður ekkert út í bláinn og buskann. Hún meltir matinn vel en kebabbinn getur reynst þungur í vöfum – best að skola honum niður með fljótandi jógúrti í dollu svo hann meltist sem mjúklegast og tefji ekki sköpunarferlið.

Leifur: Ég er reyndar með verkefni sem er svona aðalverkefnið hjá mér um þessar mundir sem er bókverk. Það er alveg að smella og ber vinnuheitið: Is this a book // This is a book”. Ég er að handprenta það í 40 eintökum hérna á vinnustofunni. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom var að heimsækja listavörubúðina, þá þarf maður virkilega að æfa sig í því að hemja sig. En ég labbaði út með allar græjur til að geta prentað.

En aðalverkefnið mitt hér er áframhaldandi vinna við grafík. Til að gera langa sögu stutta þá hef ég starfrækt verkefnið Prent og vinir ásamt kollega mínum Sigurði Atla Sigurðssyni. Verkefnið er þá einfaldlega Prent og Vinir (útibú). Ferðagrafíkverkstæði. Hugmyndin bakvið ferðaverkstæðið er að það geti opnast upp hvar og hvenær sem er. Það fer vel í hendi og er patent og fúnktional.


Texti og ferðagrafík


Kristín: Það er annars ekki tilviljunin ein að þú situr fyrir í fyrsta viðtali Blá vasans… þú hefur gaman af því að skrifa? Og einhvers staðar las ég að þú hafir ætlað að verða skáld? svo las ég í viðtalið við Dieter Roth (sem mér dettur í hug þar sem þú vinnur að bókverki) að hann hafði mest gaman að því yrkja ljóð… og hafði mikla skáldadrauma… en honum fannst svo of mikið volæði og væmni í því sem hann skrifaði. Er það eitthvað sem svipað hjá þér, eða tengir þú við það?… er svo mikill munur þar á milli ritlistar og myndlistar?

Leifur: Ég hef enga sérstaka skoðun, hef ekkert mikið um það að segja eða jú kannski aðeins … Já maður kemst ekki hjá því að tala um Dieter Roth hann hefur verið áhrifavaldur. Hann er seigur. Já ég var held ég bara ómeðvitað að herma eftir mörgum myndlistarmönnum sem hafa verið eitthvað að væla yfir því að þeir hafi viljað vera ljóðskáld. (En svo er þetta allt saman gott í bland.)

Já ég get alveg tengt við það að þetta verði oft soldið vælið. Þess vegna hef ég reynt að forðast það að skrifa mikið ljóð. Ég reyni bara svona að gera það á kærulauslegan hátt annars fer ég að væla. Ég get viðurkennt það að ég sé búinn að vera hripa eitthvað hjá mér hérna í hobbýinu mínu að Sport-setjast niður á bekk, en það er allt frekar vitlaust. Það er svona mest stutt og laggott. Það er kannski trixið að hafa þetta bara nógu knapt og loka svo bókinni áður en maður fer að skæla.

(En til að svara þessari spurningu þá heldur myndlistin kjafti á meðan ritlistin getur hvorki orða varist né bundist.)

En ég hef verið að skoða verk eftir Ilya Kabakov sem mér finnst vera mjög innblásandi. Ég held að það sé óhætt að segja að hann sé orðinn áhrifavaldur. Ég hef séð nokkrar innsetningar eftir hann sem hafa heillað mig og núna síðast hérna í nútímalistasafninu. Ég verslaði mér bók eftir hann. (Hún er gott dæmi um skemmtilega blöndu rit og myndlistar.) Hún heitir A Universal System of Depicting Everything.

(Mér finnst Hanne Darboven líka alveg frábær og innblásandi. Ég fór á tónleika í tengslum við sýningu hennar hér í borg. Það voru orgeltónleikar sem seint eiga eftir að renna úr minni. Það er eitthvað sem er skemmtilega gamaldags að gera orgelverk, maður þarf kannski að fara skella í eitthvað hrikalegt orgelstykki.)

