Nína Tryggvadóttir

„Málverk á að lifa sínu eigin lífi"Viðtal við Nínu Tryggvadóttur, listmálara


„Listamaðurinn má ekki verða einangraður frá fólkinu eða þjóðinni." Þannig fórust Nínu Tryggvadóttur orð, er við hittum hana að máli á dögunum. Við heimsóttum listakonuna í vinnustofu hennar og byrjuðum að skeggræða almennt sinnuleysi eða tregðu fólks til að leggja heilbrigt mat á ýmsar nútíðarlistir og rangsnúið viðhorf margra til óhlutrænnar (abstrakt) listar. Til þess að fólk styðjist ekki eingöngu við listdóma „fagurfræðinga" á borð við þá Jónas frá Hriflu og Jón veðurspámann eða Morgunblaðsorra, sem nú um fjölda ára skeið hafa verið einvaldir listdómendur, þá finnst Lífi og List orðið tímabært að kynna önnur sjónarmið en þau, er ráða listasmekk þessara þriggja fyrrgreindu listfræðinga og allra þeirra mörgu áhangenda. Þess vegna báðum við Nínu um að segja nokkur vel valin orð.


Mér finnst allir Kínverjar eins, en . . .


Fyrst byrjum við að rifja upp gamlar þulur um abstraktlist eins og: Þetta gæti ég nú gert. — Þetta er óðs manns kák. Öll þessi abstrakt-list er alveg eins. — Hún er kannske oft áþekk, sagði Nína, ekki fremur en mér finnst t. d. allir Kínverjar eins, og ætli því sé ekki svipað farið með Kinverjana, að þeim finnist við hvíta fólkið alveg eins, fljótt á litið. Ef myndir eru aðeins skoðaðar á yfirborðinu, þá er ekki hægt að búast við miklu.Skál á borðiMálaralistin er bókmenntir engu síður en annað.


— Margir hverjir halda því fram, að málaralist eigi ekkert skylt við bókmenntir og varast beri að rugla þessu tvennu saman. Hvað telur þú?

— Þetta er alrangt. Auðvitað er málaralistin bókmenntir — og nánar tiltekið hárnákvæm vísindi. Öll list er í nánu sambandi við mannlííið á hverjum tíma. Með aukinni þekkingu og framför í vísindum hefir mönnum opnazt nýr heimur í málaralistinni engu síður en á öðrum sviðum mannlegrar starfssemi.


Náttúrustælingar og óhlutræn list.


— Við vitum nú, bætti Nína við, að í smásögn er orka, sem nægir til að sprengja upp hnöttinn. — Það er því algerlega ófullnægjandi að mála aðeins ytra útlit hlutanna, en sleppa alveg að minnast á alla þá dularfullu leyndardóma, sem í þeim býr. Náttúrustælingar minna einna helzt á falska mynt. Maður verður fyrir vonbrigðum að fá eftirlíkingu af hlutnum, en ekki hlutinn sjálfan. Ég minnist þess sem barn, að ég kom oft í hús, þar sem málverk af fossi hékk yfir legubekk. Ég þorði aldrei að setjast á bekkinn af hræðslu við að fá fossinn yfir mig. Mynd af eplum vekur hjá manni löngun í epli. Þannig eru áhrif hlutrænna mynda meira og minna „útvortis", ef svo mætti kalla. Óhlutræn list er því enn nær veruleikanum en sú, sem aðeins líkir eftir ytra útliti hlutarins — hún talar til tilfinninganna milliliðalaust, án þess að nota hlutrœn tákn (symbol), sem draga athyglina frá aðalatriðinu.SjálfsmyndMálverk á að lifa sínu eigin lífi.


— Ef fávís maður sæi óhlutræna mynd og langaði til að forvitnast um af hverju hún væri — hverju á þá að svara?

— Það er álíka fjarstætt, þegar um óhlutræna mynd er að ræða, að spyrja: Hvað á þetta að vera? eins og að taka stein upp af götunni og spyrja: Hvað á þetta að vera? Málverk á að lifa sínu eigin lífi, eins og allir aðrir hlutir, án þess að vera eftirlíking af nokkru öðru.


Misskilningurinn mikli.


— En nú kvarta margir sáran undan því, að þeir botni ekkert í óhlutrænni list — hvað veldur?

— Margir eiga bágt með að fylgjast með hinum ýmsu formum hinnar óhlutrænu listar og kalla klessuverk, kák og annað verra. Stafar það mest af því, að menn eru að leita að einhverju öðru í myndunum, sem ekki er þar fyrir, og verða því fyrir vonbrigðum, er menn finna það ekki. Snýst þetta oft upp í reiði gegn listamanninum, sem menn ásaka um að hafa blekkt sig. Og stundum verða menn bálreiðir við málverkið og láta reiði sína bitna á því. Þetta er þó ekki eins dæmi í málaralistinni, smbr. það, að margir menn urðu svo móðgaðir, þegar því var haldið fram, að jörðin snerist, að vísindamaðurinn, sem hafði uppgötvað þessi sannindi, varð að sverja fyrir þau, til þess að bjarga lífi sínu.FjörumyndKonumyndMyndræn og persónuleg sjónarmið.


— En kemur ekki fleira til greina í þessu sjónarmiði manna?

— Jú algengt er, að menn láti efnisval mynda hafa áhrif á mat sitt á þeim. T. d, að álíta, að mynd af Jesúbarninu hljóti að vera miklu fallegri en mynd af venjulegu barni. Mat á landslagsmynd fer oft eftir því, hvort menn hafa skemmtilegar endurminningar frá þeim stað eða ekki. Annað sjónarmið á landslagi kemur fram í þessari vísu:

Ég vildi, að sjórinn yrði að mjólk
og undirdjúpin að skyri —

Öll þessi sjónarmið eru fremur persónuleg en myndræn. Myndrænt sjónarmið kalla ég það, þegar menn skynja andstæðu-áhrif lína og flata, þvi að eins og lífið er byggt upp af tveimur andstœðum, þannig er líf hvers málverks byggt upp af andstœðu-áhrifum lína, lita og forma.


Um nútíðarlist almennt.


— Hvað finnst þér sterkasti þáttur í nútíðarlist?

— Það má segja um málverk vorra tíma, að þau séu meira máluð sjálfkrafa (spontant) en eftir áætlun. Oft hlaupa menn auðvitað í gönur í þessari leit sinni, en eins og Leifur heppni fann nýja heimsálfu, þegar hann ætlaði til Grænlands, þannig opnast mönnum stundum nýr heimur, án þess að menn hafi ætlað sér að skilja við þann gamla. Og maður nemur aldrei ný lönd, nema maður þori að hætta sér út á hafið!Líf og list, 01.07.1950
Hlekkur á gagn