Myndlistamaðurinn með hans eigin orðum.


Vasinn er tákn fyrir gersemar, hans hlutverk er að varðveita góss og dýrmæti sögunnar. Brotinn vasi stendur aftur á móti fyrir þekkingarleysi og fáfræði – að sniðganga verðmætin sem liggja á víð og dreif. Myndlistarmaðurinn finnur oft fyrir löngun til að tjá sig með orðum; opna skissubók hugans, henda í eina vísu og leika sér með tungumálið. Hann hittir blaðamenn og byggir brýr milli verka sinna yfir til lesenda. Myndlistarmenn eru næmir á umhverfið, benda ýmist á eða vara við – nálgun þeirra á heiminn er önnur.

Það kom köllun úr draumi. Blái vasinn hefur erindi að gegna. Safnari að eðlisfari. Sívaxandi heimkynni orða myndlistarmanna á Íslandi: töluðum og skrifuðum. Opinn að ofan og móttækilegur, inn í honum rúmast heill skógur; óræktaður flækjuviður ímyndunarafls, forsjáar og kímni. Blái vasinn lítur í baksýnisspegilinn, sækir þaðan sitthvað úr myndlistarsögunni og sveiflar fram í dagsljósið.

Blái vasinn vill næra samræðu og samtímavitund um myndlist á Íslandi. Mikilvægt er að geta nálgast og uppgötvað sýn myndlistarmanna í gegnum tímann – orð þeirra og skrif. Skrif listamanna má finna víða í bókum, tímaritum og sýningarskrám, ofan í skúffum og skókössum – margir textar eru ill aðgengilegir almenningi eða hafa horfið af sjónarsviðinu. Blái vasinn er nýtt rými/vettvangur fyrir söfnun og birtingu á texta og samræðum.

Á vefsíðu sem þessari verður hægt að fá yfirsýn yfir skrif listamanna í þeim tilgangi að auðga skilning almennings á hugmyndum þeirra og verkum, opna hug þeirra fyrir stærra samhengi listarinnar og áhrifamætti hennar (frjóu andrúmslofti). Sökum fámennis og ungrar myndlistarsögu á Íslandi teljum við að hægt sé að öðlast slíka yfirsýn á „orð“ myndlistarmannsins á Íslandi og í því sé fegurðin fólgin. Í gegnum orð myndlistarmanna fáum við að kynnast starfi þeirra nánar, hugmyndum, ferli, skoðunum.


- Kristín Karólína Helgadóttir


VIRKNI SÍÐUNNAR


Öll gögn, gömul og ný, eru hýst í sama gagnagrunni. Eftir því sem lesandi kýs má leita að gögnum í flipunum:

Listamenn

Flokkar


Ný gögn sem við umsjónarmenn Bláa vasans hvetjum til eru:

Vasaviðtöl

Innanávasinn


Vasaviðtöl eru röð viðtala sem umsjónarmenn Bláa vasans eiga við myndlistarmenn, eða þar sem tveim eða fleiri listamönnum er teflt saman til samræðu.
Í innanávasanum má finna áður óbirta texta og gögn sem Bláa vasanum hafa borist frá myndlistarmönnum.


SAMSTARF


Blái vasinn byggist á samvinnu við stofnanir og einstaklinga. Við hvetjum myndlistarmenn, stofnanir og einstaklinga til að vera í sambandi við okkur varðandi gögn, gömul og ný. Ef áhugi er fyrir hendi, að leggja verkefninu lið, með ábendingum eða framlögum má gjarnan hafa samband: blaivasinn@gmail.com


NOTAGILDI


Blái vasinn nýtist lærðum og leiknum í leik og starfi. Öll gögn eru rekjanleg; í lok hvers gagns má finna uppruna þess, til dæmis á netinu, á söfnum, í tímaritum eða í fórum myndlistarmanns.
Vakni spurningar um uppruna gagna má lesandi hafa samband: blaivasinn@gmail.com.


Blái vasinn var opnaður í september 2017. Umsjónarmenn Bláa vasans eru Guðlaug Mía Eyþórsdóttir og Kristín Karólína Helgadóttir.

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f.1988) lauk B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2012. Hún var ein af stofnendum sýningarrýmisins Kunstschlager (2012-15) og útgáfunnar Gamli Sfinxinn. Hún nemur nú í Gent í Belgíu þaðan sem hún lýkur mastersgráðu í myndlist vorið 2018. Nýverið tók Guðlaug Mía þátt í stofnun sýningarrýmisins ABC Klubhuis í Antwerpen, Belgíu.
Guðlaug Mía sá um forritun Bláa vasans.

Kristín Karólína Helgadóttir (f.1988) lauk B.A. prófi í listfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún var meðlimur sýningarrýmisins Kunstschlager (2013-15) og einn af stofnendum útgáfunnar Gamli Sfinxinn. Kristín leggur stund á myndlist í Belgíu þar sem hún nú býr.


Styrktaraðilar:2017 Rannís: Nýsköpunarsjóður námsmanna: nr. 174730-0091