Kristín: Ég ætla að gúggla Ilya Kabakov… hann hringir einhverjum bjöllum, jú ég sá rosalega innsetningu Móðir og sonur í Schaulager í Basel, komin tími til að ryfja hann upp. En ég ætla líka að færa mig yfir á næsta kaffihús… það er byrjað hækka ískyggilega í Stevie Wonder. Kasta á þig einni spurningu á meðan ég fikra mig nær dómkirkjunni… í leit að ró og næði.

Leifur: Haha ok

Kristín:Þú málarðu og hnoðar bláa vasa… viltu segja okkur stuttlega hvernig það kom til?

Leifur: Það hefur einhvern veginn þróast þannig að ég fór að blanda mikið saman texta og mynd. En svo líkt og með bláa vasann sem ég var mikið að mála og teikna á sínum tíma og dúkkar oft aftur upp þá var ég að hugsa mikið um hvernig myndir eru byggðar upp, þ.e. Myndbyggingu. Mig langaði að einangra vasann með nokkrum blómum, sleppa alveg öllu hinu. En svo hefur þetta verið með mörgum tilbrigðum. Blái vasinn varð óvart fyrir valinu þar sem ég hef gaman af útjöskuðum klisjum sem mótívi. Mér fannst spennandi að reyna halda keflinu gangandi þar sem það virtist vera algerlega ómögulegt. Eins og að segja sama brandarann aftur og aftur og vona að einhver brosi smá.

Ég hugsa líka oft mikið um titla á verkum, þar er auðvitað alltaf texti til staðar. Mér hefur fundist það áhugavert hvernig texti getur virkað myndrænt. Ég gerði verk fyrir sýningu í Kling & Bang Gallerí sem fjallaði að miklu leiti um þetta og ég var að spyrja sjálfan mig hvort ég gæti gert mynd sem er ekki mynd í eðli sínu. (og þá bara texti sem mynd). Myndin er það sem áhorfandinn býr til sjálfur. En samt sem áður vann ég það verk á mjög klassískan hátt með hefðum olíumálverksins þannig að úr varð svona skítamix af texta og mynd.

En lítill texti getur verið góður í hófi. Mér hefur verið hugleikið allt það sem er staðlað eða Standard. Útfrá því hafa sprottið þónokkur verk. Það er þá eins og leikur. Standard afstrakt, standard landslag og standard portrett.

Leifur: Ertu kominn á kaffihúsið?

(... stuttu seinna ...)

Kristín: Jæja, komin yfir á næstu búllu með nefið ofan í Dómkrikjunni – prýði bæjarins, þar er víst altaristafla eftir meistara Rúbens, hana á ég eftir að skoða vel einn góðan veðurdag… þessi staður gegnur undir nafninu Púðlan í höfuðið á púðluhundi sem stjórnar öllu skrallinu… hér finnst Baldvini og Völu gott að fá sér einn gráan í sólinni eftir langan vinnudag, gekk brösulega að tengjast internetinu, gamli karlinn á barnum er önnum kafinn að þjóna fólki hnausþykka bjóra í kúptum glösum á háum fæti… hér er annars mikil breidd í mannlífinu og torg úr skínandi gulli – sennilega frá Kongó… í fjarska er spilað Titanic lagið á rafmagnsfiðlu… andrúmsloftið eins og í sökkvandi skipi en við erum víst í sökkvandi landi. En humm… hvar vorum við…


Standard Still Life í 3D


Leifur: Ég held að það hafi verið brosað smá þegar ég yfirfærði hann yfir í þrívídd annars veit ég það ekki. Í því verki Living Room sem ég vann fyrir verkefnarýmið Harbinger þá langaði mig að gera þrívítt málverk. Ég var búinn að vera mála margar myndir og teikna sama mótívið. En þá hafði ég bætt við stól, borði og rými með glugga. Mér fannst það vera mest Standard Still Life sem hægt væri að gera.

En ég held að það þessi leikur og leit að myndbyggingu hafi alltaf verið ríkjandi hjá mér. Prófa að einangra vasann. Hvað gerist ef það er bara eitt blóm í vasanum og svo hvernig blóm eru í vasanum o.s.frv.Kristín: Fórstu með einhverja ákveðna hugmynd að „verki“ í ferðatöskuna frá Íslandi í gestavinnustofuna eða kannski alveg tómhentur – lætur stað og stund teyma þig áfram? Hvernig er ferlið vanalega hjá þér?

