Stórval

VOÐALEGA NÁKVÆMUR„Finnst þér þær ekki fallegar frænkur mínar? Þær eru svo dulrænar og dugnaðarlegar á svipinn, allar bráðmyndarlegar og snjallar.“ Stefán frá Möðrudal er glaður og reifur á loftinu yfir Sóloni Íslandus þar sem nokkrar myndanna hans hanga nú til sýnis. „Ég á ógrynnis ósköp af myndum skal ég segja þér og sel grimmt. En frænkurnar læt ég ekki frekar en málverkið af konu minni eða systur eða snillingnum honum Frosta. Hann var uppáhald krakkanna þessi hestur, svona eins og kallinn.“ Stefán bendir á sjálfan sig og hlær mikið og hleypur milli myndanna þrátt fyrir auman fót og 85 ár í sumar. Hann segir margt af eigin uppátækjum og afa sínum sem var svo kvensamur og köllunum sem hann borðar með og hafa skalla af því þeir skola ekki sápuna nógu vel úr hausnum.

Ég málaði tíu myndir í nótt. Þykir þér ég ekki duglegur? Það verður að hafa þrautseigju til að mála og æfingu, voðalega æfingu. Ég er líka svo nákvæmur, hitti akkúrat á punktinn, sjáðu, það er enginn tilviljun heldur allt reiknað út eftir kúnstarinnar reglum.“ Stefán fellst á að tylla sér niður og biður um te, hann sé ansans ósköp ónýtur við bjórinn.


„Annars hef ég held ég ekki komist í annan eins þrældóm og núna,“ segir hann svo, „búinn að vaka þrjár nætur og mála, svona fyrir þessa sýningu. En hún er líka skemmtileg, líttu á, næstum allt myndir frá þessu sumri og síðasta vetri.“


Bölvun á útlöndum


Stefán Jónsson frá Möðrudal er þekktur naívisti og myndirnar hans hafa vissulega runnið út á sýningum síðustu ára. Þó á hann háa stafla bæði heima hjá sér og á Korpúlfsstöðum. „Þar á að setja inn Erró,“ segir hann, „ég skvetti augunum yfir það skilerí og hristi höfuðið, hann hefur menn til að mála fyrir sig úti í heimi. Ég hef bölvun á útlöndum og öngva löngun til að þvælast þar. Þá vil ég heldur byggja upp landið og mála af því myndir. Þekki það líka eins og lófann á mér. Ég er Íslendingur elskan mín og mála það sem er erfiðast að mála og aðrir geta ekki eða láta sér ekki detta í hug. Herðubreið og hólana og fjöllin úr Möðrudal og hesta og krakka. Stundum set ég andlit á þá, en ekki alltaf, það kaupir þetta jafnt hvort sem er. Þegar ég teikna andlit er ég ógurlega nákvæmur í útlínum þótt ég sé fljótur og gæti að því að augun séu svona á réttum stað. Ég hef gaman af krökkunum, þau punta og eru líka svo góð við kallinn.“


Stórval


Stórval stendur skrifað á sumum myndanna og Stefán á ekki í vandræðum með að skýra það. „Þetta er bara nafnið mitt, St fyrir Stefán og ó úr Jónsson. Svo heiti ég líka Vilhjálmur og þar hefurðu vaffið og errið en ellið kemur frá Láru konu minni. Þetta er nú ein ágæt skýring á þessu, ég hef merkt ótal myndir svona, það er miklu skemmtilegra.“ Stefán segist hafa farið að mála fimm ára, lært af Hauki Stefánssyni frænda sínum og fylgst með Ásgrími Jónssyni sem kom í Möðrudal nokkur sumur til að mála. „Haukur gekk í amerískan listaskóla og kenndi mér að nota almennilega liti,“ segir hann. „Ég fæ þýskan leir í pundatölu og miklu billegar heldur en hér og þess vegna get ég málað þessi býsn. Það eru margir að tapa heilsunni yfir stybbulitum, en ég læt nú ekki svoleiðis ósköp yfir mig ganga og held mig við leirinn.“Lára: Stefán málaði þessa mynd af konu sinni, en þau bjuggu saman í tvo áratugiÞegar Stefán óx úr grasi gafst lítill tími frá bústörfum fyrir málaralist og hann tók ekki til við að mála af kappi fyrr en eftir að komið var til Reykjavíkur upp úr miðri öldinni. „Fyrst var ég smiður í Sindra og þá voru búin til almennileg kúbein,“ segir hann. „Síðan hjólaði ég mikið um bæinn og hafði oft með mér harmonikku og málaði líka. Ég fór einstaka sinnum austur en ekki í seinni tíð. Þegar maður er orðinn margmilljóner í myndum er athugunarvert að fara frá þeim. En úr því ég ég minnist á músíkina verður að segja hvernig ég varð söngstjóri í Möðrudal og tónskáld. Það var nefnilega hún amma mín sem kenndi mér að syngja, hún var hógvær og stillt hún Árnfríður á Ljósavatni og hélt nú að ég gæti sungið Sólsetursljóðið þótt aðrir tryðu því ekki. Svo gaf hún mér tóninn svo lítið bar á og seinna gat ég spilað áttraddað á píanó. Það geri ég ennþá mér til skemmtunar heima. Annars spila ég minna núna þegar ég mála svona hrottalega mikið og svo finnst mér líka oft að leggjast fyrir þegar ég er syfjaður.“