Leifur: Pælingin svona óbeint var að búa mér til lítið ferðagrafíkverkstæði. Það má segja að það verkefni sé komið aftur á byrjunarreit hjá mér. Ég var svo með þetta bókverka verkefni sem verður einskonar póstlistaverk og verður sent á milli á norðurlöndunum og víðar. Ég fæ svo sent til baka bókverk frá öllu hinu bókagerðar fólkinu. Þetta er svona skemmtilegt samkurl.

Maður er sennilega bara alltaf í einhverju ferli meðvitað og ómeðvitað. Mér hefur þótt ágætt að búa mér til einhverskonar kerfi eða leikreglur og reyna að fylgja þeim (þangað til maður kemst í ógöngur.)


PRENT & VINIR

Yfirlýsing:

• Veltum fyrir okkur mörkum aðferða og hugmynda, hvenær tekur aðferð yfir hugmynd og vice versa.

• Nálgumst prentmiðilinn útfrá tilraunagleði.

• Höfum vinnuumhverfi okkar girnilegt svo það hvetji til sköpunnar.

• Tölum ekki um misstök, verum óhrædd við að gera misstök í prentferlinu, notum þau til að læra betur á þær mismunandi aðferðir sem prentmiðillinn býður upp á.

• Í upphafi vinnuferlisins er bannað að hafa hugmynd sem inngangspunkt inni í aðferð, látum aðferðina leiða okkur inni trací hugmyndina, seinna er hægt að dýpkta hugmynd útfrá aðferð.

• Tæknikunnátta er óþarfi í byrjun, hún er kemur með áhuga og æfingu.

• Bannað að vanda sig of mikið og gera það sem er gerilsnautt, en samt alltaf að vanda sig og sóða ekki út vinnustað.

• Hugsum með höndunum og vonum að hugur fylgi með.

• Hendum prentverkum sem við erum óánægð með, notum ruslatunnuna sem verkfæri, ef ekki skellum við því í ramma og seljum það.

Leifur Ýmir og Sigurður Atli
Reykjavík 2016


Kastað í djúpu laugina af Jóa Prent


Kristín: Þetta er almennilegt manifestó! Ætlaði einmitt að fara að spyrja þig út í kennsluna… þú hefur eitthvað fengist við það upp á síðkastið. Hvernig virkar hún á þig.

Leifur: Einmitt. Jú okkur kollegunum var kastað útí djúpu laugina af honum Jóhanni Torfa. Við reyndum að taka saman samræður okkar varðandi hvernig við höfum nálgast prentmiðilinn í þessari yfirlýsingu og notuðum það sem einskonar leiðarstef eða útgangspunkt í kennslunni.

Verkefnið Prent og Vinir fór að vinda svolítið upp á sig og allt í einu vorum við bara komnir með það sem okkur hafði dreymt um; okkar eigið litla grafíkverkstæði, sem þó getur tekið á sig ýmsar myndir eftir aðstæðum. Okkur var boðið að vera með námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík og okkur langaði að gera því góð skil. Það endaði með því að við sýndum ásamt rúmlega 30 nemendum í Nýló sem einskonar viðhengi við afmælissýningu Boekie Woekie.

Útfrá því námskeiði bauð Jóhann okkur að leysa sig af á Prentverkstæði Listaháskólans í eina önn. Það var mikið tækifæri fyrir okkur og mikil reynsla að fá að vera hinum meginn við borðið í hlutverki kennarans og umsjónarmanna prentverkstæðisins. Líka mikill heiður og ánægja að starfa á vinnustað þar sem allir eru að gera sitt besta. Ég verð að viðurkenna að mér fannst ég ekkert kunna neitt í grafík og leit á mig sem stúpið amatúre. En ég vona að ég hafi eitthvað geta nýst þarna. Ég fattaði nefnilega þegar leið á önnina að ég kunni nú ekki mikið en þó eitthvað aðeins sem ég gat miðlað áfram. Ég lærði mjög mikið af þessu og þetta brýndi mig. Þegar það var rólegt á verkstæðinu gat ég gert tilraunir sjálfur. Grafík aðferðirnar eru svo margar og mismunandi og maður getur endalaust verið að bæta við sig. En svo hefur mér stundum þótt það fyndið að hugsa bara að maður er einfaldlega að reyna klessa bleki á blað. Svo til að vísa aftur í einn annan góðan mann sem hughreysti mig einu sinni við þegar ég var eins og auli að fá mér kaffi á kennarastofunni að stundum er maður nemandi en stundum kennari og svo aftur nemandi.

Kristín: Viltu tala aðeins meira um áhrifavalda? Áttu þér uppáhaldstímabil eða stefnu?

Leifur: Hhmm, veit ekki. Veit ekki hvort ég eigi að vera gefa það eitthvað upp.

En konseptið náttla, dada, bókverk, innsetningar, still life, ég hef stundum litið svo á að það sé alltaf falið gjörninga element í verkum mínum. Jaa og eitthvað alskonar, veit ekki alveg með þetta, óþarfi að gefa allt upp. Bara eitthvað konsept og vinir mínir, þeir eru áhrifavaldar...

Kristín: Þú talar um að hafa vinnuumhverfi ykkar girnilegt svo það hvetji til sköpunnar… hvað felst í girnilegu vinnuumhverfi? blóm, heitt á könnunni, kleinur til að grípa í…?

Leifur: Já manifestóið talar soldið fyrir sig sjálft. En mér þykir það mikilvægt að hafa vinnuumhverfi sitt þannig að það sé hægt að byrja að vinna ef eitthvað kemur yfir mann, ekki þurfa að byrja á því að þrífa allt og þá er kannski mómentið horfið. Maður a.m.k reynir það. Líka í prentinu þá hefur það svo mikla tilhneygingu að allt subbist út um allt. Maður reynir að hafa það ekki þannig.


Skúlptúr er ekki bara skúlptúr


Kristín: Aðeins aftur til sýningarinnar Living Room… þú skilgreinir það sem málverk frekar en innsetningu eða skúlptúr, t.d eins og borðið sem þú smíðaðir, er sá nytjahlutur ekki verk í sjálfum sér eða heldur bara hlutur af heildarmynd? hvar var borðið í huganum þegar þú varst að smíða það, langaði borðinu að vera skúlptúr kannski?

Leifur: Ég leit á það verk sem skúlptúr af málverki. Eða þá innsetningu af málverki. Þetta var held ég alveg hrein innsetning ef maður á að fara út í þá sálma að skilgreina sig sem maður reynir að forðast. Ég hef alltaf verið hrifinn af nytjahlutum og gert nokkur verk sem eru fúnktíonal. Funtíonal objeckt.

Borðið er að sjálfsögðu nytjahlutur og er á vinnustofunni heima sem borð. Það fer svo bara eftir samhengi hvenær borðið er ekki borð og hvenær pípan er ekki pípa. Haha, veit ekki. En það var mikill hausverkur að smíða þetta borð. Mig langaði að nota íslenskan efnivið og pantaði lerki frá Hallormstaðarskógi. Borðið er í hámarks nýtingarlengd á viðnum. Borðið gæti kannski verið prótótýpa að borðhönnun. Ég var að reyna hafa það alveg eins og standard borð gæti litið út með standard bláum vasa á með standard blómum í. Ég var svo að brasa við að reyna hafa það allt skakkt þannig að það svipi til málverkanna. Það er miklu erfiðara að smíða skakkt en beint. Maður er bara að koma sér í eintóm vandræði, gaman að því. En það er gaman að glíma við eitthvað sem maður hefur ekki gert áður og maður lærir mikið í ferlinu. Það kemur kannski líka inn á það að þykjast geta gert allt sjálfur, það er stundum ákveðið rugl að vera skítamixari. En ef að faglærður húsgagnasmiður hefði smíðað borðið þá hefði útkoman verið allt önnur.

Kristín: Jú allt er þetta samhengið! … vasi er ekki bara vasi.. hann er rassvasi, blómavasi... svo er hægt að vasast í hinu og þessu. Þú ferð kannski næst á smíðaverkstæðið í LHÍ. – Nota ferðina!