Kvensemi


Stefán fæddist á Arnórsstöðum í Jökuldal sumarið 1908 en segist hafa verið um tíma hjá afa sínum og nafna í Möðrudal eftir að hann ofkældist og veiktist þriggja ára gamall. „Afi var svo kvensamur og ein dætra hans; sem raunar var öðrum kennd, kom í mig lífinu aftur. Hún hét Stefanía, fjarskalega geðgóð en fékk berkla og dó rétt um tvítugt.“ Hann bendir mér á gula og græna andlitsmynd sem hann segir af henni þegar veikindin herjuðu á. „Afi var fríður, og lipur málamaður og mikilhæfur bóndi. Hann átti sex börn með ömmu og sex önnur með ýmsum konum sem líkaði vel við hann og langaði að eignast barn. Mér finnst eiginlega ágætt að hann skyldi eignast þessa krakka, þetta er sómafólk.“ Stefán fór aftur til foreldra sinna í Víðidal og byrjaði snemma að sinna búverkum þar. „Það þurfti að sinna dýrunum vel og svo var gestkvæmt og miklar annir í Möðrudal eftir að við fluttum þangað. Ég held nú að pabbi hafi aldrei tekið fram hjá mömmu en hún var líka sérstaklega hugljúf kona. Guðlaug Þorsteinsdóttir hét hún og var ekkert blávatn þótt hún væri prúð, afskaplega vel að sér og snilldarkona, ég held að myndin mín af henni sé hérna á neðri hæðinni. Pabbi gat verið hvass og ákveðinn. Hann málaði líka og spilaði vel á orgel.“


Land, fjall og hross


Stefán kvæntist 1931 og bjó með Láru konu sinni í tvo áratugi, fyrst í Möðrudal og síðar á Einarsstöðum í Vopnafirði. „Blómabúi alveg hreint með börnin hennar og okkar,“ segir hann. „Lára var frá Grund í Eyjafirði, bráðmyndarleg og góð söngkona.“ Á þessum árum var Stefán í brúarsmíði með búskapnum og segir ekki hafa veitt af manni sem vissi um landið þegar brúa þurfti jökulárnar. „Það kemur sér líka vel að kunna hverja þúfu þegar maður er heima hjá sér í bænum að mála. Það vilja alltaf koma nokkrar myndir af Herðubreið hjá mér, hún er svo mikið snilldarfjall. Ég hef hana í miðjunni með Bræðraskarði öðru megin og Upptyppingum hinu megin, þótt þeir séu miklu innar. Ég bara færi þá. Svo þykir mér klárarnir glæsilegir. Frosti og Mökkur og Harði Rauður. Þær eru voða eftirsóttar hestamyndirnar mínar, ég málaði þrjár í nótt. En eina hef ég hérna sem ekki má selja, hún er allra eftirsóttust og ég hef hana bak við krossviðarplötu heima til að enginn taki hana.“Möðrudalur: Stefán þekkir hann eins og lófann á sér.Jafnaldrar


Stefán keypti sér hús við Hverfisgötu ekki alls fyrir löngu og fer í mat á Droplaugarstöðum. Hann segist eldsnöggur að taka þar af borðunum, enda hafi hann lært í Möðrudal að vinna hratt og rólega í senn. „En lebenið á fólkinu þarna líst mér ekki á,“ segir hann, „það verður sljótt af að sitja allan daginn og dotta í iðjuleysi. Kallarnir fara sumir í laugarnar og veistu þeir eru nauðasköllóttir. Það er vegna þess að þeir skola ekki nógu vel á sér hausinn. Sápan gerir þetta.“ Nú er Stefán minna á ferðinni um borgina en áður, hann er inni og málar en fer þó stundum til Bernhöfts að fá sér brauð. „En maður á að fara út líka og tala við kunningja sína og það vill til að ég þarf svo oft í bankann. Ég sel svo ógrynnis mikið sjáðu. Set bara upp húfuna svona og skvetti mér í bæinn.“

Þ.Þ.
Morgunblaðið, 17.07.1993
Hlekkur á gagn