(Ekkert svar).

Leifur: Ég myndi sennilega bara hamra þumalinn á mér.

Kristín: Hvað á að fá sér í kvöldmat? sambandið að verða slitrótt, á torginu hefur verið skipt út fiðluleikaranum fyrir harmonikuleikar sem spilar af miklum krafti: Lok, lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli…

Leifur: Hæ! jú ágætis pæling, ég er eiginlega orðinn alveg ruglaður. Að pæla svona mikið í því sem ég er að gera og hef verið að gera. En sennilega er þetta á gott á mig.

... nokkrum tímum síðar...

Kristín: Ég ætla út að hjóla og hreinsa hugann… hér er heldur ekki þverfótað fyrir bananaflugum.… hjóla í gegn um hnattvæðinguna upp í Borgerhout, þar dóla karlar sér allan liðlangan daginn úti á götu í litríkum kuflum, sötra te og spila Rummikub og mér verður hugsað til Leifs og Evrópusambandsins… tíminn er annar í þessu hverfi og allt á rúi og stúfi eins á vinnustofu listamannsins, en fýsilegt er það og allt til alls… þar er lítið veitingahús sem heitir Dilbí… sem býður upp á kræsingar matreiddar upp á sýrlenskan máta fyrir slikk, þar finnst Gullu og Helga gott að setjast niður og gera vel við sig á milli stunda, þar er innifalið súrsað grænmeti í forrétt – til að hjálpa aðalréttinum að meltast og viðhalda heilbrigðri þarmaflóru.


Óvissan


Kristín: Er ekki ágætt að líta til baka… fá smá retróspekt? Þegar þú ert t.d. inn í miðjuferli, með hausverk að smíða skakkt borð – geturu líst tilfinningunni? dveljum aðeins í ferlinu og óvissuþættinum.

Leifur: Jú það getur verið það, ég er alltaf meðvitaður um að þetta gæti klúðrast. Það er alltaf ákveðinn áhætta sem maður verður að taka. En þá klúðrast það bara og maður reynir að klúðra þessu aðeins minna næst. En svo er maður kannski lélegur dómari á það sjálfur, eitthvað sem manni finnst vel heppnað finnst öðrum ekki. Þarna erum við reyndar kominn á mjög hátt flækjustig varðandi, klúðrið það er efni í sér viðtal.

Kristín: Já það er sér kapítuli… það verður gefin út klúðurbók – Lof klúðursins. Bíddu, sá einmitt sýningu í Brussel um klúðrið í seinustu viku – það er að koma sterkt inn (aftur kannski?). Og bók sem var gefin út samhliða sýningunni.

Leifur: Ok einmitt, mér finnst þetta mjög áhugavert ég er búinn að vera lesa nokkrar greinar… en já ferlið hjá mér er oftast mjög langt, það er eitthvað sem er að byggjast upp og þróast, tekur á sig ýmsar myndir. Ég gef lítið fyrir spontant hugmyndir. Hugmyndavinna, skissuvinna, módelgerð etc. En byrjar oftast bara í lítilli skissubók. Mér finnst samræður mjög mikilvægar og ég leita alltaf eftir þeim við vini og kunningja. Tala um einhver smáatriði, allt og ekkert. Gott að eiga góða vini sem geta sagt manni að hætta bara við þetta rugl. Ég stend mig oft að því að vera fara fram og til baka þangað til að ég tek endanlega ákvörðun, sem er alltaf snúið. Óvissan er auðvitað stór hluti af þessu og er óþægileg.

En þá kannski gaman að vísa í verk Kristinn E Hrafnssonar: „Stöðug óvissa“. Maður er sennilega alltaf í stöðugri óvissu, eða þá stöðugri mótsögn við sjálfan sig

Kristín: Já, vitur maður sagði að maðurinn væri mótsögn… allt heila klabbið ein stór mótsögn, búið að afsanna mótsagnalögmálið er það ekki? þá allvega dottið úr tísku … og óreiðukenningin stendur ein eftir. Þetta þrífst allt best í andstæðum með dass af jógúrtgerlum og rennandi vatni.

Leifur: Nú!, það er verið að röfla um þetta örugglega alveg fram og til baka, ég gerði eitt grafík verk sem heitir einfaldlega bara / Sammála / textaverk, bara fínt að vera alltaf sammála öllu og öllum.

Ég hef verið að reyna æfa mig í því að vera ekki að gera hlutina á síðustu stundu korter í opnun. Mér hefur fundist betra að eiga smá tíma með verkinu eftir að það er tilbúið. Ég hef stundum hugsað eftir að ég hef klárað verk og sýnt það að þetta muni ég nú aldrei gera sjálfum mér aftur, en það lagast kannski smá í hvert skipti. En svo er ég oft bara að endurvinna eldri hugmyndir eða vísa til baka í sjálfan mig. Taka eldri hugmyndir lengra, en svo kemur oft að svona ákveðinni tæmingu og þá er verkið að verða tilbúið í bili. Ég hef talað stundum um þetta eins og að halda mörgum boltum á lofti. Ég þarf alltaf að vera vinna í nokkrum verkum í einu. Maður er að bíða eftir að eitthvað þorni þá notar maður tímann í eitthvað annað á meðan. Kannski er það mælikvarðinn þegar maður er kominn með uppí kok þá er verkið tilbúið, en svo er þetta aldrei tilbúið. Þetta verður aldrei tilbúið.


„Þetta verður aldrei tilbúið“ verða síðustu orð Leifs að sinni. Það væri hægt að halda lengi áfram. Hann í Berlín og ég í Belgíu, það er föstudagur og farið er að rökkva… fólk komið á stjá og senn verða helgisiðir iðkaðir hvort sem er hjá sönglandi gyðingum eða dansandi heiðingjum, klúbbur allra framundan í öllu sínu veldi… hér á götum úti eru strangtrúaðir teknir að streyma í stríðum straum – svartir silkisloppar, hvítir hnésokkar, barmastórir loðhattar, það stendur mikið til – það á að dansa, leysa lífsgátuna undri hálfu tungli og sjöstjörnu ekki frábugðið strangflatarlistamanni með alpahúfu í París forðum daga leitandi að hinu eina sanna „komposisjón“ og allsekki ósvipað Leifi í Berlín með lykla í hönd og google leiðarvísirinn sér halds og trausts – korter í sýningu, með tilbúið verk, korter í heimsenda.. óneii, Leifur er ekki á leið á klúbbinn hann situr eflaust stóískur á bekk og lætur andann finna sig í stað þess að æða eftir honum hlaupandi með ferðagrafíkverkstæði í bakpokanum… hugsi yfir þessu öllu saman, samhengi alls í heiminum, mótsögninni, heima er best & bæjarins bestu pulsur.

P.S.
Leifur hugsar með sér að loknu viðtali:

Þá er bezt að fara núllstilla sig á Mc D. segjum engum frá því. Fara hvað? Fara til útlanda til þess eins að átta sig á því að heima er bezt. Villast útí rassgat og eyða pening í leigubíl til hvers? Þá er nú betra heima setið og láta taka sig í þurrt af bjarnabófunum. Til hvers að vera fara eitthvað yfir höfuð þegar heima er bezt. Eins og einn góður maður sagði við mig þá verður alltaf einhver að vera heima. Hvernig væri heimurinn ef það væri aldrei neinn heima. Hvað væri að sjá fyrir ferðamenn ef enginn væri heima.

Heimskur jafnan heimakær, það er bara kjaftæði. Aldrei var höfundur Tinna eitthvað að æða til útlanda, þá var ekki einu sinni til google, bara alfræðiorðabók. Maður getur bara skoðað þetta í tölvunni. Það eru alltaf að koma einhverjir túrhestar til Íslands er það ekki nóg. Er það ekki sami kebabinn að rabba við einhvern túrhest niðrá Lækjartorgi og á Alexsanderplatz. Eftir á að hyggja verð ég að slafra ofan í mig aftur, extra scharf, rausið varðandi hinn fyrirsjáanlega sem flytur til Berlínar í leit að ódýrari kebab.

Blái vasinn, 2017